Almenningshlutafélagið sem Warren Buffett stýrir, Berkshire Hathaway, virkar fljótt á litið ekki mjög spennandi. Einhverskonar fjárfestingarfélag, samsteypa ólíkra fyrirtækja þar sem mikil áhersla er á tryggingarrekstur í bland við ýmis fyrirtæki sem fæstir hafa heyrt um. Höfuðstöðvar félagsins eru í litlausum steypukassa í Omaha, Nebraska. Ekkert „sexy" og ekkert „hype". Andstæða þess sem almennir fjárfestar sækjast eftir, myndi maður ætla.

Þrátt fyrir þetta er aðalfundur Berkshire Hathaway stundum kallaður Woodstock fyrir kapítalista eða „Mekka" virðisfjárfesta (e. value investors). Ástæðan: Það mæta yfirleitt um 40 þúsund manns á fundinn (á COVID lausum tímum). Það er fyrir utan þá fjölmörgu hluthafa og fjárfesta um allan heim sem bíða spenntir eftir fréttum og upplýsingum frá fundinum. Ótrúleg ávöxtun Berkshire Hathaway í gegnum árin skýrir þennan áhuga eflaust að miklu leyti, en það þarf meira til.

Warren Buffett á það til að synda á móti straumnum, hvort sem það er í fjárfestingum eða fjárfestatengslum. Þegar ég las fyrst að hann ætti nánast aldrei fundi með greiningaraðilum og fjárfestum og birti aldrei afkomuspá blöskraði mér. Hvernig gat þessi hetja fjárfestaheimsins verið svona mikill sóði í fjárfestatengslum?

Þegar betur var að gáð kom auðvitað annað í ljós. Warren Buffett leggur einmitt mikla áherslu á fjárfestatengsl, en gerir það með öðrum hætti en almennt gengur og gerist. Skýringin á því hvers vegna hann vill helst ekki eiga fundi með fagfjárfestum er sú að það myndi þýða að almennir fjárfestar fengju ekki sömu upplýsingar og sömu tækifæri til að spyrja spurninga, á sama tíma.

Að hans mati er skilvirkasta leiðin til að eiga samskipti við þúsundir fjárfesta í einu að gera það skriflega. Hann skrifar ítarleg bréf til hluthafa og gefur þeim að auki tækifæri til þess að koma spurningum á framfæri, sem hann svarar einnig opinberlega og á jafnræðisgrunni.

Spurður um nálgun sína í fjárfestatengslum, á fundi 2011, sagðist hann byrja á því að skrifa bréf til systra sinna, sem eru vel að sér í fjárfestingum en hafa ekki tíma til að liggja yfir ársreikningum dag og nótt. Hann ímyndar sér að þær hafi verið fjarverandi í ár og vilji vita hvað hafi verið í gangi. Hann skrifar þeim bréf með öllu því sem hann myndi sjálfur vilja vita um reksturinn, væri hann í þeirra sporum. Loks strokar hann nöfn þeirra út og birtir bréfið opinberlega.

Þrátt fyrir að hluthafar Berkshire Hathaway skipti væntanlega hundruðum þúsunda lítur hann á hvern og einn þeirra sem samstarfsaðila. Rétt eins og ef um væri að ræða einkahlutafélag sem hann ætti með systrum sínum. Hann vill halda hluthöfum eins vel upplýstum og mögulegt er um hvað hann og Charlie Munger, samstarfsfélagi hans, eru að gera og hugsa.

Í nýjasta bréfi sínu til hluthafa vísaði Warren Buffett í bók þar sem rekstri almenningshlutafélaga var líkt við rekstur matsölustaða. Matsölustaðir gætu laðað til sín viðskiptavini og blómstrað með því að bjóða upp á borgara og kók eða franska matargerð og fágæt vín. En ekki með því að reyna að höfða til allra í einu. Skilaboðin til viðskiptavina þurfi að vera skýr og í samræmi við máltíðina sem verður borin fram.

Warren Buffett hefur boðið upp á borgara og kók í 56 ár. Hann leggur mikla áherslu á að ná til almennra fjárfesta, sem deila framtíðarsýn hans og hugmyndafræði, og uppsker eftir því. Það hentar alls ekki öllum að fara sömu leið og Warren Buffett í fjárfestatengslum. Sumir eru einfaldlega færari í því að bera fram boeuf bourguignon með góðu víni. En með vaxandi þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði geta líklega allir stjórnendur almenningshlutafélaga lært eitthvað af Warren Buffett.

Höfundur er framkvæmdastjóri sölu og viðskiptatengsla Nasdaq Iceland.