*

föstudagur, 16. apríl 2021
Óðinn
16. desember 2020 07:20

Fjárfesting eða eyðsla

„Ef Óðinn þyrfti að setja saman ríkisstjórn þá myndi hann velja einstakling eins og Ásdísi Kristjánsdóttur“

Vestmannaeyjar.
Haraldur Guðjónsson

Þessa dagana er mikið rætt um nauðsyn þess að ríkissjóður og sveitarfélög ráðist í fjárfestingu svo koma megi hjólum atvinnulífsins aftur af stað í kjölfar COVID-19. Þessi svokallaða fjárfesting verður að mestu tekin að láni. Einn stærsti ókosturinn við lán, þegar lántaki á í hlut, er að lánin þarf að greiða til baka.

* * *

Óðinn er þeirrar skoðunar að þessi umræða sé á miklum villigötum og stjórnmálamenn og sveitarstjórnarfólk virðist margt hvert vera á sömu villigötunum.

Fjárfesting er eign sem annaðhvort hækkar í verði eða skilar arði í framtíðinni. Þá er rétt að skoða hvaða felst í fjárfestingunum.

Mbl.is birti frétt á mánudag um að Vestmannaeyjabær hyggist fjárfesta fyrir einn milljarð í ýmsum framkvæmdum og verkefnum. Á vef Vestmannaeyjabæjar segir um þessar svokölluðu framkvæmdir:

„Gert er ráð fyrir tæpum 1.015 m.kr. (rúmum milljarði) í eignfærðar framkvæmdir á næsta ári. Er þar um að ræða fjölda verkefna sem skapa vinnu í Vestmannaeyjum, en jafnframt verðmæti fyrir Vestmannaeyinga, svo ljósleiðaravæðingu, aðstöðu fyrir nýsköpun- og frumkvöðlastarf og aðra mikilvæga starfsemi. Þá er gert ráð fyrir tæpum 279 m.kr. til ýmissa gjaldfærðra verkefna, svokallaðra sérsamþykkta, sem ekki tilheyra lögbundnum verkefnum og reglubundnum grunnrekstri sveitarfélagsins. Um er að ræða ýmis átaksverkefni, heilsueflingu, bætt umhverfi og aðstöðu fyrir Vestmannaeyinga, spjaldtölvuvæðingu í grunnskólunum, áframhaldandi átak á ferðamá[l] og ýmis önnur framfaraverkefni.“

* * *

Þegar sjálf fjárhagsáætlun bæjarins fyrr næsta ár er skoðuð má sjá að langminnstur hluti þessara framkvæmda mun gefa nokkurn arð af sér. Stærstu verkefnin eru slökkviliðsstöð fyrir 285 m.kr. og endurbygging ráðhúss fyrir 180 m.kr. Óðinn ætlar auðvitað að ekki segja til um hvort nauðsynlegt er að byggja nýja slökkviliðsstöð og endurbyggja ráðhús, eða hvort hægt er að gera það á hagkvæmari hátt.

En það verða allir að gera sér grein fyrir því að þar sem byggingar sem þessar verða ekki seldar, hækka líklega ekki í verði og gefa ekki af sér tekjur, heldur skapa miklu heldur kostnað, þá getur sveitarfélag ekki skuldsett sig fyrir þessu nema tvennt komi til, hærri álögur á íbúa framtíðarinnar eða dregið verði úr þjónustu.

Vestmannaeyjabær er reyndar eitt fárra sveitarfélaga sem stendur vel og því hefur sveitarfélagið getu til þess að standa undir framkvæmdunum, átti um 3 milljarða í handbært fé í árslok í fyrra. Hins vegar má velta fyrir sér hvort ekki hefði verið nær fyrir bæjarstjórnina í stað þess að eyða þessum peningum íbúanna í verkefni bæjarins að afhenda íbúunum hluta þessara í formi niðurfellingar álaga, til dæmis á fasteignagjöldum eða útsvari, þannig að þeir geti viðhaldið sínum húseignum.

* * *

Í Garðabæ er verið að byggja íþróttamannvirki fyrir 4,2 milljarða króna. Þegar Óðinn heyrði þessa tölu fyrst þá trúði hann ekki eigin eyrum. Garðabær er ágætlega stætt fjárhagslega en skuldir og skuldbindingar eru 15 milljarðar króna í lok árs 2019.

Óðinn á erfitt með að trúa því að það séu auðveld sporin fyrir Gunnar Einarsson bæjarstjóra að fara til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og segja að nú sé svo hart í ári hjá bænum, eins og öllum hinum sveitarfélögunum í landinu, að ríkissjóður verði að hlaupa undir bagga.

* * *

Í gærmorgun birti Fréttablaðið frétt um að sveitarfélögin og Seðlabankinn séu í viðræðum um að bankinn kaupi skuldabréf beint af sveitarfélögum. Í samtali við blaðið sagði Dagur B. (sem stendur víst ekki fyrir Bloomberg) Eggertsson:

„Við höfum verið að benda á að ríkisstjórnir og seðlabankar hafa verið að styðja við sveitarfélög og borgir víðs vegar um heim. Hvort heldur að horft er til Bandaríkjanna eða Svíþjóðar, þar sem seðlabankar hafa verið að kaupa skuldabréf sveitarfélaga.“

* * *

Óðinn man ekki betur en að það sé sérstakur sjóður á vegum sveitarfélaga, Lánasjóður sveitarfélaga, sem hefur einmitt það hlutverk að lána sveitarfélögunum. En hvort sem Seðlabankinn kaupir skuldabréfin beint eða í gegnum lánasjóðinn þá væri Seðlabankinn að niðurgreiða vexti til sveitarfélaganna, rétt eins og ætlunin er að gera til ríkissjóðs, og að minnsta kosti að notast við leið peningaprentunar. Peningaprentun getur haft vond áhrif á verðlag í landinu og er auðvitað skattur á alla þá sem eiga peninga.

* * *

En versta niðurstaðan væri sú að sveitarfélögin fái lága vexti og noti það ekki til að grynnka á skuldum sínum heldur auka þær í nafni fjárfestingar – sem hugsanlega aldrei mun skila arði.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er ein fárra sem hafa leyft sér að benda á hvers konar ógöngur við stefnum í í fjármálum ríkisins og sveitarfélaga. Í tímariti Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, skrifar Ásdís grein um einmitt þetta:

„Þessar skuldir þarf á einhverjum tímapunkti að greiða til baka, bæði af núverandi skattgreiðendum og komandi kynslóðum. Skuldir hins opinbera eru að tvöfaldast vegna kórónukreppunnar. Þetta er gríðarlega mikil skuldasöfnun á skömmum tíma. Þá gera áætlanir ráð fyrir hallarekstri út árið 2025 - það er mikið áhyggjuefni ef ríkissjóður nær ekki jafnvægi á jafnlöngum tíma“.

* * *

Ásdís bendir á að ríkisapparatið og sveitarfélögin koma með hverja útgjaldahugmyndina á fætur annarri.

„Á meðan virðist hins vegar vera nægt framboð af tillögum um hvernig ríkissjóður eigi að auka útgjöld enn frekar. Hugmyndir um að ríkissjóður eigi einnig að fjármagna hallarekstur sveitarfélaga fyrir tugi ef ekki hundruð milljarða króna eru mjög óábyrgar. Fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga er mikið hér á landi, sveitarfélögin eru með sjálfstæða tekjustofna og framlög ríkissjóðs til þeirra því lágt. Fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna hlýtur að gilda í niðursveiflu eins og í uppsveiflu. Þá virðist gleymast í þessari umræðu að ríkissjóður er nú þegar að styðja við sveitarfélögin með auknum útgjöldum vegna atvinnuleysis, tekjutengdra atvinnuleysisbóta og hlutabótaleiðarinnar sem helsta tekjuöflun sveitarfélaga, útsvarið, byggir á.“

Ef Óðinn þyrfti að setja saman ríkisstjórn þá myndi hann velja einstakling eins og Ásdísi Kristjánsdóttur í stól fjármálaráðherra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.