*

þriðjudagur, 31. mars 2020
Heiðrún Lind Marteinsdót
10. janúar 2020 07:21

Fjárfesting, ekki útgjöld

„Stjórnvöld verða því að komast frá þeirri hugsun að hafrannsóknir séu eingöngu útgjöld, það eru þær ekki“

Árni Friðriksson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar.
Einar Ásgeirsson

Til þess að hægt sé að veiða loðnu við Ísland, þarf að mæla útbreiðslu hennar og þéttleika torfa. Það gilda ákveðnar reglur um hvernig sú mæling skuli gerð. Til þess að mælingar á loðnu séu nógu áreiðanlegar þarf fleiri en eitt skip að taka þátt. Ef vel á að vera þurfa þau að vera þrjú til fjögur. Lögbundið hlutverk Hafrannsóknastofnunar er að sinna rannsóknum í hafi í kringum Ísland, loðnumælingar þar með taldar, enda góður bragur á því að hlutlaus vísindastofnun sé ábyrg fyrir því. Þannig tekst okkur Íslendingum að tryggja að sjálfbærar veiðar okkar séu viðurkenndar á alþjóðavísu. Oft er það forsenda þess að geta selt afurðir á erlendum mörkuðum.

Íslendingar eru þjóð sem mark er tekið á, á alþjóðlegum vettvangi þegar kemur að sjávarútvegi. Þeirri stöðu hafa Íslendingar meðal annars náð vegna þess að hér hefur hafrannsóknum verið sinnt. Eftir því sem árin líða, hafa þessar rannsóknir orðið mikilvægari og er þar að sjálfsögðu átt við þær breytingar sem hafa orðið í hafinu. Ekki þarf að draga í efa að allir vilja gera vel í þessum efnum, það á einnig við um ríkisstjórnina. Í stjórnarsáttmála segir, að hafrannsóknir gegni lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þurfi að efla. Undir þetta má taka.

Stundum er sagt að það þurfi pening til þess að búa til pening. Það á svo sannarlega við þegar veiðar á villtum fiskistofnum við Ísland eiga í hlut. Höfum í huga að útflutningsverðmæti sjávarafurða í fyrra var hátt í 300 milljarðar króna. Góð loðnuvertíð getur hæglega lagt sig á 25 milljarða. Stjórnvöld verða því að komast frá þeirri hugsun að hafrannsóknir séu eingöngu útgjöld, það eru þær ekki; þær eru fjárfesting og grunnforsenda þess að gera megi verðmæti úr sjávarauðlindinni.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.