*

fimmtudagur, 4. mars 2021
Leiðari
15. mars 2014 10:45

Fjárfestingarsamningar

Ríkisstjórnin mætti íhuga að gera almennan fjárfestingarsamning við íslenskt atvinnulíf frekar en að semja við einstök fyrirtæki.

Haraldur Jónasson

Fyrir rúmum mánuði var skrifað undir fjárfestingarsamning stjórnvalda og líftæknifyrirtækisins Algalíf, sem er í eigu norsks fyrirtækis. Þetta er sjöundi slíki samningurinn sem stjórnvöld hafa gert frá árinu 2010, en í frétt Viðskiptablaðsins í dag kemur fram að samningurinn feli í raun í sér 228 milljóna króna aðstoð ríkis og Reykjanesbæjar við fyrirtækið í formi afslátta af opinberum gjöldum af ýmsu tagi. Fyrirtækið greiðir t.a.m. 18% tekjuskatt í stað 20%, verður undanþegið stimpilgjöldum, greiðir helmingi lægra tryggingagjald og verður undanþegið markaðsgjaldi, svo dæmi séu tekin.

Það er margt sem kemur upp í hugann við lestur svona frétta. Fyrst ber þó að segja í þessu sambandi að lítið er við fyrirtækið að sakast. Stjórnendur þess vilja að sjálfsögðu lágmarka skattbyrði sína, eins og í öllum öðrum fyrirtækjum, og ef stjórnvöld eru tilbúin að aðstoða þá við það ætti ekki að koma neinum á óvart að stjórnendurnir taki slíkum þreifingum fagnandi. Afstaða stjórnvalda er hins vegar furðulegri.

Þetta er nefnilega í grunninn réttlætismál. Af hverju ættu það bara að vera sum fyrirtæki sem fá að starfa í þessu vingjarnlega skattaumhverfi? Væntanlega eru svona samningar gerðir vegna þess að menn hafa af því áhyggjur að án þeirra myndi erlent fjármagn ekki koma til landsins og uppbyggingin yrði engin. Segir þetta ekki allt sem segja þarf um starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja? Ef menn hafa af því áhyggjur að nýfjárfesting sem þessi verði ekki að veruleika vegna þess að opinber gjöld eru of há þá er borðleggjandi að lækka þau yfir línuna.

Svo er þetta líka samkeppnismál. Vissulega eru ekki mörg, ef nokkur, íslensk fyrirtæki sem starfa á sama markaði og Algalíf og má því með nokkrum sanni segja að fjárfestingarsamningurinn skekki ekki samkeppnisstöðu að þessu leyti. En það er samkeppni um fjármagn og samningar sem þessir sem mismuna fjármagnseigendum. Þeir sem geta komið með fé til landsins, útlendingar sem Íslendingar, virðast ekki aðeins fá afslátt hjá Seðlabankanum, heldur fá þeir tugi milljóna í afslátt hjá hinu opinbera ef fjárfestingar þeirra eru stjórnmálamönnum þóknanlegar.

Stjórnmálamenn eru oft mjög örlátir á annarra manna fé þegar það passar við þá persónulegu pólitísku hagsmuni. Þessir hagsmunir felast ekki síst í því að „búa til störf“ í kjördæminu. Í þessu tilviki verða störfin þrjátíu talsins. Það er allt og sumt sem þarf til að fá sérstakan fjárfestingarsamning. Ef eymdin á Suðurnesjum er svona mikil hlýtur að vera hægt að gefa öllum fyrirtækjum sem þangað koma viðlíka afslátt, hvers lenskt sem fjármagnið er.

Allt frá hruni hefur fjárfesting aðeins verið brot af því sem nauðsynlegt getur talist til að viðhalda hér hagvexti til lengri tíma. Eitthvað virðist vera að birta til, en eins og fram kom á Viðskiptaþingi um daginn virðast aðstandendur sprotafyrirtækja helst hafa áhuga á því að koma sér og fyrirtækjunum úr landi. Fjárfestingarsamningar þar sem erlendum fjárfestum er gefinn afsláttur af opinberum gjöldum gera ekkert til að koma í veg fyrir þann flótta.

Ríkisstjórnin mætti taka það til alvarlegrar íhugunar hvort ekki sé tilefni til að gera almennan fjárfestingarsamning við íslenskt atvinnulíf, minnka álögur og einfalda regluverk. Vafalaust myndi það hafa meiri og víðtækari áhrif til hins betra en einstakir samningar sem þessi.

Stikkorð: Leiðarar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.