Fjárfestingarstefnur hafa sögulega tekið litlum breytingum. Algengt viðmið í gegnum tíðina hefur verið að fjárfesta í kringum 40% í skuldabréfum og 60% í hlutabréfum. Önnur þumalputtaregla er að fjárfesta jafn mikið magn í hlutabréfum og 100 mínus aldur hvers og eins segir til um. Samkvæmt því ætti 30 ára gömul manneskja að hafa 70% sparnaðar í hlutabréfum en sextugur einstaklingur einungis um 40% í hlutabréfum.

Gullnu reglurnar – pýramídi

Hvað sem öllu líður hefur meginreglan verið sú að fólk, sérstaklega þeir einstaklingar sem eru komnir yfir fimmtugt, eigi að hafa meginþunga fjárfestinga sinna í frekar öruggum fjárfestingum. Stundum hefur þessu verið lýst sem pýramída, þar sem stærstur hluti fjárfestinga er skilgreindur sem öruggur, eins og skuldabréf og bankainnstæður, svo einhver hluti í minna öruggum fjárfestingum eins og hlutabréf og svo að lokum agnarbrot í það sem kalla megi áhættufjárfestingar.

Núverandi ástand – öfugsnúinn pýramídi

Þessi stefna hefur gefið mikið eftir undanfarin ár, og þá sérstaklega síðustu 12 mánuði. Segja má að margir fjárfestar hafi snúið pýramídanum við og hafi nú mestan þunga fjárfestinga sinna í áhættusömum fjárfestingum, einhvern hluta í miðlungs áhættusömum fjárfestingum og eiginlega ekki neitt í öruggum fjárfestingum. Það er ef til vill ekki furða, því að áhættufjárfestingar hafa veitt bestu ávöxtun síðustu tólf mánuði.

Stór ástæða þessa breytinga er Robinhood, sem er orðin vinsælasta gáttin í Bandaríkjunum varðandi fjárfestingar, sérstaklega hjá ungu fólki. Þar kostar ekkert að kaupa og selja bréf. Það er mikilvæg skýring á því að veltan hjá Robinhood-fjárfestum er margföld veltu annarra fjárfesta. Þetta tel ég að hvetji fjárfesta til að veðja frekar á skammtímasveiflur, oft byggt fyrst og fremst á hughrifum sem koma til dæmis fram á samfélagsmiðlum, í stað þess að taka ákvarðanir sem mótast af skynsamlegri nálgun af framtíðarhagnaði og áhættu tengdri slíkum fjárfestingum.

Stemmningin í dag á meðal slíkra notenda er umhugsunarverð. Margir aðilar eru að fjárfesta í rafmyntum (hér er ég ekki að vísa í rafeyri) og fyrirtækjum sem ég tel að flestir hafi litla þekkingu á. Ég er hugsi til dæmis yfir því hversu margir fjárfestar átti sig á því að fjárfestingar í bitcoin jafngilda í raun þátttöku við að styðja ólöglega starfsemi, þar sem slíkir peningar eru ekki rekjanlegir. (Því til viðbótar, í allri umræðunni um grænar fjárfestingar, er bitcoin-„framleiðsla“ að eyða gífurlegri orku sem betur væri nýtt í aðra framleiðslu.) Satt best að segja hefur mér ekki liðið eins mikið og ég væri „ekki að ná þessu“ í jafn miklum mæli síðan dot.com árin 1999-2000 þegar Nokia, Yahoo! og America OnLine (AOL) voru fyrirtæki framtíðarinnar. Sumir sem lesa þessar línur muna ef til vill eftir því að slíkar fjárfestingar reyndust vera glópagull.

Fjárfestingarstefna í dag – mestur þungi í „leiðinlegum“ hlutabréfum

Nú, þegar ríkisbréf veita í besta falli núll prósenta raunávöxtun í flestum löndum, eru margir farnir að efast um að 40/60 skiptingin á skuldabréfum og hlutabréfum eigi lengur við. Mikið er rætt um að fjárfestar þurfi nú að setja meiri peninga í hlutabréf en áður vegna þess hversu lág ávöxtunarkrafa skuldabréfa sé. Margir sem lesa slíkt stökkva væntanlega á tæknivagninn og fjárfesta þannig í framtíðinni. Vandamálið er að á tímum þegar Robinhoodfjárfestar hafa jafn mikil áhrif á gengi hlutabréfa og raun ber vitni freistast margir til að fjárfesta einfaldlega í þeim fyrirtækjum sem mest eru í fréttum, burtséð frá rekstri fyrirtækjanna eða raunhæfum væntingum.

Þó svo að framtíðarávöxtun ríkisbréfa sé væntanlega slök er ekki þar með sagt að engir fjármunir eigi að liggja þar. Þetta á sérstaklega við ef verðbólga verður neikvæð eftir nokkur ár. Að sama skapi er óskynsamlegt að fjárfestingarsöfn líti út eins og öfugur pýramídi. Sé litið til markaðsvirðis og vænts hagnaðar fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni er ávöxtunarkrafa gerð til hlutabréfa í kringum 5%. Á tímum þegar ávöxtunarkrafa gerð til ríkisbréfa með gjalddaga eftir 30 ár er tæplega 2,5% er eðlilegt að meiri vigt sé í hlutabréfum en 40/60 hlutfallið gefur til kynna. Fyrirtæki í slíkum söfnum ættu hins vegar að vera blönduð og endurspegla efnahagslífið frekar en aðeins tæknigeirann.

Meginþungi fjárfestinga hjá fólki ætti því að liggja í „leiðinlegum“ fyrirtækjum en engu að síður með einhvern hluta í stöndugum ríkisbréfum og lítinn hluta í framtíðarfyrirtækjum, sem eru þó í dag mörg hver dýru verði keypt. Því má við bæta að þessi „leiðinlegu“ fyrirtæki eru flest hver að umbreytast í tæknifyrirtæki. Má í því sambandi benda á að fyrirtæki eins og UPS og FedEx í aðfangastjórnun hafa varið gífurlegum fjármunum í að uppfæra tæknigetu sína, sem í dag skapar þessa auknu framlegð. Að mínu mati ætti að breyta stillingunni úr 60/40 yfir í 70/20/10, þar sem fjárfest er um 70% í hlutabréfum „leiðinlegra“ fyrirtækja, 20% í skuldabréfum og 10% í áhættusömum fjárfestingum.

Höfundur er lektor í fjármálum hjá Háskólanum í Reykjavík.