Í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmutdaginn fjallaði Óðinn um fjármál Reykjavíkurborgar og veltir sérstaklega hvort borgin stefni í greiðsluerfiðleika.

Hér er stutt brot úr pistli Óðins en áskrifendur geta lesið hann hér.

Fjárhagslegur harmleikur í boði Dags B. Eggertssonar?

Mig langar að tileinka sterkan ársreikning Reykjavíkurborgar 2021 - í miðju covid - hinum geðþekku og glaðhlakkalegu þátttakendum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem aðeins voru sammála eitt: að borgin væri gjaldþrota. Næsta umræðuefni, takk.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á Twitter 22. apríl 2022.

Borgarstjórinn Dagur skrifaði þessi orð rétt um þremur vikum fyrir sveitastjórnarkosningar í fyrra. Það er ekki ósennilegt að þetta tíst fari í sögubækurnar.

Ársreikningur borgarinnar fyrir árið 2021 var nefnilega ekki sterkur. Lunginn af 23,4 milljarða hagnaði A og B hluta Reykjavíkurborgar voru matsbreytingar í Félagsbústöðum, eða 20,5 milljarðar. Það eru allir endurskoðendur á Íslandi sammála um það, nema þeir tveir endurskoðendur sem rita undir ársreikninginn, að það gefi ekki rétta mynd af rekstri Reykjavíkurborgar að tekjufæra þessa matsbreytingu.

Að baki henni stendur ekkert. Bara loft. Því það stendur ekki til að selja félagsíbúðirnar.

***

Á þetta bendir Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs í skýrslu um árshlutareikning borgarinnar frá september 2022.

Hækkun fasteignaverðs hefur jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu Félagsbústaða vegna matsbreytinga en segir lítið um grunnrekstur félagsins nema að ábati af hækkun fasteignaverðs verði innleystur með sölu eigna. Til að meta stöðu grunnrekstrar er eðlilegra að horfa til rekstrarhagnaðar (EBIT) sem hækkaði um 2,2% á milli ára, en tekjur hækkuðu um 11,4% á meðan rekstrargjöld hækkuðu um 19,3%. Tekjur félagsins fylgja vísitölu neysluverðs, sem þýðir að hækkun fasteignaverðs og byggingarkostnaðar umfram verðlag hefur neikvæð áhrif á grunnrekstur félagsins vegna aukins kostnaðar við rekstur og viðhald fasteigna og öflun nýrra eigna.

Halldóra er þarna að segja að sú mikla hækkun fasteignaverðs sem var á þessum tíma var neikvæð en ekki jákvæð. Það er mikilvægt að enn er fólk innar borgarinnar sem er tilbúið að segja hlutina eins og þeir raunverulega eru.

Þá stóðu eftir 2,9 milljarðar króna í afgang. Sem verður að teljast bara ágætt. En skoðum þá aðeins vaxtagjöldin. Vegna Covid þá keyrði Seðlabankinn stýrivexti ofan í gólf. Vaxtagjöldin voru 4 milljörðum lægri en árið 2020. Það ár voru vextir þó sögulega lágir. Því var afkoman neikvæð við eðlilega vaxtarskilyrði.

Þá segja einhverjir, en það var Covid. Já. En það hafði engin áhrif á tekjur Reykjavíkurborgar. Þær hækkuðu mikið milli ára og voru tæpum 8 milljörðum yfir fjárhagsáætlun.

Þetta Covid tal í borgarstjóranum er því í besta falli blekkingartal.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út miðvikudaginn 13. apríl. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.