*

laugardagur, 23. október 2021
Óðinn
13. október 2020 07:59

Fjárlög og endalaus dæmi um sóun

Að tala um sóun í umræðuþætti í Ríkissjónvarpinu er svolítið eins og ræða um spillingu í höfuðstöðvum Cosa Nostra á Sikiley.

Eyþór Árnason

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var einkar góður í síðasta þættinum Silfrið, sem sýndur er í Ríkissjónvarpinu. „Við höfum séð blóðuga sóun úti um allt í opinbera kerfinu,“ sagði Bjarni við þáttastjórnandann Baldvin Þór Bergsson. „Dæmin eru endalaus,“ bætti Bjarni við.

Að tala um sóun í umræðuþætti í Ríkissjónvarpinu er svolítið eins og ræða um spillingu í höfuðstöðvum Cosa Nostra á Sikiley.

* * *

Allt að 4 milljarða sóun

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar mun Ríkisútvarpið kosta skattgreiðendur 4.515 m.kr. króna á næsta ári í stað 4.825 m.kr. í ár. Lækkunin er 310 m.kr. eða rúmlega sex prósent. Framlög til einkarekinna fjölmiðla verða 392 m.kr. og framlög til fjölmiðlanefndar verða 92,1. Það er líklega ekki hægt að finna eins augljósa sóun í ríkiskerfinu.

Ríkisútvarpið á að gegna mikilvægu hlutverki við að varðveita íslenska tungu og gerir það á margan hátt ágætlega. Hins vegar er vefur Ríkisútvarpsins svo slakur að stundum mætti halda að um væri að ræða stafsetningaræfingu í 11 ára bekk.

Málfræðivillurnar og stafsetningarvillurnar eru oft með ólíkindum. Slíkt er vissulega líka að finna á öðrum fréttavefjum, og jafnvel slæðist ein og ein villa með í Viðskiptablaðinu sjálfu, en einkareknu fjölmiðlarnir fá enga 4-5 milljarða úr vösum skattgreiðenda.

* * *

Ætla má að Ríkisútvarpið verji 1- 2 milljörðum króna til að varðveita íslenskuna. Þá telur Óðinn ekki þætti eins og Silfur Egils með. Þó til að mynda síðasti þáttur hafi verið mjög góður og þáttastjórnandinn sömuleiðis enda með góða reynslu úr Kastljósi, þá er engin þörf að á skattgreiðendur greiði fyrir slíka þjónustu.

Það sést best á því að annar Kastljósmaður, Kristján Kristjánsson, er með nákvæmlega eins þátt á Bylgjunni en einkastöðin sparar með lægri útsendingarkostnaði.

* * *

Ef ríkið myndi aðeins verja 1-2 milljörðum í Ríkisútvarpið, jafnvel þótt þeir væru 3, þá væri styrkurinn til einkafjölmiðlanna úr sögunni enda er rekstrarvandi þeirra eingöngu vegna vaxandi framlaga til Ríkisútvarpsins. Svo er rannsóknarefni hvernig rekstur fjölmiðlanefndar kostar 92,1 m.kr. enda er sú stofnun fullkomlega óþörf. Þarna er verið að sóa allt að 4 milljörðum króna.

* * *

Ríkisútvarpið er lítið en svo ágætt dæmi um sóun í ríkisrekstrinum. Bjarni Benediktsson nefndi dæmi um sóun í Silfursþættinum. Hann sagði að fyrir nokkrum árum hefði verið ákveðið að hætta að senda út gluggapóst vegna bifreiðagjalda. Á þessu hefði ríkið sparað hálfan milljarð. Þetta er önnur tegund sóunar og ekki síður vandræðaleg fyrir fjármálaráðuneytið. Spurningin er hins vegar hvort afkoma Íslandspósts hefur versnað sem þessari fjárhæð nam. Það er auðvitað önnur saga, og hugsanlega verri.

* * *

Eftirlit með útgjöldum

Sóun getur verið margs konar. Örorkugreiðslur í almannakerfinu kosta 203 þúsund á mann á ári, eins og sjá má í fjárlafrumvarpi fyrir árið 2021. Það er tæplega 20% ríkisútgjalda næsta árs. Þetta er ótrúlegt hlutfall. Sóunin í örorkukerfinu er annars vegar fólgin í því að ekki er gert nóg til að aðstoða þá sem hafa verið metnir með örorku til að komast út á vinnumarkaðinn og hins vegar virðist eftirlit með þeim sem svíkja út úr kerfinu vera lítið.

* * *

Ríkisendurskoðun skilaði Alþingi skýrslu árið 2013 um eftirlit með bótagreiðslum. Þar sagði m.a.:

Samkvæmt skýrslu dansks hugbúnaðar og ráðgjafarfyrirtækis (KMD) frá árinu 2011 má rekja 35% af heildarfjárhæð bótagreiðslna danska ríkisins til bótasvika. Fram kemur að bótasvik séu mismunandi eftir bótaflokkum. Hættan sé mest í flokkum eins og barnabótum, heimilisuppbót og félagslegri aðstoð þar sem hlutfallið geti numið yfir 20% af heildarútgjöldum. Þar af uppgötvast aðeins lítill hluti, t.d. telja dönsk sveitarfélög sig aðeins uppgötva 4–7% af þeim svikum sem beinast gegn þeim.

* * *

Velta má fyrir sér hvort eftirlit Tryggingastofnunar sé nægilega mikið og skilvirkt. Starfsmenn Tryggingastofnunar voru 101 í lok árs 2018. Til samanburðar eru starfsmenn Skattsins og Skattrannsóknarstjóra 350. Óðinn er ekki að hvetja til fjölgunar ríkisstarfsmanna en ríkið er augljóslega uppteknara af því að góma þá sem ríkið tekur af í formi skatta heldur þeim sem hugsanlega eru að stela af ríkinu. En það sem skiptir ekki minnstu máli er að aðstoða þá sem geta verið á vinnumarkaðnum að lifa sem eðlilegustu lífi. Til dæmis með hlutastörfum. Til dæmis með því að hafa kerfið hvetjandi þannig að þeir sem geti sjái hag í því að vinna.

* * *

Er menntun máttur?

Rekstur háskóla mun kosta 140 þúsund á mann samkvæmt fjárlagfrumvarpi næsta árs. Menntun er gríðarlega mikilvæg en Óðinn sér ekki gagnsemina af því að fólk mennti sig til sérstakra starfa en fari síðan að vinna í einhverju sem er algjörlega ótengt þeirra menntun. Á sama tíma er Óðinn þeirrar skoðunar að hver og einn eigi að mennta sig í því sem hann vill en sá hinn sami eigi ekki þá kröfu að skattgreiðendur greiði fyrir menntunina.

* * *

Formaður flugfreyjufélagsins benti á það í sumar, þegar kjaradeila Icelandair og flugfreyja stóð sem hæst, að flugfreyjur væru mjög vel menntaðar. Hver eru rökin fyrir því að ríkið, skattgreiðendurnir, greiði fyrir menntun á sviði lögfræði, viðskipta, verkfræði, hjúkrunar og svo framvegis og svo fari sá menntaði og ráði sig hjá flugfélagi því að launin séu svo há, vinnutíminn svo hagstæður og dagpeningarnir skattlausir.

* * *

Það er nauðsynlegt að endurskoða allt menntakerfið með tilliti til þess hver greiðir fyrir menntunina. Ef einhver vill læra kynjafræði og fer svo út í viðskipti, verði honum að því og hagnist hann sem mest. En er ekki fráleitt að vinnandi fólk, fiskvinnslukonan, skúringakonan, matráðurinn og allir hinir, greiði fyrir þá menntun?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.