*

mánudagur, 15. júlí 2019
Óðinn
5. desember 2017 11:04

Fjárlög, skuldir og hugmyndir vinstri manna

Nú er ljóst að fjárlög sem Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynnti 12. september fyrir árið 2018 munu fara á sorphauganna.

Haraldur Guðjónsson

Nú er ljóst að fjárlög sem Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynnti 12. september fyrir árið 2018 munu fara á sorphauganna. Í þeim fjárlögum var gert ráð fyrir að ríkisútgjöld myndu hækka um 48 milljarða króna milli ára, eða um tæp 7%.

                               ***

Í kosningabaráttunni töluðu margir, ekki síst Samfylking og Vinstri græn, að svigrúmið yrði mun meira til útgjaldaaukningar, að hluta til með því að hækka skatta.

                               ***

Hæstu útgjaldatölurnar sem menn voru búnir að reikna sig í voru 70 milljarðar króna á ári. Óðinn telur þó á útgjaldakapphlaupið hafi verið orðið svo mikið í kosningabaráttunni að fæstir eyddu miklum tíma í að reikna heldur frekar í hvað ætti að eyða. Því gæti talan verið mun hærri.

                               ***

En aldrei þessu vant er Óðinn að hluta til sammála vinstri mönnum. Það er hægt að eyða mun meiru í útgjöld ríkisins án þess tekjur hækki nokkuð. Það er ekki endilega skynsamlegt, en hægt. Til þess þarf að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

                               ***

Beinar brúttóskuldir ríkisins 930 milljarðar króna

Í fjárlagafrumvarpinu frá því í haust var áætlað að skuldir ríkissjóðs næmu 895 milljörð­um króna í lok þessa árs. Gert var ráð fyrir að 34 milljarða króna skuldabréf, útgefið af slitstjórn bankans, kæmi til greiðslu fyrir áramót. Það er nær útilokað. Hins vegar er ekki ólíklegt að hækkun tekna umfram hækkun gjalda skili hærri afgangi. Í versta falli verða beinar brúttó­ skuldir ríkisins 930 milljarðar króna.

                               ***

Rúmlega hálf sagan sögð

Þá er aðeins rúmlega hálf sagan sögð. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs hækkuðu úr 508 milljörðum króna í 611 milljarða króna á milli áranna 2015 og 2016. Hækkunin samsvarar 20% á milli ára. Ekki kemur fram í fjárlagafrumvarpi Benedikts hversu há lífeyrisskuldbindingin verður um næstu áramót en hún hefur vafalaust hækkað um tugi milljarða. Gríðarlegar launahækkanir opinberra starfsmanna á síðustu árum eru aðalástæða hækkunar skuldbindingarinnar.

                               ***

Skuldir ríkisins eru því í raun um 1.580 milljarðar króna og um 62% af vergri landsframleiðslu en ekki 34% eins og segir í fjárlagafrumvarpinu.

                               ***

Gríska leiðin

Sveitarfélögum er skylt að færa lífeyrisskuldbindingar meðal skulda, enda er algjör vissa að skuldadagar renna upp. Óvissan er aðeins um nákvæma fjárhæð, en tryggingarútreikningur er innan skekkjumarka.

En hvers vegna er ekki einnig svo hjá ríkinu? Þessi uppgjörsaðferð, gríska leiðin í ríkisfjármálum sem hjálpaði til við að setja það ágæta land á hausinn, er óþolandi vopn fyrir eyðslusama stjórnmálamenn sem alltaf tala um skuldirnar en „gleyma“ skuldbindingunni. Fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, undir stjórn Friðrik Sophussonar fjármálaráðherra, beitti sér fyrir verulegum úrbótum á fjárlagagerðinni og bókhaldi ríkisins. Á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er hafa litlar breytingar orðið þrátt fyrir gríðarlegar tækniframfarir. Er þetta ekki verðugt verkefni nýrrar ríkisstjórnar?

                               ***

Í fjárlögum Benedikts kemur fram að til að ríkistryggðu lífeyrissjóðirnir geti staðið við skuldbindingar sínar m.v. forsendur við síðustu tryggingafræðilega úttekt þyrftu árleg framlög ríkissjóðs að vera 7,6 milljarðar króna að jafnaði næstu 30 árin í stað 5 milljarða króna, eins og nú er gert ráð fyrir á komandi árum. Þessi leið skapar því mikla freistingu til að vanfæra þessa niðurgreiðslu, auka önnur útgjöld sem mun svo á endanum lenda á herðum skattgreiðenda.

                               ***

Ábyrgðirnar

Þá er ótalin áhætta ríkisins af rúmlega 800 milljarða skuldum íbúðalánasjóðs, 160 milljarða króna skuldum Landsvirkjunar og 10 milljarða skuldum Byggðastofnunar. Íbúðalánasjóður hefur kostað ríkissjóð um tugi milljarða á síðustu árum. Rekstur Landsvirkjunar hefur gengið vel og hefur fyrirtækið greitt niður skuldir að andvirði um 90 milljarða króna (á núverandi gengi) frá árinu 2009. Ekki ert gert ráð fyrir útgjöldum ríkisins vegna þessara ábyrgða á næstu árum, enda árar vel í íslensku efnahagslífi. Þegar illa árar koma áföllin.

                               ***

Vaxtagjöld ríkisins fara hægt lækkandi

Í fjárlögum Benedikts fyrir næsta ár var gert ráð fyrir að vaxtagjöld ársins 2018 næmu 58 milljörðum. Árið 2019 er áætlað að þau fari í 59 milljarða króna og verði 53 milljarðar króna árið 2020.

                               ***

Til viðbótar vaxtagjöldum af skuldum eru reiknaðir vextir vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga en þau eru áætluð um 14 milljarðar króna. Vaxtagjöldin fyrir árið 2018 eru því áætluð 72 milljarðar króna.

                               ***

Með því að greiða skuldir og lífeyrisskuldbindingar að fullu niður skapast svigrúm fyrir ríkissjóð að eyða meiru sem því nemur, eða lækka skatta.

                               ***

Seljum bankana

Forsenda þess er að selja ríkisbankana. Það er fagnaðarefni ef ný ríkisstjórn hefur það á stefnuskránni, eins og fréttir miðvikudagsmorgunsins báru með sér. Óðinn vill hins vegar minna á að hvert ár sem ríkið á banka eru vaxtagjöldin 25 milljarðar króna á ári. Við sölu missir ríkið vissulega möguleika sinn á arðinum frá bönkunum en losnar um leið við þá miklu áhættu sem í bankarekstri felst.

                               ***

Óðinn er einnig þeirrar skoð­unar að ný ríkisstjórn eigi að setja á stofn sérstaka nefnd sem metur allt eignasafn íslenska ríkisins. Það er ekki nokkur vafi á því að þar leynast fjölmargar eignir sem ríkið hefur engin not af og allir væru sammála um að selja. Til dæmis fasteignir. Þess utan eru margar eignir sem vert væri að skoða sölu á. Til dæmis Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Óðinn bendir á að danska ríkið á að­ eins 39,2% hlut í flugvellinum á Kastrup.

                               ***

Er bjart framundan?

Þrátt fyrir að Óðinn fletti ofan af grískum bókhaldsbrellum í íslensku ríkisbókhaldi, eins og svo oft áður, þá standa Íslendingar á krossgötum. Ríkisstjórnir Sigmundar Davíðs, Sigurðar Inga og Bjarna Ben hafa nýtt góða afkomu til að létta á skuldum ríkisins sem nemur um 600-700 milljörðum króna.

                               ***

Ef Íslendingar selja áhættueignir eins og bankana, auk einstakra eigna til viðbótar, og gæta að því að ríkissjóður nái myndarlegum afgangi á hverju ári gæti íslenska ríkið orðið skuldlaust eftir 10-15 ár.

                               ***

Ef hins vegar verður farin leið aukinna ríkisútgjalda mun það taka áratugi. Það er bjart framundan en einstakri stöðu er auðvelt að glutra niður.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is