*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Óðinn
8. desember 2021 11:31

Fjárlög, spítali og sóun

Óðinn skrifar um fjárlagafrumvarp, sóun í ríkisrekstri og einkennilega auglýsingu um starf forstjóra Landspítalans.

Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í fyrradag fjárlög fyrir árið 2022. Oft hefur Óðinn grátið yfir ríkisfjármálunum en líklega aldrei eins og nú.

Frumvarpið gerir ráð fyrir 169 milljarða halla á næsta ári en halli þessa árs er áætlaður 288 milljarðar króna. Samtals verður hallinn þessi tvö ár 457 milljarðar króna. Sem er auðvitað ekkert annað en hrein bilun.

Það er ekki spurning að Covid-19 hefur haft mikil áhrif á afkomu ríkissjóðs en einmitt þess vegna er skylda fjármálaráðherra að draga saman seglin í þeim hlutum ríkisrekstursins þar sem það er hægt og hagræða annars staðar.

* * *

Samkvæmt frétt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær þarf að skera niður um 37,5 milljarða á árunum 2023-2025 til að endar nái saman í ríkisrekstrinum. Fréttin hljómaði eins og það væri eitthvert óskaplegt verk.

Óðinn ætlar að leyfa sér að koma með tvær tillögur. Þetta eru ekki niðurskurðartillögur heldur tillögur um að sóa ekki peningum almennings - skattgreiðendanna - í vitleysu. Að brúa þetta 37,5 milljarða gat og hefjast handa strax.

* * *

5,6 milljarðar

Á næsta ári ætlar fjármálaráðherra að verja 5,6 milljörðum króna til fjölmiðlunar, með rekstri ríkisútvarps vinstrimanna, fjölmiðlanefnd og styrkjum til einkarekinna fjölmiðla.

Ef menn telja menningarhlutverk ríkisútvarps vinstrimanna enn vera mikilvægt er hægt að setja á stofn sjóð sem styrkir aðeins innlenda dagskrárgerð í anda frumvarps sem Pétur Blöndal heitinn lagði fram á Alþingi árið 2000 um sölu á öllum hlutum í ríkisútvarpinu með forgangi núverandi eigenda, starfsmanna stofnunarinnar, og með því að hætta skylduáskrift eða ríkisframlögum til hins nýja félags.

Pétur taldi að öllum þeim markmiðum sem þá komu fram í lögum um Ríkisútvarp væri hægt ná með útboðum þar sem allar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, sem bolmagn hefðu, kepptu um að bjóða bæði góðar og hagkvæmar lausnir á þessum markmiðum. Þannig yrði samkeppnin virk og einstakar stöðvar gætu sérhæft sig á ákveðnum sviðum, t.d. í gerð barnaefnis. Hægt yrði að koma á gæðaeftirliti og eftirliti með framkvæmd sem erfitt er um vik við núverandi aðstæður.

* * *

13,3 milljarðar

Kostnaðurinn við utanríkisráðuneyti, sendiráð og öryggissamstarf verður 13,3 milljarðar króna næsta ári. Það er búið að finna upp internetið auk þess sem sagan sýnir okkur að í hvert skipti sem mál kemur upp sem einhverju máli skiptir þá þarf ráðherra að fara upp í flugvél og leysa málið, eða klúðra því. Það er því lítið mál að lækka framlögin til málaflokksins um 4 milljarða króna.

Þá er gatið komið í 28-30 milljarða króna. Það tók Óðin tvær mínútur að spara 8-10 milljarða. En til þess að framkvæma þetta þarf vissulega að hafa svolítinn kjark. Vilja nútíma stjórnmálamenn virkilega heldur skuldsetja komandi kynslóðir en að leggja niður algjörlega ónauðsynleg verkefni á vegum ríkisins?

* * *

Aldrei nóg!

Eitt fyrsta verk Ríkisútvarpsins eftir að fjárlögin voru kynnt var að fara niður á Landspítala og ræða við starfandi forstjóra Landspítalans.

Framlög til spítalans verða aukin um 2,6 milljarða króna samkvæmt frumvarpinu. En er það nóg? Það stóð ekki á svari hjá Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur starfandi forstjóra og lesendur hljóta að standa á öndinni, svo óvænt er svarið:

„Ég efast um það, að þetta sé nóg, því við erum í undirliggjandi rekstrarvanda."

Hvað þurfið þið mikinn pening til að leysa þennan rekstrarvanda?

„Við höfum aðeins verið að reikna það út en það er töluvert meira en það sem við sjáum í fjárlagafrumvarpinu ef við ætlum að gera það, og bæta allt sem við þurfum að laga, þá er það töluvert annað en fjárlagafrumvarpið segir til um, en þetta er sannarlega skref í rétta átt."

Aðeins verið að reikna! Aðeins! Töluvert meira! Bæta allt sem þarf að laga! Er það rétt skilið að forstjórinn starfandi hefur ekki hugmynd um hvað vantar upp á í rekstri spítalans?

Hvernig getur forstjóri stofnunar sem fær á næsta ári 82,6 milljarða króna leyft sér að svara með þessum hætti? Þetta hljómar eins og eitthvert áhugamál. Svona aðeins að reikna, svona eins og skattgreiðandinn sem lætur sig dreyma um að endurnýja bílinn eða fara í ferðalag með fjölskyldunni og hripar eitthvað niður á servíettu.

* * *

Einkennileg auglýsing

Auglýst var eftir nýjum forstjóra í haust.

Hæfnisskilyrðin voru þessi:

1. Háskólamenntun á framhaldsstigi sem nýtist í starfi er skilyrði.

2. Reynsla af rekstri og stjórnun, þ.m.t. mannaforráð, sem nýtist í starfi er skilyrði.

3. Leiðtogahæfileikar og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum er skilyrði.

4. Reynsla af stefnumótun og innleiðingu nýjunga er skilyrði.

5. Skýr framtíðarsýn.

6. Þekking á sviði heilbrigðisþjónustu.

7. Þekking og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu.

8. Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.

9. Mjög gott vald á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti er skilyrði.

10. Góð kunnátta í ensku og kunnátta í a.m.k. einu Norðurlandamáli.

Þá var sagður kostur að umsækjandi hafi þekkingu á fjármálum hins opinbera.

Fjórtán sóttu um. Þeir voru:

1. Fyrrverandi forstjóri Isavia, opinbers hlutafélags um rekstur flugvalla, og verkfræðingur.

2. Hjúkrunarfræðingur.

3. Settur forstjóri Landspítalans.

4. Framkvæmdastjóri mannauðsskrifstofu Landspítala.

5. Læknir.

6. Læknir.

7. Framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslu og fyrrverandi yfirlæknir bráðalækninga á Landsspítala.

8. Ráðgjafi.

9. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

10. Framkvæmdastjóri lækninga Landspítalans.

11. Læknir og prófessor.

12. Starfandi framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala.

13. Framkvæmdastjóri hjúkrunar Landspítala.

14. Viðskiptafræðingur.

* * *

Nú þarf ekki mikinn spámann til að sjá að það eru yfirgnæfandi líkur á því að ráðinn verði starfsmaður Landspítalans sem nýr forstjóri. Það er vitanlega vegna þeirra krafna sem gerðar eru í auglýsingunni.

Starf forstjóra Landspítala lýtur fyrst og fremst að rekstri. Hann þarf að hafa yfirburðaþekkingu á fjármálum, áætlanagerð og hafa sýnt yfirburðaárangur á sviði rekstrar. Að mati Óðins skiptir engu máli á hvaða sviði hann hefur starfað svo lengi sem hann hefur náð árangri.

En auglýsingin gerir engar slíkar kröfur. Umsækjandinn þarf að hafa reynslu af rekstri og stjórnun en krafan er mild. Þá er óskað eftir þekkingu og reynslu sem engu skiptir í starfi forstjóra langstærstu stofnunar landsins.

Hvers vegna þarf viðkomandi að hafa þekkingu á opinberri stjórnsýslu? Alvöru stjórnandi öðlast slíka þekkingu hratt í starfi og hann nýtur liðsinnis lögfræðinga þegar kemur að slíkum atriðum.

Mjög gott vald á íslensku? Hvers vegna í ósköpunum? Hvers vegna er verið að útiloka reynda erlenda stjórnendur sjúkrahúsa? Hann má tala kínversku Óðins vegna svo lengi sem hann getur rekið þetta appart skammlaust. Góð kunnátta í Norðurlandamáli? Er það til eins að auka líkurnar á því að læknir eigi kost á starfinu?

* * *

Þekkingarskortur betri? Að endingu er sagt að það sé kostur að viðkomandi hafi þekkingu á fjármálum hins opinbera. Er það endilega svo? Er ekki bara best að viðkomandi sé alveg ósýktur af þeim starfsháttum sem viðhafðir eru hjá hinu opinbera, svo sem eins og að nýta fjárheimild í fjárlögum að fullu til að eiga ekki hættu á að fjárheimild næsta árs sé skert eða koma í fjölmiðla, helst ríkisfjölmiðilinn, og væla yfir peningaskorti frekar en að sinna vinnunni og láta enda ná saman?

Þær heyrast enn sögurnar úr ríkisrekstrinum að rétt fyrir áramót panti stofnanir ýmiss konar óþarfa, svo sem eins og tölvubúnað, prentara og önnur rekstraráhöld. Engu máli skipti hvað hlutirnir kosti sem lengi sem þeir eru innan fjárheimilda og enn minna máli skiptir hvenær afhending fer fram. En reikningurinn þarf að vera dagsettur innan ársins. Þetta ætti að mati Óðins að vera hegningarlagabrot, valda starfsmissi og viðkomandi fái aldrei starf aftur hjá hinu opinbera.

Auglýsing um stöðu forstjóra Landspítala er dæmigerð fyrir ríkisreksturinn. Auglýsingin sniðin að ríkisstarfsmönnum og umsóknarfresturinn var afar skammur í upphafi, tvær vikur sem er lögbundinn lágmarksfrestur.

Gæti verið að fyrir löngu hafi verið ákveðið hver fái starfið?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.