*

miðvikudagur, 14. apríl 2021
Óðinn
10. janúar 2017 12:49

Fjárlögin árin 2007 og 2017

Óðinn fer yfir stöðuna hvað varðar fjárlögin árin 2007 og 2017 og hugmyndina um fjársveltan Landspítala.

Haraldur Guðjónsson

Óðinn gagnrýndi fjárlög ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar harðlega í hvert sinn þar til fyrir árið 2016. Þá kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra loks þokkalegan afgang í fjárlagafrumvarpinu, eða 15,3 milljarða króna. Stöðugleikaframlög breyttu myndinni mikið og því var raunin um 400 milljarða afgangur, en ríkisreikningur verður birtur á miðju ári.

***

Fjárlög fyrir árið 2017 voru samþykkt rétt fyrir jól og gert er ráð fyrir um 25 milljarða afgangi. Útgjöld hins opinberra hafa sjaldan í sögu íslenska ríkisins aukist eins mikið milli fjárlaga, eða um 10,8%. Þarna horfir Óðinn til fjárlaga en ekki ríkisreiknings, en fjárlögin lýsa vilja þingmanna fyrir upphaf fjárlagaársins. Ríkisreikningur sýnir svo raunverulega niðurstöðu.

***

Hugmyndir um mun meiri útgjöld

Við afgreiðslu fjárlaga voru felldar ýmsar tillögur um hækkun skatta og gjalda sem áttu að gera kleift að hækka útgjöldin. Þær komu aðallega frá Vinstri grænum.

***

Róttækustu tillögurnar um hækkun skatta voru í nafni Vinstri grænna og var formað- urinn Katrín Jakobsdóttir flutningsmaður. Hún átti stuðningsmenn í öðrum flokkum. Katrín Jakobsdóttir lagði til að fella niður milliþrep í tekjuskatti, innleiða þrepaskiptan 20% og 25% fjármagnstekjuskatt, leggja aftur á eignarskatt (sem Vinstri grænir kalla auð- legðarskatt), svo það helsta sé nefnt.

***

Vinstra fólkið í Pírötum lét ekki sitt eftir liggja. Smári McCarthy talaði um hlaðborð hugmynda um skattahækkanir eftir kosningar. Í umræðu um tillögu sína um skattahækkanir sagði hann: „Þessi tillaga kemur upp úr þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem voru hér í gangi fyrir nokkrum vikum milli fimm flokka þar sem gengið var út frá því að reyna að afla tekna til að styrkja betur heilbrigðiskerfið. Þessi tiltekna breyting snýr að því að fresta niðurfellingu á milliskattþrepi og önnur sambærileg tillaga gengur út á að fresta lækkun á almennu skattþrepi, hvort tveggja til eins árs. Þetta er fyrst og fremst lagt fram til þess að sjá í raun hversu mikill áhugi var fyrir því að fara þessa leið.“

***

Formalistinn Benedikt

Einkennilegust voru orð Benedikts Jóhannessonar um þessar tillögur. Þar hafði hann lítið við efni tillagnanna að athuga, heldur vinnubrögðin við vinnslu þeirra. „Hér er verið að tala um afar viðamiklar breytingar sem þingmenn hafa mismunandi skoðun á, en miðað við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð mun þingflokkur Við- reisnar greiða atkvæði gegn tillögunum. Það segir þó ekkert um afstöðu þingflokksins til ákveðinna þátta, heldur erum við hér að mótmæla þessum vinnubrögðum.“

***

Óðinn vill þó benda á, að málflutningur Benedikts var um margt almennt ágætur um fjárlögin. Hann benti til dæmis á nauðsyn þess að lækka skuldir ríkissjóðs.

***

Það er augljóst að ef Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki staðið í lappirnar hefðu útgjöldin aukist enn meira. Ummæli forsvarsmanna annarra þingflokka komu vissulega ekki á óvart.

***

Fæstir gera sér grein fyrir því að ríkisútgjöldin eru í dag hærri en þau voru á velmektarárunum fyrir hrun. Á verðlagi dagsins í dag eru fjárlög 2017 18% hærri en fjárlögin 2007 og 3% hærri en fjárlög 2008. Ekki má gleyma því að ríkisstjórn Geir Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hækkaði fjárlögin 2008 um 21,4% milli ára, á verðlagi hvors árs.

***

Í allri umræðu um ríkisútgjöld er nauðsynlegt að hafa í huga að skuldir ríkisins eru ein stærsta ógnin við góð lífskjör á Íslandi. Eignarhald ríkisins á félögum í áhætturekstri, svo sem eins og Landsbankanum, Íslandsbanka, Landsvirkjun og Ísavía, er mikill áhættuþáttur í rekstri ríkissjóðs og því mikilvægt að minnka hana að verulegu leyti.

***

Fjársveltur Landsspítali

Framlag ríkissjóðs til reksturs Landspítalans verða svipuð árið 2017 og árið 2007, á föstu verðlagi. Þá hefur ríkisframlagið til rekstursins hækkað um 15 milljarða frá árinu 2013. Það er rétt sem forsvarsmenn Landspítalans hafa sagt að framlögin hafa ekki náð sömu hæðum og árið 2007 ef tekið er tillit til fólksfjölgunar, öldrunar auk annarra þátta. En er árið 2007 rétt viðmið? Óðinn stórefast um það.

***

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans segir að enn vanti 2 milljarða upp á að endar nái saman. Það er Óðni lítt á móti skapi að skera niður um 2 milljarða annars staðar í ríkiskerfinu og færa yfir á Landsspítalann. En þá verður bara til nýr vandi. Það mun vanta tvo til viðbótar. Og svo koll af kolli.

***

Staðreyndin er sú að engin takmörk eru fyrir því hversu miklu er hægt að eyða í heilbrigðismál, en vandinn er sá að á endanum verðum við uppiskroppa með peninga. Á sama tíma er enginn áhugi hjá forsvarsmönnum ríkisstofnana að hagræða. Hvað ætli sé hægt að hagræða mikið í rekstri Landsspítalans án þess að það komi niður á þjónustu.

***

Algerlega skortir í hugsun flestra stjórnenda ríkisstofnana virðingu fyrir fjármunum almennings. Markmið þeirra á ekki síður að fara vel með almannafé og að veita góða þjónustu. Á það jafnt við um spítala sem aðrar stofnanir.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 8. janúar 2017. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Landspítalinn Fjárlög
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.