*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Leiðari
10. nóvember 2016 14:25

Fjármagn og kosningar

„Jörðin mun áfram snúast um sólina að fjórum árum liðnum.“

epa

Viðbrögð Íslendinga – og svosem flestra Evrópubúa almennt – við kjöri Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna voru fyrirsjáanleg. Helmingur þjóðarinnar virðist halda að himinninn muni hrynja við valdatöku Trumps og hinn helmingurinn sér í kosningunni staðfestingu á öllum neikvæðu staðalímyndunum um heimsku, feitu, illa menntuðu og illa innrættu Bandaríkjamennina. Fáir Íslendingar fagna kjöri Trumps.

Hér er ekki ætlunin að fara yfir hugsanleg áhrif kosningasigurs Trump, enda er það gert með ítarlegum hætti á öðrum síðum blaðsins. Þó má ætla að áhrifin verði hvorki eins mikil né eins hræðileg og ætla mætti af lestri Facebook-færslna íslenskra stjórnmálaáhugamanna. Jörðin mun áfram snúast um sólina að fjórum árum liðnum.

Úrslit kosninganna í Bandaríkjunum ættu hins vegar að vekja þá til umhugsunar sem eru haldnir þeirri undarlegu og meinlegu villu að peningar ráði öllu í kosningum. Stóra takmark bandarískra vinstrisins hefur undanfarin ár og áratugi verið að takmarka möguleika fyrirtækja og hinna efnameiri til að fjármagna kosningabaráttu stjórnmálamanna. Þessi hugmynd hefur, eins og svo margar vondar hugmyndir bandarískar, skotið rótum hér á landi með þeim afleiðingum að allir stjórnmálaflokkar eru hér á spena ríkissjóðs, en möguleikar almennings til að styðja við bakið á sínu fólki hafa verið skertir til mikilla muna.

Kosningarnar í Bandaríkjunum ættu að minnsta kosti að vekja fólk til umhugsunar um það hvort þessi kenning eigi yfirhöfuð við einhver rök að styðjast. Hillary Clinton eyddi mun meira fé í sína kosningabaráttu en Donald Trump. Samkvæmt tölum Washington Post eyddi hún 1,3 milljörðum dala í baráttuna. Þar af safnaði hún sjálf 556 milljónum dala, fékk 544,4 milljónir frá Demókrataflokknum og söfnunarnefndum tengdum honum, og svo 188 milljónir dala frá svokölluðum „Super PACs“, þ.e. óháðum stjórnmálasamtökum, sem njóta sérstakra fríðinda samkvæmt bandarískum lögum.

Donald Trump safnaði alls 795 milljónum dala og þar af fékk hann 60,1 milljón dala frá „Super PACs“. Þessi óháðu samtök eru, ef marka má umræðuna vestra hugmyndafræðileg afsprengi kölska sjálfs og er ungum og óhörðnuðum vinstrimönnum sérstaklega í nöp við þau. Gera þeir ráð fyrir því að efnafólk og fjármálafyrirtæki hljóti að styðja Repúblikana og því beri að berjast gegn þeim.

Clinton naut hins vegar miklu fremur stuðnings fjármálarisanna á Wall Street en Trump og því erfitt að halda því fram að fjármálakerfið hafi verið að kaupa sér forseta.

Grundvallaratriðið hér er aftur á móti það að sá frambjóðandi sem bar höfuð og herðar yfir aðra í baráttunni hvað varðar söfnun og eyðslu peninga stóð uppi með sárt ennið. Það er nefnilega ekki þannig að peningar ráði úrslitum kosninga. Miklu líklegra er að peningarnir leiti til þess frambjóðanda sem líklegast er að vinni kosningarnar. Það þýðir að stórum hluta þessa fjár er eytt að tilefnislausu, en það er vandamál þeirra sem láta féð af hendi rakna.

Stikkorð: Clinton Trump fjármagn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is