*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Ásta Sóllilja
8. maí 2020 14:02

Fjármagnssveltir sprotar

Mög sprotafyrirtæki hafa litlar eða engar tekjur og reiða sig fyrstu árin á fjármagn frá fjárfestum sem halda nú margir að sér höndum.

epa

Sprotafyrirtæki standa frammi fyrir snúinni stöðu. Mörg þeirra hafa litlar eða engar tekjur og reiða sig fyrstu árin á fjármagn frá fjárfestum. Vandinn er sá að fjárfestar halda að sér höndum í kjölfar efnahagsáfallsins og óvissunnar framundan. Því reynist sprotafyrirtækjum mun erfiðara að fjármagna sig um þessar mundir en í venjulegu árferði. Íslenskir vísisjóðir hafa flestir lokið nýfjárfestingatíma sínum og mun erfiðara en ella er að sækja peninga til erlendra fjárfesta sem standa frammi fyrir sömu aðstæðum og þeir íslensku.

Hlutabótaleiðin nýtist sprotum ekki og þeir eiga erfitt með að leggjast í dvala þar til hjól atvinnulífsins eru farin að snúast að nýju. Margir í sprotasenunni urðu því eflaust fegnir í lok apríl þegar ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sem nýtast nýsköpunarfyrirtækjum. Meðal þess sem nýsköpunarráðherra hefur nú sagt frá eru hugmyndir um Stuðnings-Kríu, tímabundið átak að breskri fyrirmynd sem ætlað er að koma til móts við hraðvaxandi fyrirtæki sem eiga erfitt með að finna fjármagn vegna Covid-19.

Enn á eftir að kynna útfærslu á þessu átaki en hún skiptir miklu svo að úrræðið nýtist sem best. Verður krafa um einkafjárfestingu á móti ríkisframlagi? Verður um að ræða lán eða skuldabréf með breytirétti í hlutafé? Má búast við að sjá íslenska ríkið á hluthafalista annars hvers sprota næstu árin? Ekki er ljóst hversu mikið fé er áætlað í átakið en upphæðin sem hvert félag getur fengið þarf að vera rífleg.

Sem dæmi mun fyrirmyndin, Future Fund í Bretlandi, lána sérhverju félagi allt að 900 milljónir króna. Einnig er mikilvægt er að átakið skerði ekki framlag í sjóða-sjóðinn Kríu sem hefur starfsemi sína síðar á þessu ári því það hefði veruleg neikvæð áhrif á fjármögnunarumhverfið til lengri tíma litið.

Höfundur er viðskiptaþróunarstjóri hjá Auðnu tæknitorgi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.