Í nýjustu prentútgáfu Stundarinnar er að finna viðamikla umfjöllun Inga F. Vilhjálmssonar blaðamanns um stöðu lántaka á fasteignamarkaðnum um þessar mundir.Ekki þarf að koma á óvart að úttektin sé viðamikil enda er Stundin eini fjölmiðillinn á Íslandi sem hefur sérstakan rannsóknarritstjóra á launum og hefur því miðillinn umtalsvert forskot á aðra þegar kemur að viðamiklum úttektum sem fletja margar opnur.

En ítarlegar úttektir eru ekki endilega ávísun á gæði. Í úttekt Stundarinnar er rætt við sérfræðinga á borð við Þórólf Matthíasson, prófessor við Háskóla Íslands, og Sigurð Jóhannesson, forstöðumann Hagfræðistofnunar HÍ. Þar segja þeir kosti og lesti verðtryggðra lána koma fram í því umhverfi sem nú er uppi í hagkerfinu. Þeir Þórólfur og Sigurður segja fátt sem kemur þeim á óvart sem fylgst hafa með umræðum um efnahagsmál á Íslandi undanfarna áratugi og eru sæmilega fjármálalæsir.

Hins vegar koma aðrir viðmælendur Inga á óvart svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Þannig segir í úttektinni:

Karlmaður á sextugsaldri sem tók verðtryggt lán árið 2004 segir að verðtryggð lán séu ólögleg og íhugar hann að reyna að tryggja sér fjármögnun erlendis til að greiða upp lánið. „Ég tók verðtryggt lán árið 2004 og ég skulda nú 7,5 milljónum krónum meira af höfuðstól lánsins en þegar ég tók það. Þegar ég tók lánið var höfuðstóllinn upp á 12 milljónir en nú skulda ég 19,5 milljónir af höfuðstólnum jafnvel þótt ég sé búinn að borga af láninu,“ segir karlmaður á sextugsaldri sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Hann vill ekki koma fram undir nafni. Maðurinn segir að um sé að ræða meira en helmingshækkun á höfuðstól lánsins, sem er hjá Arion banka.

„Ég er búinn að borga af þessu í öll þessi ár og get það alveg en mig langar að borga lánið niður en ekki bara að borga af því,“ segir maðurinn. Maðurinn segir að á lánstímanum sé hann búinn að greiða nokkurn veginn jafn mikið af láninu og hann skuldar núna. „Bankinn skuldar mér í rauninni skaðabætur og miskabætur,“ segir maðurinn og er fúlasta alvara.

Ef maðurinn myndi ætla að endurfjármagna þetta lán með óverðtryggðu láni þyrfti hann því að taka nýtt lán upp á 19,5 milljónir króna til að greiða það niður og greiða svo af þeirri skuld óverðtryggt í x-ár. Í ljósi verðbólgunnar í dag og hárra vaxta er þetta ekki eitthvað sem maðurinn hefur áhuga á að gera heldur vill hann bara að verðtryggða lánið hans verði afskrifað. „Ég mun bara berjast áfram. Þetta er bara ólöglegt,“ segir maðurinn.

Hann segir að önnur leið sem hann hafi verið að skoða sé að taka lán erlendis til að greiða verðtryggða lánið niður og að skulda þá erlendum aðila lán með veði í íbúð á Íslandi. Hann segir að komandi kynslóðir muni furða sig á verðtryggðum lánum: „Hvað munu komandi kynslóðir segja við ömmu sína og afa: Eruð þið eitthvað klikkuð? Þið bara borguðuð og borguðuð af lánunum ykkar og fyrir hvað? Ekkert. Bankarnir eru búnir að græða alveg nógu mikið á okkur,“ segir maðurinn.”

Þarna kveður við kunnuglegt stef sem gjarnan er kveðið af þeim sem hringja inn í símatíma í dægurmálaþáttum Bylgjunnar og á Útvarpi Sögu. Hvaða skoðun sem menn kunna hafa á verðtryggðum lánum er vandinn við þetta gamalkunnuga stef að ekki stendur steinn yfir steini og blaðamaður gerir enga tilraun til að benda á þau augljósu sannindi. Þannig gleymir bæði viðmælandi Stundarinnar og blaðamaðurinn að nauðsynlegt er að núvirða þær upphæðir sem eru til umræðu: Tólf milljónir árið 2004 eru hreinlega ekki það sama og tólf milljónir í dag vegna verðlagsþróunar.

Viðmælandinn segir að höfuðstóll lánsins hafi hækkað um 7,5 milljónir króna á þessu tímabili og farið úr því að vera 12 milljónir árið 2004 í að vera 19,5 milljónir í dag. Þetta hljómar dáldið skuggalega í eyrum þeirra sem ekki þekkja til núvirðingar. En staðreynd málsins er að hafi höfuðstóll lánsins verið óbreyttur þennan tíma ætti hann að standa í 29 milljónum í dag en ekki 18,5 milljónum. Af þessu má vera ljóst að umtalsvert hafi gengið á höfuðstól lánsins á þessum tíma.

Auk þess vænkar hagur viðmælandans enn frekar þegar tekið er tillit til þess að fasteignaverð hefur auðvitað hækkað umtalsvert umfram verðlag frá árinu 2004 með afleiðingum að eignamyndun hans í viðkomandi húsnæði hefur aukist hratt samhliða niðurgreiðslu á höfuðstól lánsins að raunvirði. Í þessu samhengi má nefna ef að við gefum okkur að maðurinn hafi keypt íbúðina á 100% láni árið 2004 og hún hafi kostað 12 milljónir ætti verðmæti hennar í dag miðað við þróun fasteignavísitölunnar vera um 58 milljónir í dag og þar af leiðandi ætti þetta verðtryggða lán sem hann kvartar yfir og fjallað er í Stundinni hafa gert að verkum að eignastaða hans er mjög rífleg.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 15. september 2022.