Stærsta viðskiptafrétt síðustu viku var að sala Símans á Mílu til franska sjóðsstýringarfyrirtækisins Ardian gekk í gegn eftir að samkomulag náðist við Samkeppniseftirlitið. Af því tilefni var Orri Hauksson, forstjóri Símans, gestur Kastljóssins á fimmtudag fyrir viku.

Baldvin Þór Bergsson, ritstjóri Kastljóssins, spurði Orra spjörunum úr. Sérstaka athygli vakti að Baldvin skautaði algjörlega fram hjá spurningum um þann mikla tíma sem Samkeppniseftirlitið tók sér til umþóttunar í kjölfar þess að kynnt var um kaupin og áhrif þess. Þá lét hann vera að spyrja um þá staðreynd að kröfur stofnunarinnar gerðu það að verkum að kaupverðið í viðskiptunum lækkaði um 8,5 milljarða króna.

Þess í stað spurði Baldvin spurninga sem báru vott um skort á fjármálalæsi:

„Er ekki hætta á því að ef að stórum hluta þessa söluandvirðis verði ráðstafað sem arði út úr Símanum að þá hrynji virði fyrirtækisins?“

Auk annarra spurninga sem virtust fyrst og fremst snúa að því að tortryggja það að hluthafar þessa skráða fyrirtækis – sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðir – hagnist á viðskiptunum að ógleymdum óljósum spurningum um að viðskiptin kunni skapa einhverja hættu á stórfelldum njósnum erlendra aðila hér á landi.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 22. september 2022.