Frá því að ég komst til vits og ára hef ég haft áhuga á peningum og fjárhagslegu sjálfstæði. Það kom því kannski ekki á óvart að ég skyldi velja að starfa þar sem ég fengi að koma að ákvarðanatöku tengdri fjármálum og anda að mér þróun fjármálamarkaða alla daga.

Það hefur ekki alltaf tíðkast að tala mikið um peninga eða fjármál í mínu nærumhverfi þrátt fyrir að peningar hafi óhjákvæmilega mikil áhrif á líf okkar og stöðu. Ég sé að þetta er að breytast hratt og að yngri kynslóðir ræða fremur fjármál sín á milli eins og svo margt annað sem var tabú hér áður.

Fjármálamarkaðurinn hefur gengið í gegnum mikið breytingaferli á liðnum árum með tilkomu nýrra laga, tæknibreytinga, lækkun vaxta og aukinnar samkeppni. Það er óhætt að segja að samkeppni um sparnað hafi aukist enda ekki lengur valkostur að ávaxta fjármuni á innlánsreikningum með sama árangri og bauðst á árunum eftir hrun. Fjárfestar þurfa því að finna nýjan farveg fyrir sparnaðinn, sem setur meiri kröfur á þá og sömuleiðis á markaðsaðila, en því fylgja líka mikil tækifæri.

Tækifæri fyrirtækja til fjármögnunar hafa þroskast mikið og nú má sjá verulega aukinn áhuga á að fjármagna fyrirtæki og fjárfestingasjóði með ólíkum hætti, allt frá sprotum til þroskaðra fyrirtækja. Rekstur skráðra félaga hefur almennt gengið vel og fjármagn hefur streymt inn á hlutabréfamarkaðinn. Almenningur er orðinn áhugasamari um að fjárfesta í hlutabréfum eins og berlega kom í ljós í nýskráningum félaga á Aðalmarkað og First North á liðnu ári.

Fræðsla, aðgengi að upplýsingum og almenn umræða um fjármál hefur aukist. Það má einnig sjá á fjölda fjármálatengdra hópa á samfélagsmiðlum, auknum fjölda hlaðvarpa þar sem fjallað er um fjármál og peninga, s.s. eins og Leitin að peningum og Vaxtaverkir. Þá bendi ég einnig á Fortuna Invest sem er vettvangur sem veitir aðgengilega fræðslu um fjárfestingar á Instagram.

Óhætt er að fullyrða að ör þróun í tækni spili stórt hlutverk í fjölgun fjárfesta. Þessi þróun hefur auðveldað almenningi að fjárfesta á netinu og í nýjum til þess gerðum öppum. Tæknin hefur einnig auðveldað þeim að fylgjast með stöðu og þróun fjárfestinganna.

Traust til fyrirtækja og fjármálamarkaðarins er ekki sjálfgefið og það höfum við reynt. Traustið hefur farið vaxandi og það er mikilvægt að þetta fjöregg verði varðveitt vel. Ég á þá von að þessi aukni áhugi almennra fjárfesta sé kominn til að vera. Til þess að svo megi vera þarf áfram að vanda til verka og tryggja að þeir ólíku fjárfestingakostir sem boðnir eru almenningi beri skýrt með sér hvaða áhætta fylgir þeim.

Þótt áhugasvið okkar kunni að vera ólíkt þá komumst við ekki hjá því að umgangast peninga.  Það er mikilvægt að við byrjum fyrr að tala við unga fólkið okkar um fjármál og veita því markvissa fræðslu á þessu sviði og auka þannig möguleika þeirra á að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði. Við Íslendingar erum þekkt fyrir að vera keppnisfólk og ná ótrúlegum árangri á mörgum sviðum og setja ný met sem vekja athygli út fyrir landsteinana.

Er ekki málið að verða best í fjármálalæsi?

Höfundur er stjórnarformaður Stefnis og Auðkennis ásamt því að vera varaformaður stjórnar Símans og í stjórn Reiknistofu bankanna.

Greinin birtist í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .