*

laugardagur, 18. september 2021
Huginn og muninn
27. mars 2021 09:33

Fjármálavit framkvæmdastjórans

Hrafnarnir hafa greinilega meiri trú á unga fólkinu en framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands.

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ.
Haraldur Guðjónsson

Fjármálavit er fræðsluvettvangur Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), þar sem lögð er áhersla á fjármálalæsi 13 til 15 ára ungmenna.

„Markmiðið er að bæta fjármálalæsi og stuðla að upplýstri ákvarðanatöku í fjármálum með áherslu á sparnað og fyrirhyggju," segir á vefsíðu Fjármálavits. „Á þeim forsendum tekur starfsfólk fjármálafyrirtækja, tryggingafélaga og lífeyrissjóða þátt í fræðslustörfum undir hatti Fjármálavits og eru aldrei merkt eða talsmenn sinna fyrirtækja í þeim störfum."

Hrafnarnir töldu nú að allir myndu fagna aukinni fjármálafræðslu ungmenna en Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, sá fyrir helgi sérstaka ástæðu til að gagnrýna þetta. Sagði hún sjálfsagt að skólar fjölluðu um „peningamál og skuldamál. En það verður að gerast í samhengi við umfjöllun um strúktúra samfélagsins. Ekki með áróðri í boði sérhagsmunasamtaka."

Með vísun í „strúktúra samfélagsins" á hún við að tvennt ákvarði velgengni í fjármálum, stétt og fjárhagsstaða foreldra. Hrafnarnir hafa greinilega meiri trú á unga fólkinu en framkvæmdastjóri ASÍ og eru raunar þeirrar skoðunar að það geti bara alls ekki talist áróður að kenna ungmennum fjármálalæsi. Það er hins vegar þröngsýni að ætla að skoða alla hluti út frá stéttaskiptingu í anda kommúnískra kenninga - á námskeiðum Fjármálavits eru allir jafnir.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.