*

mánudagur, 1. júní 2020
Ari Edwald
14. mars 2020 13:43

Fjársjóður landsins

Tækifæri okkar í dag og framundan eru í því sem má kalla græna hagkerfið.

Björn Bragi Bragason, forseti Klúbbs matreiðslumeistara og Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar.

Eins og fram hefur komið hlaut Kokkalandslið Íslands gullverðlaun í þeim tveimur keppnisflokkum sem það tók þátt í á Ólympíuleikum landsliða í matreiðslu núna í febrúar sl. og þar með þriðja sætið í keppninni í heild. Sannarlega glæsilegur árangur og sá besti sem liðið hefur náð til þessa. Að baki liggja þrotlausar æfingar þessa unga og glæsilega hóps sem ber hróður íslenskrar matargerðar og hráefnis um allan heim. Um leið er íslenska hráefnið stór hluti af því erindi sem liðið á fram á hið stóra svið. Þetta leiðir hugann að því að matarmenning gegnir sífellt stærra hlutverki í ímynd landsins. Skyrið er til dæmis orðið þáttur í þeirri ímynd líkt og ostur er fyrir Sviss og hluti af því sem gerir Ísland áhugavert.

Neysla á innlendri matvöru, kjöti, fiski og grænmeti er órjúfanlegur hluti af upplifun ferðamanna og þeim gæðum sem Ísland hefur fram að færa. Talið er að neysla ferðamanna á innlendri matvöru sé um 22 tonn á dag. Landbúnaður er því hluti af þeim innviðum sem ferðaþjónustan byggir á og skapar um 1,5 milljarða á dag í gjaldeyristekjur undir venjulegum kringumstæðum.

Þar eiga hlut að máli ákvarðanir sem teknar voru á síðustu öld og hafa skapað Íslandi sérstöðu. Lítil sem engin notkun sýklalyfja eða eiturefna, engin vaxtarhormón og fáir búfjársjúkdómar.

Um tíma heyrðust efasemdaraddir í þjóðlífinu um gildi íslenskrar matvælaframleiðslu. Best væri að hætta þessu stússi og flytja inn matvælin, nema fiskinn, og finna þeim þúsundum sem starfa t.d. við framleiðslu og úrvinnslu landbúnaðarafurða, „þjóðhagslega arðbær störf“.

En margt hefur breyst. Það hefur orðið mikil framleiðniaukning í landbúnaði og auðveldlega sést að hann á mikinn þátt í tekjuöflun sem bókast annars staðar. Þar við bætast t.d. sjónarmið um hollustu og öryggi matvæla og um umhverfismál.

Nýsköpun og græna hagkerfið

Tækifæri okkar í dag og framundan eru í því sem má kalla græna hagkerfið, samanber bláa hagkerfið í sjávarútveginum, sem hefur tækifæri til að stækka verulega í umfangi með tæknibyltingu framtíðarinnar og áherslu á nýsköpun og umhverfismál.

Gott dæmi um þetta er nýting í mjólkuriðnaði á hráefni sem áður fór til spillis. Ostamysa fór áður í niðurfallið og til sjávar en er í dag notuð til þess að framleiða hágæða próteinduft og á næstu mánuðum bætist við etanól framleiðsla úr mjólkursykrinum og dýrafóður úr hrati. Ef tækist að framleiða dýrar neytendavörur úr öllu þessu hráefni sem áður nýttist ekki má reikna sig upp í það að það gæti mögulega fært iðnaðinum meiri tekjur en salan af mjólkurvörum í dag.

Tækifærin eru óþrjótandi í landbúnaði til að fylgja fordæmi sjávarútvegsins varðandi hagnýtingu vísinda til að skapa áður óþekkt verðmæti úr þeim lífmassa sem er til staðar, sbr. lyfjaframleiðslu úr þorskúrgangi. Þar er vaxtasproti framtíðarinnar eins og mysan gefur vísbendingar um.

Verðmæti morgundagsins

Mjólkursamsalan hefur markað sér þá stefnu að hlúa að þessari þróun eins og hægt er. Til dæmis með þátttöku í Landbúnaðarklasanum ásamt 40 öðrum fyrirtækjum í landbúnaði og aðkomu að verkefninu „Til sjávar og sveita“ þar sem tugi frumkvöðlafyrirtækja var veitt brautargengi með aðstoð sérfræðinga á síðasta ári. Horft er sérstaklega til sjálfbærni í mati á verkefnum og hringrásarhagkerfið. Þar er hægt að nefna dæmi fyrirtæki sem nýtir íslenskt kartöfluhráefni til bjórframleiðslu og annað sem vinnur að auknu virði æðardúns á Íslandi en 70-80% heimsframleiðslu hafa komið frá Íslandi og hafa hingað til farið erlendis til fullvinnslu.

Opnað verður fyrir umsóknir á næstunni fyrir næsta hraðal „Til sjávar og sveita“ sem rekinn er af Icelandic Startup. Þar munum við fá upp á yfirborðið enn frekari dæmi um þá gerjun og spennandi verkefni sem unnið er að í verðmætasköpun á Íslandi. Nóg er að gerast og mikill kraftur í næstu kynslóð ungra Íslendinga sem sjá sannarlega tækifæri í íslenskum landbúnaði og þeim hráefnum sem þar má skapa úr mikil verðmæti.  

Höfundur er forstjóri Mjólkursamsölunnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.