*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Örn Arnarson
29. mars 2021 07:05

Fjöður verður að fimm landamærahænum

Af sjö smitum sem greindust voru þrjú utan sóttkvíar en sami fjöldi smass-borgarastaða opnaði í Miðbæ í Reykjavíkur þá helgi.

Í byrjun síðustu viku tókst almannavarnayfirvöldum með dyggum stuðningi fjölmiðla að skjóta landsmönnum skelk í bringu. Á mánudagsmorgun fyrir viku síðan birtust fréttir um að smitum vegna kóvid hefði fjölgað mikið dagana á undan og lýsti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir því yfir að hann óttaðist að samfélagssmit hefði hreiðrað um sig að nýju vegna fjölda sýkinga og óljósra tenginga þeirra á milli. Til þess að undirstrika alvarleika málsins boðuðu almannavarnayfirvöld skyndilega til blaðamannafundar um ástandið og þær blikur sem væru á lofti vegna faraldursins.

Þeir sem hlýddu á beina útsendingu frá fundinum gerðu sér fljótt grein fyrir að þar fór ekki hljóð og mynd saman. Sóttvarnalæknir og landlæknir voru grá fyrir járnum og fóru yfir þá staðreynd að 26 smit höfðu greinst dagana á undan og hætta væri á að smitum myndi fjölga mikið á næstu dögum og að óbreyttu væri óhjákvæmilegt að herða sóttvarnaaðgerðir að nýju.

                                                                       ***

Að lokinni framsögu sóttvarnalæknis og landlæknis á fundinum tóku við spurningar blaðamanna. Það vakti sérstaka athygli að enginn spurði út í þá staðreynd að tiltölulega fá smit höfðu greinst utan sóttkvíar dagana á undan og hvort það gæfi tilefni til að álykta sem svo að um samfélagsmit væri að ræða. Eins og fram kom í fjölmiðlum þá greindust 19 af þessum smitum á landamærunum og þar af tugur vegna erlends flutningsskips sem kom til hafnar á Austfjörðum þá helgi og sett var í sóttkví. Af þeim sjö smitum sem greindust innanlands voru þrjú utan sóttkvíar en til þess að setja þann fjölda í samhengi, þá var sami fjöldi smass-hamborgarastaða opnaður í Miðbæ í Reykjavíkur sömu helgi. Þeir smituðu tengjast fjölskylduböndum sem hlýtur að vekja upp áleitnar spurningar um hvort hægt sé að tala um samfélagssmit í þessu samhengi. Miðað við þessar upplýsingar er fyllsta ástæða til þess að efast um að útbreiðsla veirunnar í þjóðfélaginu sé svo mikil að samfélagsmit sé í uppsiglingu með tilheyrandi takmörkunum á athafnafrelsi fólks og enn harðari sóttvarnaaðgerðum. Rétt er að taka fram í þessu samhengi að heildarsmit utan sóttkvíar frá lokum janúarmánaðar voru þá 9 talsins.

Þrátt fyrir það hvarflaði ekki að neinum fulltrúa fjölmiðla að spyrja almannavarnayfirvöld út í þetta á fundinum. Spurningarnar snéru allar að frekari herðingu sóttvarnaaðgerða og misáhugaverðum vinklum á þau mál öll. Í framhaldinu mátti svo lesa um í sumum vefmiðlum að ef fjórða bylgja faraldursins væri ekki nú þegar skollin á þá væri hún við það að hefjast. Var helst að skilja að það hefðu rannsóknarblaðamennirnir ráðið af ströngum svip þríeykisins.

Daginn eftir var tilkynnt um að eitt smit hafði greinst sama dag og sóttvarnayfirvöld lýstu yfir ótta sínum að ný bylgja faraldursins væri í þann mund að fara sem ljár yfir mannakurinn og engin veira greindist á landamærunum. Þær hertu tillögur sem sóttvarnalæknir hafði boðað á blaðamannafundinum deginum áður snerust fyrst og fremst um að skerpa þann viðbúnað sem hefur verið á landamærunum undanfarin misseri. Að því sögðu fóru fjölmiðlar að beina spjótum sínum á ný að gosinu á Reykjanesi og segja frá uppátækjum áhrifavalda og annarra sprelligosa við hraunjaðarinn.

                                                                       ***

Þetta upphlaup minnti um margt á viðbrögð almannavarnayfirvalda þegar starfsmaður Landspítalans og nágranni hans greindust með veiruna og sá möguleiki var fyrir að hendi að tónleikagestir í Hörpu hefðu sýkst í kjölfarið. Þá var með skyndingu boðað til blaðamannafundar á sunnudegi og landsmenn varaðir við að enn ein bylgjan væri í þann mund að skella á og von væri á harðari sóttvarnaaðgerðum. Sem kunnugt er reyndist sá ótti ástæðulaus.

Einhverjir kunna að líta svo á að almannavarnayfirvöld eigi að nálgast vísbendingar um að ástandið vegna faraldursins kunni að vera að færast í verra horf af meiri yfirvegun en undanfarið. Ef svo er þá verður að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir veiti aðhald í stað þess að magna upp taugatitring meðal almennings. Nægur er hann fyrir. Sérstaklega í ljósi þess að fljótt skipast veður í lofti í baráttunni gegn veirunni eins og tíðindi síðar í vikunni sýndu.

                                                                       ***

Eins og áður segir skilaði sóttvarnalæknir minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í síðustu viku. Þar var lagt til að skerpt verði á sóttvarnaaðgerðum á landamærunum en að sama skapi er tekið undir ákvörðun stjórnvalda um að leyfa bólusettum ferðamönnum frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada að ferðast til landsins frá og með 1. maí.

Með þessu svaraði sóttvarnalæknir spurningu sem virðist hafa vafist fyrir mörgum í umræðunni undanfarið: Hvort meiri hætta stafi af bólusettum ferðamönnum frá Bretlandi og Norður-Ameríku en þeim sem koma frá aðildarríkjum Schengensvæðisins? Sem kunnugt er þá kynntu stjórnvöld á dögunum ákvörðun sína um að þeir sem hefðu fengið bólusetningu í fyrrnefndu ríkjunum gætu ferðast til landsins með sama hætti og bólusettir íbúar aðildarríkja Evrópusambandsins frá og með 1. maí. Sú ákvörðun var gagnrýnd af mörgum stjórnarandstæðingum meðal annars vegna þess að sóttvarnalæknir hafði ekki verið með í ráðum og að með þessu væri verið að gera þjóðina berskjaldaða gagnvart veirunni.

Þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi skilmerkilega gert grein fyrir ólíkum sjónarmiðum í þessari umræðu verður ekki sagt að þeir hafi komið kjarna málsins til skila: Kjarninn er auðvitað sá að undanfarna mánuði hafa þeir sem eru bólusettir og koma frá Schengen-ríkjunum verið undanþegnir hörðustu sóttvarnaaðgerðum án þess að sóttvarnayfirvöld hafi talið það ógna lýðheilsusjónarmiðum. Erfitt er að sjá af hverju það sama ætti ekki að gilda yfir bólusetta ferðamenn frá ríkjum sem eru hvað lengst komin í vegferðinni í átt að hjarðofnæmi. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um að slaka á sóttvarnaaðgerðum á landamærunum þegar um er að ræða einstaklinga sem ekki eru bólusettir og koma frá ríkjum þar sem útbreiðsla veirunnar er mikil og hröð.

                                                                       ***

Í þessu samhengi er rétt að benda á að fjölmiðlar hafa ekki gert mikið að því að leita upplýsinga um hvort greina megi mun á erindum þeirra ferðamanna sem koma til landsins og eru líklegri til að gerast brotlegir við sóttvarnareglur. Stjórnvöld hafa eigi að síður svarað þessari spurningu að einhverju leyti. Í umræðuskjali sem var lagt fyrir fund ráðherranefndar um fyrirkomulag sóttvarna á landamærum síðasta desember og er aðgengilegt á vef Stjórnarráðsins kemur fram að mesta hættan stafi af svokölluðum heimkomufarþegum. Í minnisblaðinu segir:

„Samantekið virðist greiningin benda til þess að, líkt og sóttvarnarlæknir hefur bent á frá upphafi faraldursins, stafar umtalsvert meiri smithætta af komufarþegum sem hafa samfélagsleg tengsl á Íslandi (heimkomufarþegum) en af þeim sem koma hingað sem ferðamenn. Einstaklingar sem hingað koma sem ferðamenn frá svæðum þar sem smit eru ekki útbreidd eru hlutfallslega ólíklegir til að vera smitaðir við komuna til landsins. Einstaklingar sem búsettir eru á Íslandi, dveljast erlendis á svæðum þar sem smit eru útbreidd og eiga þar náin félagsleg tengsl virðast hlutfallslega líklegri en aðrir til að greinast með smit við heimkomu."

Með öðrum orðum þá telja stjórnvöld ekki mikla hættu stafa af smiti hefðbundinna ferðamanna og eðli málsins samkvæmt ætti smithættan að vera enn minni þegar búið er að bólusetja þá.

                                                                       ***

Gos hófst á Reykjanesi föstudagskvöldið 19. mars. Gosið hófst á tíunda tímanum. Þrátt fyrir að það geti ekki talist hentugur tími fyrir eldgos fyrir þá sem eru að ganga frá blaði til prentunar þá verður ekki annað sagt en að Morgunblaðinu hafi tekist sérstaklega vel upp bæði þegar kom að mynd- og lesmáli í laugardagsblaðinu. Ritstjórn Fréttablaðsins virðist ekki hafa haft sama metnað fyrir málinu. Tvær forsíður fóru í dreifingu um nóttina en á þeirri sem fór síðar í prentun var aðeins að finna lítinn kubb á forsíðu um að gos væri hafið og með fylgdi gömul mynd af gossvæðinu. Af er það sem áður var: Þannig má rifja upp þegar Fréttablaðið skaut Mogga ref fyrir rass þegar kom að stjórnarslitunum 2017.

                                                                       

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.