*

miðvikudagur, 23. september 2020
Magnús Harðarson
8. ágúst 2020 13:43

Fjölbreytileikinn skapar samkeppnisforskot

Rannsóknir sýna að þau fyrirtæki sem stuðla að fjölbreytni á vinnustað, standa sig betur þegar kemur að fjárhagslegri frammistöðu.

Aðsend mynd

Fyrir stuttu tilkynntum við hjá Nasdaq á Íslandi um áframhaldandi samstarf við Hinsegindaga sem standa yfir frá 4.-8. ágúst. Með samstarfinu viljum við beina athyglinni að mikilvægi þess að hlúa að fjölbreytni í atvinnulífinu, með því markmiði að allt starfsfólk óháð kyni, kynvitund eða kynhneigð sem og þjóðerni eða öðrum aðstöðumun sé verndað gegn mismunun; það geti upplifað sig öruggt í starfi, líði vel og finni að það geti náð árangri innan þess fyrirtækis sem það vinnur hjá. Málefnið stendur okkur nærri.

Í ár var Nasdaq, annað árið í röð, verðlaunað af Human Rights Watch fyrir að vera besti vinnustaðurinn fyrir hinsegin fólk, en réttindi og málefni hinsegin fólks eru hluti af jafnréttisstefnu fyrirtækisins. Nasdaq hlaut fullt hús stiga samkvæmt 2020 Corporate Equality Index (CEI) sem gerir rannsóknir á stefnu og störfum fyrirtækja í málefnum LGBT+ starfsfólks. 

En enn er verk að vinna og hefur Nasdaq ákveðið að fjárfesta enn frekar í fjölbreytniverkefnum innan fyrirtækisins. Verkefnin munu m.a. lúta að ráðningum, samskiptum og upplýsingagjöf, þjálfun starfsfólks og stuðningi við þróun þess í starfi. Þessar aðgerðir miða að því að laða að, halda í og hvetja hæfileikaríkt fólk til starfa með okkur. Allt starfsfólk óháð kyni, kynvitund, kynhneigð eða þjóðerni á að finna að það sé hluti af og tilheyri vinnustað sem láti sig varða réttindi þess, vinnu og almennt öryggi og líðan.

Við viljum knýja fram breytingar inn á við sem verða til góðs, eru gott fordæmi og hvetja til breytinga á þeim mörkuðum sem við störfum á, sem miða að því að hlúa að menningu fjölbreytni og án aðgreiningar í atvinnulífinu. Mikilvægur hluti samstarfs okkar við Hinsegin daga felur því í sér skuldbindingu um að vinna með þeim og Samtökunum 78 að útgáfu fyrstu leiðbeininga til fyrirtækja um hvernig skapa megi menningu fjölbreytni og án aðgreiningar innan fyrirtækja, sem munu geta nýst almenningshlutafélögum, öðrum fyrirtækjum og opinberum stofnunum sem grunnur að uppbyggingu fjölbreyttrar vinnustaðamenningar.

Undanfarin ár hafa fyrirtæki lagt aukna áherslu á sjálfbærni í rekstri þar sem umhverfi, félagslegir þættir og stjórnarhættir (UFS) eru í þungamiðju stefnumótunar. Fjölmörg fyrirtæki hafa gripið til aðgerða til að minnka kolefnisspor sitt og draga úr öðrum neikvæðum áhrifum á umhverfið, en í auknum mæli hefur sjónum einnig verið beint að félagslega þættinum þar sem allir hagsmunaaðilar fyrirtækisins skipta máli fyrir árangursríkan rekstur, hvort sem um er að ræða hluthafa, viðskiptavini, birgja, starfsfólk eða samfélagið sem það starfar í.

Það vakti mikla athygli fyrir réttu ári þegar forstjórar leiðandi bandarískra fyrirtækja, þ.m.t. Nasdaq, undirrituðu yfirlýsingu þar sem fyrirtækin undirgengust skuldbindingar gagnvart hinum fjölbreyttuhagsmunaðilumsínum og hétu því að styðja við samfélögin þar sem þau starfa. Allar líkur eru á að mikilvægi félagslegra þátta muni aukast frekar. COVID-19 heimsfaraldurinn sem og Black Lives Matter hreyfingin munu án alls vafa hraða þeirri þróun. Mörg fyrirtæki munu auka áherslurnar á félagslega þáttinn þar sem það er bæði rétt og siðlegt. Að auki munu fyrirtæki hafa fjárhagslega hvata til að sinna honum vel, þar sem það auðveldar að laða fólk til starfa og afla fjármagns frá fjárfestum.

Þetta ár hefur verið afar sérstakt og erfitt og hefur ekki síst beint augum okkar að félagslegu ójafnrétti sem á sér stað um allan heim. Það er sannarlega kominn tími til að breyta í átt til hins betra þar sem allir fái að njóta réttmælis og sanngirni. Með því að styðja við allt starfsfólk og samfélagið eru fyrirtæki betur í stakk búin til að takast á við framtíðina og skapa verðmæti til langframa til hagsbóta fyrir alla.

Rannsóknir hafa sýnt að þau fyrirtæki sem stuðla að fjölbreytni á vinnustað, standa sig betur bæði þegar kemur að fjárhagslegri frammistöðu en einnig þegar kemur að nýsköpun. Með því að stuðla að fjölbreytni endurspeglum við betur þá sem við þjónustum í samfélaginu og erum betur í stakk búin til að skilja þarfir mismunandi hópa viðskiptavina. Fjölbreytni er samkeppnisforskot!

Það skiptir máli fyrir fjölbreytni hvernig staðið er að nýráðningum. Í fyrra stóðum við hjá Nasdaq ásamt Jafnvægisvog FKA fyrir hringborðsumræðum um hvernig fyrirtækjum gengi að koma á meira kynjajafnvægi innan framkvæmdastjórna eða innan einstakra deilda. Samkvæmt reynslu viðmælenda þarf að kafa betur ofan í hvernig staðið er að nýráðningum. Það er í okkar höndum að útskýra hver okkar gildi eru og fyrir hvað við stöndum þegar við viljum laða að starfsfólk.

Oft erum við gjörn á að ráða inn fólk sem passar inn í fyrirframgefinn ramma og reynsluheim sem við þekkjum, fólk sem líkist okkur sjálfum. Tökum fjölbreytni opnum örmum, sameinum ólíkan bakgrunn fólks, menningu og reynslu, gerum okkur mat úr hversu ólík við erum. Þannig getum betur leyst úr áskorunum, aukið framleiðni og nýsköpun, eflt áhuga starfsfólks og haldið betur í það – sem skilar sér í betri frammistöðu.

Höfundur er forstjóri Nasdaq Iceland.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.