Flestir fagna fjölbreytileika hvernig sem hann birtist okkur, við værum fátæk án hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar B, D og VG frá 2017 var lögð sérstök áhersla á þróttmikið efnahagslíf og fjölbreytt atvinnulíf. Í atvinnustefnu ASÍ er markmiðið fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf og Samtök atvinnulífsins fagna fjölbreytni sem styrkir atvinnulífið og gerir lífið skemmtilegra.

Það eru flestir sammála um mikilvægi þess aðbyggja upp atvinnulífið á fjölbreyttum grunni. Talað er um að styrkja stoðir atvinnulífsins og efla útflutningsdrifna atvinnuvegi svo dæmi sé tekið og er nýsköpun alla jafna blandað saman við þá umræðu. Að fjölga atvinnugreinum og fanga tækifæri með fjölbreytni í huga sem kallast stundum á við þá hugmynd að skipta út „óæskilegri" atvinnugrein fyrir „æskilega" sem eykur ekki beint fjölbreytni. En hvernig hefur þetta gengið hjá okkur?

Frjáls verslun hefur í fjölmörg ár birt upplýsingar um 300 stærstu fyrirtæki landsins sem er tilvalinn vettvangur til að leggja mat á fjölbreytni atvinnulífsins. Fyrirtækin teljast ágætis þversnið af atvinnulífinu og með samanburði á tekjudreifingar milli ára birtast okkur vísbendingar um fjölbreytni. Fyrirtækjunum er jafnan raðað eftir tekjum og listinn ber þess augljós merki að tekjudreifingin er ekki jöfn.

Tekjur þeirra stærstu eru mun meiri en þeirra neðstu á listanum og uppsöfnuð tekjudreifing fellur vel að lognormal dreifingu sem einkennir svo marga markaði og stundum er vísað til sem 80/20 reglunnar með einum eða öðrum hætti. Corrado Gini reiknaði tekju dreifingu sembyggir á ofangreindum einkennum og flestir kannast við sem Gini-stuðul launajafnaðar.

Edward H. Simpson lýsti fjölbreytni vistkerfa árið 1949 með sambærilegri nálgun og Orris C.Herfindahl notaði sömu aðferð ári síðar til að lýsa hagkerfum enda um ákveðna hliðstæðu fyrirtækja og tegunda að ræða sbr. blómlegt atvinnulíf. Albert O. Hirschman hafði áður lagt til svipaða aðferð og í ljósi þess er fjölbreytni atvinnulífs oft lýst með svokallaðri Herfindahl-Hirschman aðferð og andhverfavísitölunnar er þá eiginlegur fjöldi fyrirtækjaeða tegunda í tilfelli Simpson vísitölunnar. Samkeppniseftirlitið notar til að mynda Herfindahl-Hirschman stuðla til að meta samþjöppun á markaði.

Á grundvelli ofangreindra fræða birtir Frjáls verslun nú í fyrsta skipti fjölbreytnivísi semreiknast samkvæmt meðfylgjandi formúlu. Vísirinn er einföld andhverfa af kvaðratsummu tekjudreifingar (t) 300 stærstu (N), reiknað sem hlutfall af heild (N). Formúlan fær skammstöfunina FV sem er stytting á Fjölbreytni-Vísi.

© vb.is (vb.is)

Til einföldunar þá væri teljarinn, eiginlegur fjöldi fyrirtækja svo gott sem eitt fyrirtæki ef tekjuhæsta fyrirtækið (t1) teldist vera með 90% af samanlögðum tekjum allra (tN) og þá væri fjölbreytnin ~1,2/300 eða 0,4%. Að sama skapi væri eiginlegur fjöldi fyrirtækja 300 ef öll fyrirtækin væru með sömu tekjur og fjölbreytnin þá 300/300 eða 100%. Meðfylgjandi mynd sýnir eiginlegan fjölda fyrirtækja, reiknað á ofangreindan hátt út frátekjudreifingu 300 stærstu fyrir árin 2013 til 2020.

© vb.is (vb.is)

Þessi einfalda aðferð fangar ágætlega þær breytingar sem eiga sér stað í atvinnulífinu á milli ára og þjónar sem innlegg í umræðu um fjölbreytni atvinnulífsins. Það kemur eflaust fáum á óvart að sú samþjöppun sem birtist okkur sem 9,7% fjölbreytni árið 2007 byggir á þeirri staðreynd að tekjur fjármálafyrirtækja töldust hlutfallslega mun meiri en annarra fyrirtækja á lista yfir 300 stærstu það árið.

Eiginlegur fjöldi fyrirtækja var 27 sem taldist vera um 9,7% af 300 fyrirtækjum sem er minnsti fjölbreytni sem mælist frá því að útgáfan 300 stærstu hófst. Útrásin á erlenda markaði jók tekjur fyrirtækjanna verulega á meðan önnur félög sem létu sér innanlandsmarkaði nægja, féllu í skuggann.

Til þess að setja þessa þróun í samhengi viðaðra skilvirkari markaði fylgir þessari grein sambærilegur fjölbreytnivísir fyrir 500 tekjuhæstu fyrirtæki Bandaríkjanna samkvæmtlista sem tímaritið Fortune birtir árlega. Árið 2020 endurspegluðu fyrirtækin um tvo þriðju af landsframleiðslu Bandaríkjanna.

Samanburðurinn sýnir að breytingarnar þar eru minni á milli ára. Þá sýnir samanburðurinn að fjölbreytni er takmörkum háð, jafnvel á stórum skilvirkum markaði. Samkeppni og hagkvæmni stærðar leiðir oftar en ekki til hlutfallslegra yfirburða sem dregur úr fjölbreytni en samkeppnislög setja of mikilli samþjöppun ákveðin mörk.

Breytingar á fjölbreytni geta verið af ýmsum ástæðum. Fallegust er breytingin þegar lítil og meðalstór fyrirtæki vaxa og stækka markaðinn án þess að ryðja þeim sem fyrir eru úr vegi. Þá getur breytingin komið til vegna brottfallsstærri fyrirtækja eins og gerðist 2012 þegar bæði Bakkavör og Actavis duttu út af listanum sem jók tekjudreifingu þeirra sem eftir voru.

Að endingu er það rekstrarárið 2020 semnúgildandi listi byggir á. Fjölbreytni eykst á milli ára á Íslandi en lækkar í BNA, breyting sem rekja má til mismunandi áhrifa heimsfaraldursins. Covid-19 hafði neikvæð áhrif á tekjur 8 af 15 stærstu hér á landi á meðan 12 af 15 stærstu vestanhafs sýna tekjuvöxt á milli ára. Amazon, Apple, Google og Microsoft vaxa hressilega á milli ára. Hér á landi varð ferðaþjónustan fyrir verulegum búsifjum sem lesa má á milli lína í listum þessa árs útgáfu.

Þetta einfalda dæmi um mælingu á fjölbreytni fylgir engin sérstök skoðun höfundar á því hvað telst vera eðlileg tekjudreifing og þá fjölbreytni í skilningi aðferðarinnar. Mælingin er engu að síður vísbending um þróun atvinnulífsins á milli ára sem bætir upplýsingagildi árbókarinnar um 300 stærstu. Fjölbreytni er falleg og flestir munu vera sammála því. Standi vilji til að fagna henni reglulega er ágætt að geta vísað til mælinga enda gefur fjölbreytni atvinnulífinu lit og gerir það skemmtilegra.

Höfundur er framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.

Greinin birtist í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .