*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Andrés Magnússon
3. maí 2020 11:01

Fjölmiðlafrelsið

Fjölmiðlarýnir skrifar um fjölmiðlafrelsi, fyrirhugaða ríkisstyrki til fjölmiðla og nýlegar þjóðaröryggisráðstöfun forsætisráðherra.

Fjölmiðlafrumvarp menningarmálaráðherrans Lilju Alfreðsdóttur hefur verið nokkuð umdeilt, innan sem utan þingsins.
Gígja Einars

Hér á síðunni var í liðinni viku birt heimskort yfir fjölmiðlafrelsi byggt á árlegri skýrslu alþjóðasamtakanna Blaðamanna án landamæra (Reporters sans frontières). Fleiri íslenskir fjölmiðlar gerðu sér mat úr skýrslunni, en þar var uppslátturinn mjög á eina leið, sá að Ísland hefði fallið um sæti milli ára, úr hinu 14. í það 15. og lesandanum eftirlátið að draga þá ályktun að eitthvað mikið hlyti að vera að, þó vandi sé að benda á eitthvað sérstakt sem breyst hafi í fjölmiðlaumhverfinu á liðnu ári.

Hver ætti enda að efast um niðurstöður svo virtra alþjóðasamtaka? Það er stundum sagt að á Íslandi komi upphefðin að utan, en miðað við þetta kemur niðurlægingin að utan líka. En hversu ábyggilegt er það nú? Svarið er: ekki mjög.

* * *

Fyrir það fyrsta má mjög efast um að tölurnar í skýrslunni standi undir ályktun um að fjölmiðlafrelsi hafi hrakað í landinu. Samtökin taka tillit til ótal þátta við matið, en þarna gerðist það að refsistigum Íslands fjölgaði örlítið milli ára, alls um 0,41%. Það segir sig sjálft að svo lítil breyting stendur ekki undir mjög víðtækum ályktunum.

Ekki síður er þó kannski rétt að horfa til aðferðafræðinnar þar að baki. Samtökin leita upplýsinga og álits um stöðu ótal þátta, svo sem aðbúnað blaðamanna, eignarhalds, áhrifa ríkisvaldsins, utanaðkomandi ógna, laga, réttarfars og svo framvegis. Þar ræður hins vegar ekki einhlítur mælikvarði, enda nær vonlaust að koma slíku við í hinum 180 ólíku ríkjum heims, sem skýrslan nær til. Þess í stað er leitað svara við 87 spurninga netkönnun í hverju landi fyrir sig, en fjölmiðlamenn, lögfræðingar og félagsfræðingar fengnir til svara. Meira er í raun ekki um svarendurna vitað, hversu margir þeir séu, hvernig dreifingin er eða annað slíkt. Það má gagnrýna að aðferðafræðin sé ekki gegnsærri en þetta, a.m.k. í sæmilega frjálsum ríkjum heims, þó skilja megi að í ófrjálsari ríkjum kunni að vera óskynsamlegt að segja of mikið um svarendurna.

Af sama leiðir að miklu getur skipt hverjir svarendurnir eru, hvaða hagsmuni eða skoðanir þeir kunna að hafa, og líka hversu margir. Ef þeir eru ekki ýkja margir þarf varla meira en eina orðalagsbreytingu í einu svari milli ára til þess að ástandið virðist versna um 0,41%.

* * *

Það segir kannski sína sögu um ástandið á Íslandi, að umfjöllun um landið í skýrslunni hefur verið orðrétt hið sama mörg undanfarin ár. Eins kunna einhverjir að vilja lesa eitthvað í það að þar er einungis minnst á sögulegan árangur Icelandic Modern Media Initiative (IMMI), sem fjölmiðlarýnir hyggur að hafi farið fram hjá flestum eyjarskeggjum. IMMI mun vera „alþjóðastofnun" Birgittu Jónsdóttur, sem hefur aðsetur í kjallaraíbúð hennar og farsíma. Og jú, það er ein skýringarlaus setning um að blaðamenn eigi bágara en áður þar sem samband fjölmiðla og stjórnmálamanna hafi súrnað!

Og þá er spurningin: Mun skýrsla næsta árs greina frá því að frelsi íslenskra fjölmiðla hafi aukist eða minnkað og samband miðla og stjórnmálamanna súrnað eða orðið sætara við það að þeir verða allir komnir á framfæri fjárveitingavaldsins, styrkþegar stjórnmálastéttarinnar?

* * *

Hér verður ekki að sinni fjallað um þær fyrirætlanir stjórnvalda að styrkja frjálsa fjölmiðla úr ríkissjóði vegna sérstakra rekstrarerfiðleika þeirra, sem bætast ofan á hina fyrri, vegna heimsfaraldursins.

Það er þó vert að vekja athygli á því að þar ræðir um nákvæmlega sama fyrirkomulag og Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra hefur lagt fram í frumvarpi. Munurinn er aðeins sá að nú er horft til þessara sérstöku aðstæðna, en í upphaflegu frumvarpi var lagður grunnurinn að viðvarandi, opinberu styrkjakerfi fjölmiðla, sem áður hefur verið fjallað um á þessum stað, frekar svona gagnrýnið.

Það frumvarp hefur hins vegar ekki átt greiða leið í gegnum þingið, en margvísleg gagnrýni hefur komið fram á það innan þings sem utan. Nógu er það viðkvæmt að ríkisvaldið ætli að styrkja fjölmiðla með árlegum fjárframlögum, sem ákveðin verða af Alþingi; þessa sömu fjölmiðla og veita eiga stjórnvöldum og stjórnmálamönnum aðhald. En þá hlýtur hitt þó að vera hálfu varhugaverðara að þegar það frumvarp stendur í þinginu, skuli menningarmálaráðherrann ætla samt að koma því í gegn bakdyramegin í þinginu, undir yfirvarpi viðbragða við heimsfaraldrinum.

Og ótrúlegt en satt, þá hafa þessir sömu fjölmiðlar ekki verið að flytja sérstakar fréttir af því!

* * *

Þegar þetta er skoðað samhliða nýlegum þjóðaröryggisráðstöfunum forsætisráðherra, sem fjallað var um hér í síðustu viku, þar sem komið hefur verið á sérstökum starfshópi um upplýsingaóreiðu til þess að gaumgæfa fjölmiðlun og fréttaflutning, þá fyrst er þó ástæða til þess að vera á varðbergi. Eins og þar kom fram eru pólitískir varðhundar í þessum hópi, sem telja sig þess umkomna að flokka fjölmiðla í verðuga og óverðuga, og telja sig eiga að hamla gegn gagnrýni á stjórnvöld og hvaðeina.

Hvaða einkunn ætli Ísland fái hjá Blaðamönnum án landamæra þegar það verður allt orðið að veruleika?

Það væri kannski gustuk ef einhver fjölmiðill leitaði álits Birgittu á því.

* * *

Fjölmiðlarýnir verður að játa að honum varð ekki rórra við nýlegar yfirlýsingar Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns, sem komu eilítið inn á skyld svið. Þar sagði hann að gott væri „ef samfélagið kæmi sér saman um sáttmála til þess að forða því að bakslag komi í kórónuveirufaraldurinn hér á landi. Það þurfa allir að leggjast á eitt svo lífið geti farið í eðlilegra horf." Undir það geta sennilega flestir tekið, þó e.t.v. hafi einhverjum brugðið í brún við að lögreglan vildi fara að vasast í sjálfum samfélagssáttmálanum.

En svo bætti hann við að einnig væri mikilvægt „að miðla upplýsingum vel og hafa allt uppi á borðum. Nota fréttir frá traustu fréttamiðlunum sem eru ritstýrðir og sýna okkur rétta mynd af hlutunum, nota það í umræðunni og ekki eitthvað annað."

Ekki ætlar fjölmiðlarýnir að gera lítið úr nauðsyn þess að fjölmiðlar fái aðhald, en það er fjandakornið ekki hlutverk lögreglunnar að hlutast til um það.

Ekki í lýðræðisríkjum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.