Vinnudeila Blaðamannafélags Íslands (BÍ) við fjölmiðla er enn óleyst, en að óbreyttu stefnir í frekari verkfallsaðgerðir. Ómögulegt er að segja fyrir um lausn deilunnar, þar ber ljóslega töluvert á milli. Blaðamenn eru fæstir mjög vel launaðir, en fjárhagsleg staða íslenskra fjölmiðla í heild hefur sjálfsagt aldrei verið lakari. Hér ræðir því ekki um heimtufrekju blaðamanna eða þvergirðingshátt fjölmiðlanna, blaðamenn telja sig hafa setið eftir meðal annarra launþega, en miðlarnir geta sagt svipaða sögu og hafa lítið til skiptanna.

Rekstur allra helstu fjölmiðla hefur verið þungur undanfarin ár, en fjölmiðarnir mega heita eina íslenska atvinnugreinin, sem ekki hefur rétt úr kútnum eftir hrun. Þá þrengdist ákaflega um tekjuöflun, sem kallaði á mun harðari samkeppni á auglýsingamarkaði, en baráttan um brauðið stendur enn. Á sama tíma hefur kostnaður vegna starfsmanna og aðfanga aukist eins og hjá öðrum fyrirtækjum, en tekjur ekki í sama mæli. Við bættist svo auðvitað að miðlarnir báru ýmsar syndir og skuldir frá hruninu, hvað sem leið afskriftum og öðru slíku.

***

Það er engum ofsögum sagt af þrengingum fjölmiðlanna. Í lok liðinnar viku sagði Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, upp 15 manns, flestir reyndir blaðamenn, sem þá eru sennilega líka í dýrari kantinum. Með því má ná niður rekstrarkostnaði, en um leið hverfur reynsla og stofnanaminni af Morgunblaðinu, elsta fréttamiðli landsins sem hefur löngum búið að þeirri ríku reynslu. Slík ákvörðun er ekki tekin af neinni léttúð.

Frekari breytingar á ritstjórn eru ráðgerðar, einkum í vaktafyrirkomulagi, svo blaðið verði að mestu leyti unnið í dagvinnu. Áfram verður þó unnt að skrifa nýjar fréttir eitthvað fram á kvöld, svona ef það brestur á með Heklugosum eða stjórnarslitum. Þegar svo ákaflega er fækkað á ritstjórninni segir sig þó sjálft að eitthvað mun undan láta, blaðið getur ekki sinnt öllum sömu verkefnum og efnisþáttum og áður.

Fjölmiðlarýnir sá út undan sér að einhverjir vildu tengja uppsagnirnar við vinnudeiluna með beinum hætti og bentu meðal annars á að sumir þeirra, sem sagt var upp störfum, hefðu gagnrýnt blaðið fyrir að láta ófélagsbundið fólk sinna fréttavöktum á mbl.is meðan þar væri vinnustöðvun meðal félagsmanna BÍ.

Það er fráleit samsæriskenning. Hitt er annað mál að þeir erfiðleikar, sem verkfallsaðgerðir valda og kunna að valda, og þá auðvitað líka kröfur BÍ, geta vel verið óbeint tilefni uppsagnanna, en ekki bein ástæða. Þar að baki býr meiri, langvinnari og djúpstæðari vandi. Og sá vandi er engan veginn aðeins bundinn við Morgunblaðið.

***

Þrátt fyrir verulega tiltekt er rekstur Fréttablaðsins ekki auðveldur, en þar hefur grisjast verulega um starfsmenn, eins og lesendur verða áþreifanlega varir við bæði á fréttasíðum þess og innblaði. Það getur verið óttalegt þunnildi á slæmum degi og ekkert miklu meira á góðum. Ekki verður séð að það hafi neitt breyst til batnaðar með nýjum eigendum og nýjum ritstjórum, þó rétt sé að gefa þeim einhvern tíma enn til þess að breyta blaðinu og vonandi bæta. Það gerist tæplega án verulegrar meðgjafar eigendanna. Eru þeir viljugir til þess?

Slíkar fjölmiðlafjárfestingar eru ævinlega áhættusamar, en ætli þær séu ekki einstaklega áhættusamar um þessar mundir og þá sérstaklega í prentmiðlum? Í því samhengi er rétt að benda á grafið hér neðst til vinstri á síðunni, en það sýnir mjög breyttar lestrarvenjur nemenda á liðnum áratug, sem teknar voru saman í nýbirtri PISA-könnun. Þær tölur eru ekkert minna en hrollvekjandi fyrir blaðaútgefendur.

***

Vandinn er þó alls ekki bundinn við prentmiðla eina, líkt og sjá má af hryllingssögunni um ruglið í rekstri Ríkisútvarpsins, svo það sé nú orðað kurteislega. Þar er skákað í skjóli skatttekna fyrir almannaútvarpsþjónustu (einokurnartekna, eins og það var kallað í gamla daga), en megnið af starfseminni miðast við afþreyingarefni, svona í bland við sókn á samkeppnismarkaði.

Þar virðist vera viðvarandi og óleysanlegur rekstrarvandi, en eins og Ríkisrendurskoðun benti á í skýrslu sinni á dögunum er reksturinn fjarri því sjálfbær og hefur raunar aðeins lifað fyrir bellibrögð, skattasniðgöngu og einskiptistekjur eins og fyrir lóðabraskið í Efstaleiti, sem orkar einstaklega tvímælis af ótal ástæðum öðrum.

Gleymum því svo ekki að á einhvern yfirskilvitlegan hátt fór hið opinbera fyrirtæki RÚV engu skár út úr hruninu en aðrir. Hvernig á því gat staðið var einn örfárra þátta hrunsins sem aldrei var rannsakaður! Líkurnar á því að einhverjir aðrir en skattgreiðendur muni bera ábyrgð á rekstri RÚV eru hins vegar engar og sennilega „pólitískur ómöguleiki“ annað en þeir verði áfram látnir blæða fyrir stjórnleysið og fjármálaóreiðuna í Efstaleiti. Til eilífðarnóns.

***

Ekki búa allir ljósvakamiðlar svo vel og þeir mega ekki allir við miklu. Þannig tóku menn eftir pósti Þóris Guðmundssonar, fréttastjóra fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis, til starfsmanna á dögunum, þar sem hann sagði að hún mætti ekki við frekari verkföllum og vísaði þar til hugsanlegra allsherjarverkfalla BÍ nú í mánuðinum. Sagði svo:

Stöð 2 hefur verið með kvöldfréttir í 33 ár á hverju einasta kvöldi. Og auðvitað er það metnaður okkar allra að það haldi áfram. Sömuleiðis að Vísir verði áfram með fréttir á hverjum einasta degi.

Í þetta lásu menn auðvitað ýmislegt, þar á meðal að eigendur Sýnar hefðu hugleitt að loka fréttastofunni einfaldlega, hún svaraði ekki kostnaði. Þórir mótmælti slíkum sögusögnum raunar, en reikningsdæmi eigendanna er samt einfalt.

***

Það verður vart hjá því litið að fréttamiðlun á Íslandi er í stórhættu. Fjarstæðukenndar hugmyndir um styrkjakerfi fjölmiðla lengja lítið í þeirri snöru. Fyrir nú utan hitt, að það fer ekki vel á því að ríkisvaldið hafi fjölmiðla í slíku bandi.