*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Óðinn
9. desember 2015 14:07

Fjölmiðlar og fjögurra blaða smárar

Óðinn fjallar erfiðan rekstur fjölmiðla, 365, Kjarnann og endurkomu Gunnars Smára.

Rekstur einkarekinna fjölmiðla gekk mjög illa á síðasta ári. Það sem vegur þyngst og kom mest á óvart var mikill taprekstur 365 miðla. Félagið tapaði 1.639 milljónum. Tap af reglulegum rekstri fyrir skatta nam 568 milljónum í stað 915 milljóna króna hagnaðar árið áður.

Þá er ótalinn einskiptiskostnaður sem gjaldfærður var á árinu 2014 sem nam 1.071 milljón króna. Sú gjaldfærsla verður ekki skilinn á annan veg en þann, að uppgjör áranna á undan voru verri en sem nemur einskiptiskostnaðnum. Óðinn sakar stjórnendur 365 miðla ekki um blekkingaleik, en telur að útskýringar á gjaldfærslunni vera ófullnægjandi í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér.

Dagskrábirgðir eru meðal þess sem er skrifað niður. Félagið, og forverar þess, hafa rekið sjónvarpsrekstur frá 1986. Reglur um afskriftir á dagskrárefni eru þekktar og því undarlegt að skyndilega þurfi að afskrifa það sérstaklega um 682 milljónir á árinu 2014. Þetta vekur upp ugg hjá Óðni í ljósi þess að eigendur félagsins hyggjast skrá það á markað.

Gunnar Smári snýr aftur

Gunnar Smári Egilsson ætlar að snúa aftur á fjölmiðlamarkaðinn eftir margra ára útlegð sem ritstjóri Fréttatímans. Gunnar Smári var forstjóri Dagsbrúnar, móðurfélagið 365 miðla og fleiri félaga frá lokum árs 2005 fram á mitt ár 2006. Þar á undan var hann forstjóri 365 ljósvakamiðla ehf. og 365 prent¬miðla ehf. Fyrstu 9 mánuði ársins 2006 tapaði Dagsbrún 4.678 milljónum en tap ársins var um 7 milljarðar króna, en þá hafði nafni félagsins verið breytt í 365.

Gunnar Smári hafði áður séð taprekstur í fjölmiðlum sem hann hefur stýrt eða átt hlut í, þó aldrei í þessum mæli. Haustið 2003 tók hann við rekstri DV eftir að Norðurljós keypti blaðið, en um svipað leyti eignaðist Jón Ásgeir Jóhannesson ráðandi hlut í félaginu. Við það tilefni sagði Vefþjóðviljinn eftirfarandi: „Elsta dagblað landsins, DV, hefur skipt um eigendur eins og kynnt var all rækilega í fréttatímum og spjallþáttum sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi þar sem nýr stjórnandi blaðsins fór mikinn um eigin snilli í blaðaútgáfu. Fyrir rúmu ári hafði Gunnar Smári Egilsson unnið sér það til frægðar að hafa hjálpað til við að koma Pressunni, Eintaki og Fréttablaðinu fyrir kattarnef. Skjótt skipast veður í lofti því nú þurfa menn að venjast þeirri hugsun að hann sé í raun fjögurra blaða smári íslenskrar blaðaútgáfu.“

Árni, Hallbjörn og Sigurður taka þátt

Hópurinn sem stendur að baki Gunnari Smára hefur áður komið að rekstri fjölmiðla. Árni Hauksson var fjármálastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, útgáfufélags DV, þar til hann varð fjármálastjóri Húsasmiðjunnar árið 2000 og forstjóri hennar árið 2002 þegar hann keypti félagið ásamt Hallbirni Karlssyni og Baugi. Að auki sat kom Árni að endurreisn Fréttablaðsins árið 2003 ásamt Gunnari Smára og sat í stjórn Dagsbrúnar, meðal annars þegar Gunnar Smári var forstjóri. Árni sat einnig í stjórn 365 eftir nafnabreytinguna árið 2006.

Sigurður Gísli Pálmarsson var stjórnarformaður í hluthafi í Íslenska útvarpsfélaginu í kringum 1990, en verulegar deilur voru í hluthafahópnum. Áramótahópurinn undir stjórn Óskars Magnússonar, varð undir, en Sigurður Gísli var hluti af honum, og náði Jón Ólafsson í Skífunni og félagar meirihluta í félaginu.

Það verður áhugavert fyrir þá sem -fylgjast með rekstri fjölmiðla að sjá hvað Fréttatímahópurinn ætlast fyrir. Varla er hugmyndin að gefa út blað einu sinni í viku í óbreyttri mynd. Margar kenningar eru á lofti. Ein er sú að útgáfudögum muni fjölga. Slík ákvörðun verður varla tekinn á viðskiptalegum forsendum, enda Fréttatíminn gefinn út á besta tíma, föstudögum. Það er augljóst að auglýsingatekjur af Fréttablaðinu og Morgunblaðinu eru mjög slakar fyrri hluta vikunnar. Munurinn er hins vegar sá að Morgunblaðið hefur áskriftartekjur og þrátt fyrir að þeim hafi fækkað eru um 20% heimila með áskrift. Morgunblaðið tapaði 50 milljónum fyrir skatta og Óðinn er ekki í nokkrum vafa að tap Fréttablaðsins hafi ekki verið minna.

Fleira hefur verið nefnt. Samstarf eða sameining með einhverri af litlu sjónvarpsstöðvunum. Stofnun útvarpsstöðvar. Óðinn sér engin sérstök tækifæri í þessu, en telur rétt að bíða og sjá.

Tilraunin sem mistókst

Á árinu 2013 var stofnaður nýr fjölmiðill sem eingöngu ætlaði að gefa út blað á rafrænu formi einu sinni í viku og nefndist Kjarninn. Ekki voru forsendur útgáfu fyrir rekstrinum og var blaðinu breytt í veffréttasíðu. Óðinn ber virðingu fyrir öllum þeim sem fara út í fyrirtækjarekstur því það kostar áræðni, dug og ómælda vinnu.

Hins vegar hafði Óðinn efasemdir um að reksturinn gæti gengið upp. Ástæðurnar eru tvær. Þó prentun dagblaða og tímarita muni ef til vill líða undir lok, þá er sá tími ekki kominn. Hinn er sá að Óðinn hefur takmarkaða trú á rekstri fjölmiðla þar sem notandinn greiðir ekkert fyrir þjónustuna. Að þessu sögðu efast Óðinn um að Fréttablaðið hafi nokkurn tímann skilað hagnaði.

Barnalegar yfirlýsingar

Yfirlýsingar stofnenda Kjarnans voru barnalegar. Í einni auglýsingu vefritsins er haft eftir blaðamanni „„við eigum Kjarnann, engir fjárfestar, engin hagsmunaöfl, ekkert rugl“. Fáeinum mánuðum seinna var útgáfufélag Kjarnans búinn að gefa út nýtt hlutafé og fjárfestar áttu 33% hlut. Í hlutahafahópinn bættust gjaldkeri Samfylkingarinnar og fyrrverandi varaformaður flokksins. Þá voru allar fjórar staðhæfingarnar í auglýsingunni foknar út í veður og vind.

Einn af núverandi fréttamönnum á Ríkisútvarpinu á 9,44% hlut í Kjarnanum samkvæmt skráningu Fjölmiðlanefndar. Þó svo hann hafi verið einn af stofnendum vefmiðilsins þá er þetta óheppilegt. Stjórnarmenn í Ríkisútvarpinu mega ekki hafa nein tengsl við aðra fjölmiðla en fréttamenn þessarar ágætu stofnunar mega það hins vegar virðast hins vegar mega það. Það verður að teljast rugl, svo vitnað sé í blaðamann Kjarnans.

Fréttablaðið og Ríkisútvarpið skekkir markaðinn

Íslenskir fjölmiðlar verða aldrei reknir á eðlilegum forsendum breytingar verði á starfsumhverfi þeirra. Rekstri Ríkisútvarpsins á að breyta í sjóð sem styður við íslenska dagskrárgerð, og telur Óðinn fréttaflutning ekki til íslenskrar dagskrárgerðar í þessum skilningi. Snúa á við ákvörðun um að hækka virðisaukaskatt á fjölmiðla og þá verður eðlilegt endurgjald að koma fyrir þá þjónustu sem fjölmiðlar veita. Ef rekstur fjölmiðla verður áfram rekinn með tapi, í sama mæli og árið 2014, mun gæðum fréttaþjónustu hraka enn meira á Íslandi. Vart er það falleg framtíðarsýn að einu einkareknu miðlarnir verði þeir sem fjármagnaðir eru af einhverri hugsjón af fólki sem tilbúið er að sætta sig við tap af slíkum rekstri.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu þann 3. desember 2015.

Stikkorð: Óðinn 365 miðlar Fjölmiðlar Árvakur Kjarninn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is