*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Andrés Magnússon
27. október 2017 16:01

Fjölmiðlarýni: Kosningaútvarp RÚV

Það væri að æra óstöðugun að að fara að ræða um fréttaflutning Stundarinnar, lögbannið og það allt.

Haraldur Guðjónsson

Það væri að æra óstöðugun að að fara að ræða um fréttaflutning Stundarinnar, lögbannið og það allt. Þó vissulega sé nóg um að fjalla. Margt af því hefur verið rakið á þessum vettvangi áður og ýmsir aðrir svo sem um fjallað. Hins vegar er rétt að huga aðeins að þessum margumræddu gögnum, sem liggja að baki fréttaflutningnum öllum. Frá bankahruni hefur eitt og annað kvisast út um það, sem átti sér stað í einstökum bönkum á tímum stóru bólu fjármálakerfisins, bæði um það sem bankarnir sjálfir voru að sýsla en einnig um það sem einstakir viðskiptamenn voru að bauka, ekki síst þá hinir mikilfenglegu útrásarvíkingar (langt síðan maður hefur notað það góða orð!).

                                               ***

Upplýsingar um það hafa borist fjölmiðlum eftir ýmsum leiðum. Embætti sérstaks saksóknara lak t.d. eins og gatasigti um nokkra hríð og sumir kollegar byggðu sig raunar mikið upp sem skúbbvísir menn á þeim tengslum. Eins og áður hefur verið minnst á hér í dálkinum þurfa blaðamenn þó að fara að öllu með gát í þeim efnum. Verði þeir háð- ir heimildamönnum sínum eru þeir jafnframt að opna sig fyrir því að heimildamennirnir geti notfært sér þá. Ekki síst á það við þegar heimildarmennirnir sitja á gríðarlegum gagnahaugi og geta handvalið það í fréttamenn, sem þeim hentar, fremur en það sem fréttamanninum kynni að þykja fréttnæmast eða helst ætti erindi við almenning. Í því samhengi er rétt að ítreka að fréttamat og ritstjórnarvald á ævinlega að vera hjá fjölmiðlunum sjálfum, ekki heimildarmönnum þeirra eða hagsmunaaðilum.

                                               ***

Þau gögn, sem mest hefur verið moðað úr, eiga hins vegar uppruna að rekja til slitanefnda bankanna. Lánabók Kaupþings vakti þannig gríðarlega athygli á sínum tíma, en þar var lýst í smáatriðum háum lánum sem Kaupþing veitti ýmsum tengdum aðilum, þar á meðal stærstu hluthöfum bankans og viðskiptavinum. En svo eru það gögnin frá Glitni, sem hafa verið fréttamatur hvað eftir annað á umliðnum árum. Þau hafa ekki aðeins verið heimildin í fjölmörgum greinum Stundarinnar (og áður DV) um fjármál Bjarna Benediktssonar. Þau voru t.d. notuð í fyrra í umfjöllun um fjármál hæstaréttardómara, voru stofninn í umfjöllun um Vafningsmálið svonefnda og voru þegar árið 2012 notuð af DV þegar fjallað var um stórkarlalegar afskriftir í bankanum til Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns vegna útistandandi skuldar hans við Glitni vegna framvirkra samninga með skuldabréf Kaupþings. Þar var vitnað til gagna skilanefndarinnar, tölvupósta starfsmanna og svo framvegis.

Og einhverjum kynni að þykja forvitnilegt að þar er mikið til um sömu blaðamenn að ræða og nú þessum árum síðar. Það mætti vel skrifa grein um það allt undir fyrirsögninni „Ingi Freyr Vilhjálmsson í miklum samskiptum við Glitni frá 2011.“

                                               ***

Ekki hafa allir verið á eitt sáttir um notkun gagna af þessu tagi. Sagt hefur verið að gögnin séu stolin og því sé hæpið að blaðamenn notist við þau. Bæði á hinum almennu forsendum að þeir eigi ekki að vera þátttakendur í einhverjum þannig myrkraverkum eða þjófsnautar frekar en annað fólk, en eins hinum sértækari, að blaðamenn eigi að vera þjónar sannleikans og megi því ekki fara fram með falsi.

Það er mikið til í þessu, en það er þó ekki á eina bók lært. Auðvitað eiga blaðamenn ekki að brjóta lög í upplýsingaöflun sinni eða gerast þess hvetjandi að aðrir geri það fyrir þá, þeir eiga ekki að vera þjófsnautar og þeir eiga að hafa sannleikann að vopni, ekki fals. En það er auðvelt að ímynda sér aðstæður, þar sem upplýsing almennings kallar á að notuð séu gögn, sem kunna að hafa borist blaðamanni eftir… óhefðbundnum leiðum, skulum við segja.

Þeir þurfa eftir sem áður að meta það hvort upplýsingarnar eigi brýnt erindi við almenning og þeir mega ekki vera hvetjandi um ólöglegt athæfi við upplýsingaöflun. Og ef þeir skyldu nú verða einhvers fréttnæms vísari, sem ekki varðaði við lög, snertu einkahagi eða ámóta, þá ættu þeir ekki að fjalla um það.

                                               ***

Varðandi fyrrnefnd gögn hvílir sú umræða algerlega á þeirri forsendu að gögnin séu illa fengin. En liggur eitthvað fyrir um það? Er útilokað að eigendur Glitnis, kröfuhafarnir alræmdu, hafi beinlínis ákveðið að koma þeim á framfæri í einhverju skyni? Það má auðveldlega ímynda sér eitt og annað um það. Og getur einhver útilokað að spilltur embættismaður hafi komið þeim til fjölmiðla? Annað eins hefur gerst. 

                                               ***

Eftir að Stundin fékk lögbannið á sig á dögunum ákvað Ríkisútvarpið að gera sér mat úr sömu gögnum. Það var fréttamað- urinn Aðalsteinn Kjartansson, sem það gerði. Alveg burtséð frá efni fréttarinnar má draga dómgreind Rakelar Þorbergsdóttur fréttastjóra í efa vegna þessa. Nefnt hefur verið að Aðalsteinn hafi áður unnið hjá Reykjavík Media og sé málið því á einhvern hátt skylt. Það er þó sennilega skyldleikinn við Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, systur hans og ritstjóra Stundarinnar, sem stendur í fleirum. Það hefði verið rétt hjá fréttastjóranum að gefa því gaum, eiginlega skrýtið að gera það ekki. Það á þó ekki síst við í ljósi þess að Ingibjörg Dögg er einn af stærstu eigendum útgáfufélags Stundarinnar og á því beinna og verulegra hagsmuna að gæta.

Þetta var ógætilegt af fréttastofunni og vekur óþægilegar spurningar um hvar ritstjórnarvald hennar liggi. Ekki síst auðvitað í ljósi hinna pólitísku vinkla málsins og þess hve skammt er til kosninga.

                                               ***

Það rifjar vitaskuld upp hina óskammfeilnu framgöngu RÚV í aðdraganda alþingiskosninga fyrir ári, þar sem Kastljósið var grímulaust misnotað í pólitískum tilgangi.

Í gær kom loks út tölfræðileg samantekt Fjölmiðlanefndar um fréttaflutning RÚV í síðustu kosningum. Hún er mikill áfellisdómur um fréttastofuna. Meira um það síðar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.