*

mánudagur, 27. janúar 2020
Andrés Magnússon
17. nóvember 2019 13:30

Ríkisútvarpið, börnin og Múrinn

Fjölmiðlarýnir fjallar um blöðin og Samherja annars vegar og hins vegar Ríkisútvarpið, múrinn og börn.

Haraldur Guðjónsson

Það er of snemmt að fara yfir mál málanna, Namibíuútgerð Samherja, þar er sagan ekki öll sögð ennþá og svo verður fjölmiðlarýnir að játa að hann er enn að fara yfir geipilega víðfeðma umfjöllun Stundarinnar. Þar er margt vel gert til þess að skýra flókið mál með skýringarmyndum og þess háttar, en hins vegar er textaflóðið þvílíkt, að það er afar erfitt fyrir lesendur að ná utan um málið. Auðvitað er freistandi fyrir blaðamann í svo flóknu máli að segja ýtarlega frá öllum flötum þess, en þar má ritstjóri ekki sýna neina linkind. Um efnið verður að búa þannig að það sé aðgengilegt og auðskilið fyrir lesendur. Þar gildir hið gamalkunna að magn jafngildir ekki gæðum. 

Fjölmiðlarýnir staldrar einnig örlítið við samstarf Ríkisútvarpsins (RÚV) og Stundarinnar. Sum mál geta teygt sig milli landa og verið svo umfangsmikil að samvinna fjölmiðla er æskileg og jafnvel óhjákvæmileg, en það er þá yfirleitt milli miðla í mismunandi löndum, ekki miðla á sama markaði. Það er ekkert óeðlilegt við það þó það sé óvanalegt, nema þá að mönnum þyki það ekki fara saman við eðli ríkisfjölmiðilsins og lagaramma. 

Það er auðvelt að ímynda sér hvernig það gæti rekist á við lögbundna hlutleysisskyldu RÚV, sjálfstæði fréttastofu og þar fram eftir götum, en kannski er ekki síður rétt að gefa rekstrarhliðinni gaum. Slíkt samstarf getur haft margvíslegan ávinning í för með sér, mikið til gagnkvæman auðvitað, en ekki allan. Þannig blasir við að Stundin hefur alveg örugglega notið þeirrar kynningar sem málið og meginefni blaðsins fengu í Kveik RÚV, en á hinn bóginn skiptir það engu fyrir útbreiðslu eða tekjur RÚV hvort Stundin fjallaði líka um málið eða ekki. Þann mun má meta til fjár. Ekki er heldur að efa að einhverjir aðrir miðlar kynnu að þykja þeir afskiptir að þessu leyti.  

* * *

Eitt enn um þetta, sem er að ekki voru nema nokkrar mínútur liðnar frá lokum þáttar Kveiks, þegar fyrstu riddarar samfélagsmiðlanna geystust fram á völlinn og spurðu með þjósti hvenær ærandi þögn Morgunblaðsins myndi eiginlega linna. Í gær færðust þeir enn í aukana, birtu myndir af forsíðum Mogga og Fréttablaðs, og fundu að því að málið hefði aðeins fengið eindálk á forsíðu Morgunblaðsins en ekki staf á forsíðu Fréttablaðsins. 

Þeir sem hæst töluðu á þessum nótum voru fæstir ókunnugir fjölmiðlum, en gagnrýnin er þá aðeins enn óréttmætari fyrir vikið. Þarna voru nýkomnar fréttir, sem Kveikur og Stundin höfðu unnið að mánuðum saman með einkaaðgangi að aðalheimildarmanni og miklu gagnasafni. Hvorugt dagblaðanna hafði því mikið ráðrúm eða svigrúm til þess að ná utan um málið, hvað þá að finna á því nýja fleti. 

Þetta er óöfundsverð aðstaða fyrir hvaða fjölmiðil sem er, að vita af frétt en „eiga“ hana ekki sjálfur.  Og hvað er þá til ráða, að segja fréttir af því að aðrir miðlar hafi flutt fréttir? Það getur verið óhjákvæmilegt, en það er þá líka skiljanlegt að þeir geri ekki meira úr þeim fréttum en nauðsynlegt er. 

Blöðin voru auðvitað í enn þrengri stöðu en ella fyrir það að þarna var komið fram á kvöld, búið að „loka“ Fréttablaðinu, þ.e.a.s. ganga frá öllum síðum til prentunar, en aðeins ein síða opin í Morgunblaðinu, sæmilega laus til ráðstöfunar. — Það var því úr litlu að moða, lítið rými og enginn tími til stefnu. 

Morgunblaðið náði þó að koma þessum eindálki á forsíðuna og ryðja hálfa síðu 2 undir fréttir af málinu. Það var vel af sér vikið og ber síður en svo vott um áhugaleysi. Fréttablaðið var enn aðþrengdara, en náði samt að henda út eindálki á síðu 2 og skrifa frétt um þetta inn í plássið, augljóslega í miklum flýti. Það er vandséð að dagblöðin hefðu getað gert miklu betur í stöðunni.  

* * *

Um þessar mundir eru 30 ár liðin frá því að Múrinn féll, þjóðir Miðog Austur-Evrópu losnuðu undan oki Sovétríkjanna, sem sjálf féllu þremur árum síðar. Fjölmiðlar hafa getið þess með ýmsum hætti, flest ágætlega gert, þó ekki hefði sakað að hafa með meira sögulegt samhengi. Sérstaklega þá kannski áhrifin á heimspólitíkina, sem enn eru að koma í ljós. Þetta var þó ekki allt jafn vel gert. 

Í húsi Ríkisútvarpsins eru margar vistarverur og þar á meðal eru sérstakar fréttir ætlaðar börnum. Það er vandi að segja allar fréttir, svo vel sé, að gæta þess að greina aðalatriði frá aukaatriðum, segja svo skýrt frá að hver skilji og segja satt og rétt frá. Að segja börnum fréttir er ekki minni vandi, því þar má síður gera ráð fyrir bakgrunnsþekkingu, þar er ekki unnt að treysta jafn vel á ályktunarhæfni hlustendanna og svo eru börn auðvitað næmari fyrir innrætingu, sem kallar á að stíga þarf sérlega varlega til jarðar. 

Þetta er ekki vandalaust á góðum degi, en hálfu erfiðara þegar um pólitísk álitaefni er að ræða. Enn frekar auðvitað ef pólitíkin er að þvælast fyrir umsjónarfólkinu, eins og kom svo einkennilega á daginn í Stundarskaupinu 2015, þar sem höfð var uppi fráleit ádeila á forystumenn þáverandi ríkisstjórnar, bæði með ósæmilegum skotum og pólitískri innrætingu um að þeim þætti ekkert skemmtilegra en að leggja heilbrigðiskerfið og RÚV í rúst. En nú var komið að Múrnum, Berlín og Kalda stríðinu. Þar sagði m.a.: 

„…árið 1961 var reistur múr til að aðgreina borgarhlutana. Það var líka gert til að koma í veg fyrir að fólk flyttist á milli, aðallega frá austri til vesturs.“ 

Það er einmitt það. Það var bara reistur múr, svona til aðgreiningar, án þess að fram komi hver reisti hann. Og svo hafði hann þessa frábæru aukagetu að koma í veg fyrir óhóflega húsflutninga! —  Þetta er í besta falli óboðlegt bull. Mögulega eitthvað verra.  

* * *

Það er þó ekki ómögulegt að þetta hafi bara verið svona kauðskt, en þá samt sem áður vegna afstöðu þess sem samdi þvaðrið. RÚV er þó ekki eitt um slíkt. Í lok liðins mánuðar bárust þannig fregnir af því að Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi dauðaköltsins ISIS, hefði sprengt sig og tvö börn sín í tætlur í Sýrlandi fremur en að falla bandarískum sérsveitarmönnum í hendur. Í eins konar minningargrein í Washington Post þótti hins vegar best fara á því að upplýsa lesendur um það í fyrirsögn að hann hefði verið nægjusamur guðfræðingur (e. austere religious scholar). 

Þetta þótti mörgum að vonum vera sérkennileg lýsing og uppskar blaðið nokkra gagnrýni fyrir, en aðallega var þó hæðst að því. Á Twitter varð þannig vinsælt sport að semja samsvarandi fyrirsagnir um hin og þessi illmenni sögunnar: Adolf Hitler, mælskur ættfræðigrúskari og dýravinur, fellur frá; Jósef Stalín, umbótamaður í refsirétti og stjórnarskrárgjafi, bráðkvaddur; Osama bin Laden, verkfræðingur og 23 barna faðir, fær skjótt andlát; Pablo Escobar, baráttumaður fyrir skaðaminnkun, andaðist eftir ágreining við lögreglu. 

Washington Post sá að sér áður en dagur rann og breytti fyrirsögninni þannig að fram kom að hann hefði verið ofstækisfullur leiðtogi ISIS. 

Auðvitað eiga fréttamiðlar að forðast gildishlaðnar lýsingar, en þeir mega ekki vera feimnir við að segja sannleikann um fólk. Það er þannig óþarfi að segja fólki frá því að Hitler hafi verið einstakt ómenni, en það á ekki heldur að fara eitthvað í kringum það að hann var þriðji mesti fjöldamorðingi sögunnar. Nei, það er einmitt nauðsynlegt að það komi fram. 

Það er kannski frekar skrýtið að í fjölmiðlaumfjöllun þar sem Stalín ber á góma er iðulega vikið að harðstjórn hans almennum orðum en sjaldnast tínt til að hann hafi murkað lífið úr talsvert fleiri milljónum en Hitler. Og hvað þá um Maó formann, sem hafði 50-60 milljónir mannslíf á samviskunni? Á það er svo að segja aldrei minnst. Nú orðið er það sjálfsagt mest vegna þess að það er hinn viðtekni söguþráður og tugmilljónirnar þöglu gleymast skjótt. Á sínum tíma var það hins vegar örugglega vegna þess að mörgum vinstrimönnum þótti af ýmsum ástæðum erfitt að minnast á þetta, en um illsku Hitlers voru allir sammála. En varla á það við lengur? Og fjölmiðlar eiga vitaskuld enn síður að vera feimnir við að segja þennan hræðilega sannleika.

Stikkorð: fjölmiðlarýni
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.