*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Týr
12. júlí 2020 09:08

Fjölmiðlastyrkir vegna heimsfaraldursins

Rekstrarstuðningur til einkarekinna fjölmiðla, sökum áhrif af COVID-19, hefur verið kynntur, mest fer til stærstu fjölmiðlanna.

Haraldur Guðjónsson

Menningarmálaráðherrann er búinn að kynna reglugerð um sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla til þess að mæta tekjufalli af völdum heimsfaraldursins. Hún er ekki gallalaus, en samt vel til þess fallin að gera það, sem hún á að gera, að vera fjölmiðlum neyðaraðstoð vegna COVID-19.

                                                                        ***

Týr sá að ekki voru þó allir ánægðir, en Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, rakti í gær í löngu máli hvernig að með reglugerðinni boðaði ríkisstjórnin „aðför að fjölbreyttri frjálsri fjölmiðlun“, hvorki meira né minna. Hann gat þess þó raunar líka að rekstur Kjarnans væri í fínum málum, svo ekki koma kvartanir hans til af því að miðill hans þurfi styrk.

Þórður Snær fann einkum að því að samkvæmt reglugerðinni kæmi mest í hlut stærstu fjölmiðlanna, sem væri ekki í góðu samræmi við hugmyndir sínar um tilgang og tilhögun fjölmiðlastyrkja og nefndi því til stuðnings fyrri umræðu um almennt styrkjakerfi einkarekinna fjölmiðla og umsögn Samkeppniseftirlitsins um að meginmarkmiðið ætti að vera að styðja við fjölræði og fjölbreytni.

                                                                        ***

Þarna er Þórður Snær að rugla saman ólíkum málum. Hér ræðir um sérstakan stuðning vegna heimsfaraldursins, sem miðar að því einu að lágmarka efnahagsáhrif hans á fjölmiðla. Þar að baki búa engin sjónarmið um regnbogasamfélag fjölmiðla, hvað sem líður hugarflugi um slíkt varðandi frumvarp Lilju um almenna og viðvarandi styrki til einkarekinna fjölmiðla.

Frumvarp, sem vel að merkja virðist ekki eiga greiða leið í gegnum þingið. Fyrir nú utan hitt, að heldur eru það nú veik rök fyrir slíku að tína það eitt til úr umsögn Samkeppniseftirlitsins, sem er algerlega utan umfjöllunarsviðs þess.

                                                                        ***

Týr skilur og fellst á röksemdirnar fyrir því að vegna rekstraráfalla af völdum heimsfaraldursins megi rétta fjölmiðlum hjálparhönd. Og sömuleiðis að brýnast sé að verja hina eiginlegu frumfréttamiðla. Týr er hins vegar enn sem fyrr algerlega mótfallinn því að komið verði á styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla; hætturnar samhliða því að gera frjálsa fjölmiðla háða fjárveitingavaldinu eru alltof miklar.

Og það má taka undir það sem Þórður Snær bendir á, að slíkir styrkir eru óhjákvæmilega til þess fallnir að skekkja samkeppnisstöðu fjölmiðla. Vilji hið opinbera hlúa að frjálsri fjölmiðlum þarf það að gerast með almennum aðgerðum, sem allir miðlar njóta jafnt, t.d. á skattaumhverfi þeirra.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.