*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Týr
16. desember 2019 08:04

Fjöreggið og tröllin

Óðagot og patentlausnir pópúlista gætu haft hrikalegar afleiðingar bæði fyrir atvinnulíf og verðmætasköpun í landinu.

Haraldur Guðjónsson

Þegar Samherjamálið kom upp fjallaði Týr um það og hvatti til þess að menn tækju því af fullri alvöru og rannsökuðu hin meintu lögbrot af fullri alvöru og þunga af viðeigandi yfirvöldum. Jafnframt var varað sérstaklega við því að menn féllu ekki í þá gildru pópúlista og pólitískra lukkuriddara að láta málið fara að snúast um allt aðra hluti.

  ***

Þau varnaðarorð reyndust ekki úr lausu lofti gripin, því þeir skriðu umsvifalaust úr skúmaskotum sínum til þess að útskýra fyrir þjóðinni að auðvitað snerist þetta allt um kvótakerfið og að nú yrði að ganga af því dauðu ekki seinna en strax, heiður Íslendinga og réttlætið í Namibíu krefðist þess að fiskveiðistjórnarkerfið yrði upprætt og stjórnarskránni breytt í þá veru.

***

Þrátt fyrir að þeir þjóðvinir allir viti nákvæmlega hver sé vandinn og hvað þeir vilja ekki, þá hefur færra verið nefnt um hvernig skuli betur haga því og það sem þó hefur verið nefnt fæst í góðu samræmi innbyrðis, hvað þá skynsamlegt. Raunar svo óskynsamlegt að það mætti eins þjóðnýta allt heila klabbið, búa til stórfenglega ríkisútgerð og finna svar nútímans við Finni Ingólfssyni til þess að stýra henni og vona það besta.

***

Allt er þetta svo vanhugsað og af mikilli fákunnáttu um sjávarútveginn mælt að furðu sætir. Enginn ræðir þar neitt um áhættuna í rekstri sem á svo mikið undir hendingum í veðurfari, gæftum og göngum. Hvað þá eitthvað leiðinlegra eins og eiginfjárbindingu, hvað menn eiga og hvað þeir skulda.

Nei, menn tala bara fjálglega um að einhverjir sægreifar hafi fengið allt gefins, en líta alveg hjá því að nær allar útgerðir í landinu hafa goldið aflaheimildirnar dýru verði, fjárfest í fullkomnasta flota heims, komið sér upp þekkingu og reynslu. Og síðan unnið hörðum höndum við að sækja silfrið úr greipum Ægis, koma því í land, vinna og koma á markað. Allt er það einskis metið af vitringunum, sem vilja kasta á glæ best heppnaða fiskveiðistjórnarkerfi heims.

  ***

 Það er einstaklega óvarlegt, nei heimskulegt. Óðagot og patentlausnir pópúlista gætu haft hrikalegar afleiðingar bæði fyrir atvinnulíf og verðmætasköpun í landinu. Hér ræðir um eitt dýrmætasta fjöregg þjóðarinnar og það eiga menn ekki að eftirláta tröllum að gera sér að leik. Ísland má ekki við því.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.