*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Óðinn
23. maí 2017 10:01

Fjórir blóðugir áratugir

Það er löngu tímabært að almenningur og kjörnir fulltrúar hans átti sig á því að eiturlyfjabannið er mun skaðlegra en efnin sem bönnuð eru.

Haraldur Guðjónsson

„Ekki nóg með að áfengisbannið hafi ekki skilað þeim árangri sem lofað var, heldur hefur það skapað ný alvarleg og truflandi félagsleg vandamál sem gegnsýra samfélagið allt. Drykkja hefur ekki minnkað í lýðveldinu heldur aukist. Glæpum hefur ekki fækkað heldur hefur þeim fjölgað […] Kostnaður hins opinbera hefur ekki minnkað heldur aukist gríðarlega. Virðing fyrir lögunum hefur ekki aukist, heldur minnkað.“

                                                                           ***

Svo skrifaði blaðamaðurinn og samfélagsrýnirinn H.L. Mencken árið 1925 um áfengisbannið sem gilti í Bandaríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar og fram á þann fjórða. Fáir eru tilbúnir að verja þessa samfélagstilraun, en engu að síður eru sömu rök og sömu aðferð­ ir notaðar í hinu svokallaða stríði gegn fíkniefnum og notuð voru í baráttunni við búsið á sínum tíma.

                                                                           ***

Þau Christopher Coyne, hagfræðiprófessor við George Mason há­ skóla, og Abigail Hall, hagfræðiprófessor við Tampa háskóla, skrifa saman mjög áhugaverða ritgerð um þetta alræmda stríð og er hún birt á vefsíðu Cato hugveitunnar.

                                                                           ***

Bannið veldur meiri skaða

Niðurstaða þeirra er í stuttu máli sú að ekki sé nóg með að fíkniefnabannið skili ekki þeim árangri sem að sé stefnt, heldur vinni það beinlínis gegn markmiðum bannsins, bæði heima við og um heim allan. Bannið hafi leitt til þess að fleiri deyi vegna ofneyslu eiturlyfja, stuðli að myndun og styrkingu glæpasamtaka og ýti undir spillingu. Þá vinni bannið beinlínis gegn hagsmunum Bandaríkjanna í baráttunni við hryðjuverkahópa.

                                                                           ***

Yfirlýst markmið þess að banna viðskipti með fíkniefni og neyslu þeirra – samhliða harkalegum löggæsluaðgerðum – eru þau að minnka neyslu fíkniefnanna og sjúkdóma tengda henni, að fækka glæpum og vinna gegn starfsemi glæpahópanna sem hagnast á fíkniefnaviðskiptunum.

                                                                           ***

Þau Coyne og Hall færa fyrir því sannfærandi rök að bannið og stríðið sjálft, sem Richard Nixon hóf snemma á áttunda áratug síð­ ustu aldar, hafi ekki leitt til þess að neitt þessara markmiða sé nálægt því að nást, heldur vinni bannið þvert á móti gegn markmiðunum.

                                                                           ***

Þau byrja á því að fara stuttlega yfir áfengisbannið, því þótt stuðningsmenn stríðsins gegn fíkniefnum vilji síður viðurkenna það þá er margan lærdóminn að finna í reynslu Bandaríkjanna af því banni. Markmið áfengisbannsins var það að stöðva áfengisneyslu alfarið og þar með fækka glæpum, minnka spillingu í stjórnkerfinu og draga úr útgjöldum hins opinbera vegna reksturs fangelsa og fátækrahæla.

                                                                           ***

Bannið féll hins vegar á öllum mögulegum prófum. Vissulega dró úr áfengisneyslu fyrst um sinn, en hún jókst hratt á ný. Innan nokkurra ára var áfengisneysla í Bandaríkjunum um 70% af því sem hún hafði verið fyrir bannið. Hið ólöglega áfengi var hins vegar afar misgott og ótrúlegur fjöldi fólks varð fyrir varanlegum skaða eða lét lífið vegna neyslu á eitruðu áfengi. Þá jókst neysla á lyfjum á borð við ópíum, kókaín og fleiri hættuleg lyf, vegna þess að margir fyrrverandi áfengisneytendur fóru að nota þessi lyf í stað áfengisins. Glæpahópar af ýmsum þjóðernum söfnuðu gríð­ arlegum fjármunum og völdum í krafti áfengissölunnar og spilling varð landlægur vandi í mörgum borgum. Bandaríska mafían á velgengni sína áfengisbanninu að þakka og tók það áratugi að brjóta hana á bak aftur og er þeirri baráttu ekki enn lokið.

                                                                           ***

Fangelsin full

Eftir að Nixon lýsti yfir stríði á hendur fíkniefnum hafa yfirvöld í borgum, ríkjum og alríkið sjálft veitt gríðarlega fjármuni í baráttuna og afleiðingarnar eru skelfilegar. Árið 1980 voru 580.900 einstaklingar handteknir vegna gruns um fíkniefnalagabrot í Bandaríkjunum. Árið 2014 var þessi fjöldi kominn í 1.561.231. Um 186.000 manns sitja í alríkisfangelsum í Bandaríkjunum í dag og þar af er helmingurinn vegna fíkniefnalagabrota.

                                                                           ***

Refsingin fyrir fíkniefnalagabrot nær líka út fyrir veggi fangelsanna. Á hverju ári er 50.000-60.000 há­ skólanemum neitað um opinbera fjárhagsaðstoð vegna fyrri fíkniefnalagabrota og þeir sem fundnir hafa verið sekir um slík brot eiga gjarnan mjög erfitt með að finna vinnu. Þetta hefur bitnað sérstaklega illa á minnihlutahópum, einkum svörtum og fólki af suður-amerísku bergi brotnu, enda eru meiri líkur á því að þetta fólk sé handtekið fyrir fíkniefnalagabrot en hvítir, þótt hlutfall neytenda og seljenda fíkniefna sé svipað hjá hópunum þremur.

                                                                           ***

Fjárhagslegur kostnaður vegna stríðsins er geigvænlegur. Á þeim rúmu fjörtíu árum sem liðin eru frá stríðsyfirlýsingu Nixons hefur bandaríska ríkið varið um 1.000 milljörðum dala (um 100.000 milljörðum króna) í stríðsreksturinn. Í dag nemur kostnaðurinn á ári hverju um 51 milljarði dala. En kostnaðurinn verður ekki bara mældur í dölum og sentum. Um 85.000 manns hafa fallið í bardögum mexíkóska ríkisins við þarlend glæpasamtök og tilraunir Bandaríkjamanna til að stöðva valmúaræktun í Afganistan hafa lítið annað gert en að styrkja stöðu Talíbana þar í landi.

                                                                           ***

En að markmiðunum með banninu og stríðinu. Fylgismenn núverandi stefnu segja að fíkniefnaneysla og -viðskipti leiði til verra heilsufars almennt, dragi úr samfélagslegri velmegun, ýti undir glæpi og spillingu, auki atvinnuleysi og leiði til útbreiðslu smitsjúkdóma. Markmiðið með banninu sé að berjast gegn þessum atriðum. Þau Coyne og Hall segja að með því að beita aðferðafræði hagfræðinnar megi meta það hversu líklegt bannið sé til að ná þessum markmiðum, því hvatar hafi áhrif á hegðun á þessu sviði eins og öðrum.

                                                                           ***

Of stórir skammtar og eitraðir

Eftirspurn eftir efnum er ekki eytt með því einu að gera viðkomandi efni ólögleg. Bannið leiðir hins vegar til þess að markaðurinn með þessi efni fer undir yfirborðið. Eins má líta á bannið sem ákveðinn „skatt“ á seljendur efnanna. Þeir þurfa að taka með í reikninginn líkurnar á því að þeir muni þurfa að greiða sektir, gista fangaklefa og kostnaðinn við að forðast athygli lögreglu. Þessi skattur fælir þá frá markaðnum sem ekki eru tilbúnir að taka þessa áhættu. Að þessu marki virkar bannið. Þeir eru færri en ella sem selja fíkniefnin, framboðið er takmarkaðra en ella og verðið er hærra. En þessar afleiðingar bannsins hafa svo aðrar og óæskilegri afleiðingar sem vinna gegn yfirlýstum markmiðum bannsins.

                                                                           ***

Fyrst ber að nefna það að bannið leiðir til þess að fleiri taka of stóra skammta af fíkniefnum og verða fyrir skaða eða jafnvel deyja af þeim völdum. Bæði er það vegna þess að gæði efnanna eru afar mismikil og alræmd er sú tilhneiging illa innrættra fíkniefnasala að þynna efnin út með hættulegum efnum – jafnvel eitri. Þegar í ljós kemur að lögleg lyf eru hættuleg og valda skaða þá berast þær fréttir hratt og fara víða. Opinberir aðilar grípa inn í og neytendur geta breytt hegðun sinni í samræmi við þessar nýju upplýsingar.

                                                                           ***

Þetta á ekki við um ólögleg fíkniefni. Eðli málsins samkvæmt fara viðskiptin fram í leyni og neytendur þeirra eru ekki líklegir til að kvarta undan lélegum gæðum efnanna. Þeir geta ekki leitað til opinberra aðila hafi þeir verið snuðaðir eða þeir keypt hættulega skammta. Seljendurnir hafa einnig takmarkaða hvata til að hætta sölu á hættulegum efnum. Þeir vita að neytendur miðla síður þessum upplýsingum sín á milli og geta í sumum tilfellum ekki leitað annað eftir efnunum. Allt þetta eykur líkurnar því að léleg og hættuleg efni berist inn á markaðinn og valdi fólki skaða.

                                                                           ***

En það eru fleiri ástæður fyrir því að bannið eykur líkur á því að fólk taki of stóra skammta. Á framboðshliðinni verða til hvatar til að framleiða, flytja og selja sterkari efni. Því sterkara sem efnið er því meiri er hagnaðurinn af hverju seldu grammi. Þetta þýðir að hvatinn er ekki bara til staðar fyrir seljendur til að selja sterkari útgáfur af sama fíkniefninu, heldur einnig að halda að neytendum hættulegri efnum. Grammið af hreinu heróíni kostar á götunni í Bandaríkjunum um 450 dali en grammið af marijúana kostar á bilinu 10-16 dali. Það segir sig sjálft að fyrir seljanda er mun hagkvæmara að fá neytendur til að skipta yfir í fyrrnefnda efnið.

                                                                           ***

Meira fyrir minna

Vegna þess að bannið leiðir til hækkunar á verði fíkniefna vilja fíklar fá meira fyrir peninginn. Markmið­ ið er jú víman. Þeir leita því eftir „besta dílnum“, mestu vímunni fyrir hvern dal. Þeir eru því líklegir til að leita að sterkari tegundum fíkniefna, þ.e. kaupa frekar marijúana sem inniheldur meira af virka efninu THC. Þeir eru líklegir til að skipta yfir í sterkari fíkniefni, þ.e. hætta neyslu marijúana og nota frekar heróín eða kókaín. Þeir eru líka líklegri til að nota neysluaðferðir sem auka áhrifamátt lyfjanna, þ.e. að sprauta sig frekar en að reykja lyfið. Allt þetta eykur líkurnar á því að fólk taki of stóra skammta.

                                                                           ***

Síðastnefndi þátturinn, þ.e. hvatinn til að nota sprautur, leiðir einnig til aukinnar sjúkdómahættu. Í mörgum ríkjum er bannað að selja saman sprautur og sprautunálar án lyfseð­ ils. Það veldur því að fólk er líklegt til að nota ítrekað gamlar nálar og deila þeim. Óþarfi er að fjölyrða um hættuna sem þessu fylgir.

                                                                           ***

Hvað varðar ofbeldið þá er það bein afleiðing bannsins. Í löglegum við­ skiptum geta fyrirtæki leitað til dómstóla til að úrskurða um deilumál. Því er ekki að skipta í heimi fíkniefnanna. Þar er ekki hægt að leita til lögreglu eða yfirvalda og því er oft gripið til vopna þegar deilur koma upp. Þá má ekki gleyma því að bannið sjálft gerir það að verkum að allir sem stunda þessi viðskipti eru sjálfkrafa glæpamenn. Því má ætla að þröskuldurinn til að fremja aðra glæpi sé lægri en ella. Eins má ætla að bannið dragi þá að viðskiptunum sem eru fyrir áhugasamir um líkamlegt ofbeldi. Með því móti fá þeir útrás fyrir þessar fýsnir sínar og græða á því peninga. Á hinni hlið myntarinnar hefur hið opinbera gengið langt í að hervæða bandaríska lögreglumenn með skelfilegum afleiðingum fyrir almenna borgara, einkum þá sem tilheyra minnihlutahópum.

                                                                           ***

Með öðrum orðum er ofbeldið afleiðing af banninu, en ekki afleiðing af viðskiptunum sjálfum.

                                                                           ***

Að lokum má nefna glæpasamtökin sem stjórna markaðnum með hin ólöglegu efni. Eitt af markmið­ um bannsins er að trufla starfsemi þeirra og brjóta þau upp. Raunin er sú að bannið ýtir frekar undir myndun glæpasamtaka og styrkir stöðu þeirra sem fyrir eru. Hafið í huga það sem áður segir um að bannið heldur þeim fyrir utan markaðinn sem ekki eru tilbúnir að taka þá áhættu sem fylgir ólöglegum viðskiptum. Strax er því búið að takmarka fjölda þátttakenda á markaðnum. Þeir sem eftir eru eru þeir sem eru tilbúnir að taka þessa áhættu og eru tilbúnir að beita ofbeldi til að verja hagsmuni sína. Væri verslunin lögleg myndu aðrir og friðsamlegri aðilar koma í stað þeirra ofbeldisfullu.

                                                                           ***

Tími til að hugsa málið upp á nýtt

Undir banni er kostnaðurinn við að viðhalda einokunaraðstöðu lægri en ella vegna þess að ríkið er búið að takmarka fjölda þátttakenda, sem áður segir. Þegar glæpasamtökin eru komin í slíka einokunaraðstöðu geta þau hækkað verð á fíkniefnunum. Með auknum tekjum og hagnaði aukast svo hvatarnir til að beita ofbeldi til að viðhalda þessari stöðu. Þessi mikli gróði og hættan á því að lenda í fangelsi leiðir svo til þess að glæpasamtökin eru tilbúin að verja háum fjárhæðum í mútugreiðslur til lögreglumanna, hermanna, dómara og kjörinna fulltrúa til að verja sig. Þeir sem ekki vilja þiggja mútur þurfa svo að hafa í huga ofbeldishneigð glæpamannanna og hvatana til að við­ halda einokunarstöðunni. Þeir víla ekki fyrir sér að myrða lögreglumenn, dómara og kjörna fulltrúa og þetta hefur áhrif á störf allra slíkra einstaklinga.

Sem betur fer höfum við Íslendingar sloppið við margt það versta við fíkniefnastríðið. Götur Reykjavíkur eru ekki rennandi í blóði eftir bardaga götugengja, en aðrar neikvæðar afleiðingar fíkniefnabannsins eru svo sannarlega til staðar hér.

Það er margt óviðurkvæmilegt við sölu og neyslu fíkniefna en löngu er tímabært að almenningur og kjörnir fulltrúar hans átti sig á því að bannið er mun skaðlegra en efnin sem bönnuð eru.

Stikkorð: Óðinn Cato Institute Eiturlyf
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.