*

föstudagur, 3. júlí 2020
Óðinn
12. mars 2019 18:01

Fláræði bestu vina öreiganna

„Nú virðist verkalýðsbarátta Gunnar fimmblaða-Smára aðallega ganga út á að hann fái rými í þjóðfélagsumræðunni.“

Haraldur Guðjónsson

Ekki er útilokað að verulegur hluti atvinnulífsins muni lamast vegna verkfalla á næstunni með einstaklega fyrirsjáanlegum afleiðingum, bæði fyrir landshag og launafólk. Það er varla hægt að segja að það komi mönnum fyllilega í opna skjöldu; tónninn og samningatækni hinnar nýsósíalísku forystu verkalýðsfélaganna hefur verið mjög á þá leið, að ófriður sé þeim æðra markmið en kjarabætur.

***

Það kemur samt nokkuð á óvart að hin nýsósíalísku verkalýðsfélög Gunnars fimmblaða-Smára Egilssonar ráðist sérstaklega á hótel og gistiheimili. Nýsósíalistarnir eru alla daga að reikna umframhagnað eða umframrentu á kostnað launafólks með þeim sömu Excel-göldrum og best gáfust á velmektardögum kraftaverkamanna Útrásarinnar. En það er enginn hagnaður í þessum rekstri í dag. Ekkert frekar en hjá rútufyrirtækjunum. Þessi fyrirtæki voru í blómlegum rekstri og í blússandi fjárfestingarfasa þar til krónan styrktist verulega og draga tók úr fjölgun ferðamanna. Krónan hefur vissulega veikst aftur, en er langt frá þeim stað þar sem hún var eftir hrun og dró hingað ferðamenn í hrönnum. Áfram þarf samt að borga af fjárfestingunni í sama mæli og fyrr, stundum meir.

***

Launafólk hefur notið styrkingar krónunnar, en hún hefur - ásamt mjög verulegum launahækkunum síðustu ára - stóraukið kaupmáttinn. Það má segja að hagur launafólks í þessu landi innflutnings og utanlandsferða sé sá, að krónan sé sem sterkust, en þó þannig að ferðaþjónustan og útflutningsatvinnuvegirnir lifi þann styrk af. Ef þessir atvinnuvegir lifa ekki af eða verða fyrir miklum skakkaföllum, þá munu það koma langharðast niður á skjólstæðingum verkalýðsfélaga Gunnars fimmblaða-Smára. Þeir hafa mest að missa og hafa síst borð fyrir báru.

***

Nú virðist verkalýðsbarátta Gunnar fimmblaða-Smára aðallega ganga út á að hann fái rými í þjóðfélagsumræðunni. Slík tækifæri hefur hann nýtt til hins ýtrasta og fjölmiðlamenn spila með af því að þeirra gamli kollegi talar í fyrirsögnum. Auk þess hefur hann auðvitað betri kost á að nýta færin en aðrir, því hann á það sem fæstir hafa: nógan tíma. Ástæðan fyrir því er sú að Gunnar má ekki stíga fæti inn í fyrirtæki án þess að það fari á hausinn. Glæsilega en samt ömurlega.

***

Óðinn veltir einnig fyrir sér hvort forystumenn verkalýðsfélaga Gunnars fimmblaðaSmára átti sig á því hverjir eru á lágmarkslaunum á Íslandi og eru á leið í verkfall nú. Langflestar þernur á hótelum eru erlendir ríkisborgarar og af þeim eru flestir farandverkafólk, fólk sem kemur til Íslands að vinna um skamma hríð vegna þess að hér eru mun hærri laun en í heimalandinu. Okkur ber að taka vel á móti þessum liðsauka, auðsýna fólkinu kurteisi, virðingu og umhyggju. Það og verkalýðsleiðtogarnir, sem hæst tala í þeirra nafni, verða hins vegar að hafa það hugfast að fyrirtækin í landinu verða að geta staðið undir laununum. Annars verður engin laun að hafa og ekki fækkar öreigunum við það. En kannski það sé ekki heldur markmiðið.

***

Þar kom vel á vondan
Eitt besta dæmið um þetta er val Bjargs, húsnæðis sjálfseignarstofnunar á vegum Alþýðusambandsins (ASÍ) og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), á einingahúsum frá Lettlandi til þess að reisa 33 íbúðir á Akranesi. Það er í sjálfu sér ekki skrýtið: Launakostnaður er um helmingur af byggingarkostnaði á íbúð. Hár launakostnaður hækkar íbúðaverð. Ekki flókið.

***

Bjarg, félag verkalýðsfélaganna tveggja, brást því við þessum háa launakostnaði á Íslandi með því að færa vinnuna við íbúðasmíðina til Lettlands. Útborguð meðallaun á Íslandi eru 485 þúsund krónur (3.568 evrur) samkvæmt tölum hagstofu Evrópusambandsins. Meðallaun í Lettlandi eru hins vegar 108 þúsund krónur (794 evrur). Því hefur brjóstvörn verkalýðsins flúið hálaunalandið Ísland. Af einhverjum ástæðum virðist hún þó ekki hafa dregið neina lærdóma af, hvað þá kannast við að málflutningurinn verði holari fyrir vikið, svo ekki sé sagt hræsnisfyllri.

***

Samsköttun
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er mögulega ein sú máttlausasta frá lýðveldisstofnun, en ekki sú versta, þökk sé ríkisstjórnum Gunnars Thoroddsen og Jóhönnu Sigurðardóttur. Þær tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum, sem Bjarni Benediktsson kynnti á dögunum, voru um margt ágætlega útfærðar. En í þeim var líka óskiljanleg aðferð til að jafna laun meginkynjanna tveggja, karla og kvenna. Sérfræðingur fjármálaráðuneytisins í kynjaðri hagstjórn hefur því miður ekki haft tíma til að greina öll hin kynin, sem fengið hafa nöfn á undanförnum árum. Hlýtur ráðuneytið að fjölga starfsmönnum í þessari mikilvægu deild til að eyða þeirri óþolandi óvissu, sem af því hlýst.

***

Örvar Guðni Arnarson, fjármálastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, ákvað þó að bíða þess ekki, heldur skrifaði hann grein í Morgunblaðið og gagnrýndi fyrirætlanir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að afnema samsköttun hjóna. Örvar segir þessar tillögur óhagkvæmar og ekki til jafnréttis fallnar: „Þannig þvingar flokkurinn húsbóndann, ef hann er heimavinnandi, til að ganga frá eldavélinni og út á vinnumarkaðinn enda nýtir fjölskyldan ekki samnýtingu skattþrepa ef hann sinnir börnum og búi meðan húsmóðirin vinnur fullan vinnudag á vinnumarkaðnum. Þvingað „jafnrétti" skal það vera."

***

Öll hjón og sambúðaraðilar ákveða sína verkaskiptingu, eins og þau ein geta best metið og enginn annar ætti að skipta sér af, allra síst stjórnvöld. Veikindi, ung börn, langveik börn, fötluð börn, veikir eða aldraðir foreldrar, endurbætur á heimilinu, nám og ótal fleiri viðfangsefni fjölskyldunnar geta kallað á lægra starfshlutfall eins eða fleiri fullorðinna á heimilinu. Nú eða bara það að annað hvort foreldranna kjósi að vinna heima og sinna heimilinu og heimilismönnum af fullu atlæti. Af formönnum allra flokka ætti formaður Sjálfstæðisflokksins - þessa sem leggur alla áherslu á einstaklingsfrelsið og að fjölskyldan sé hornsteinn samfélagsins - að hafa skilning á þessu.

***

Væri hægt að spara 10 milljarða?
Framlag ríkisstjórnarinnar til kjaraviðræðnanna er að minnka skattpíninguna svolítið og munu launalægstir njóta þess hlutfallslega mest. Bjarni Benediktsson segir að þetta „kosti" ríkissjóð 18 milljarða króna, líkt og hann eigi tekjustofnana, afsakið þegnana, afsakið fólkið í landinu og peninga þeirra, nema það sem hann eftirlætur þeim af Guðs náð og ríkisskattstjóra. En jú, vissulega má miklu til kosta til þess að forðast ófrið í landinu og hvað munu óstöðugleiki og verkföll ekki kosta ríkissjóð? Það væri verðugt verkefni fyrir kontóristana í fjármálaráðuneytinu að reikna það út. Ef ferðaþjónustan lamast þá er víst að tekjutap ríkissjóðs nemi milljörðum og þjóðarbúið ekki færri. Það verður fljótt að fara í 18 jarda.

***

En mætti ekki líka gera óvænta tilraun hjá hinu opinbera og spara? Það myndi taka sæmilega talnaglöggan einstakling frá hádegi fram að kaffi að finna 10 milljarða í sóun og óþarfa og þá væri hægt að lækka skatta frekar. Augljósast er Ríkisútvarpið, en þar með mætti líka spara fyrirhuguð fjárframlög til einkarekinna miðla, einhverja ósvífnustu tilraun til þess að gera frjálsa fjölmiðla háða gjafmildi fjárveitingavaldsins. Þar væru fundnir 1,5- 2 milljarðar króna án þess að nokkur áhugamaður um sænska spennumyndaþætti og breskar dýralífsmyndir myndi átta sig á. Utanríkisráðuneytið kostar 5,9 milljarða króna og mjög misárangursrík þróunarsamvinna 5,8 milljarða króna. Milljarður þar.

***

Sveitarfélögin taka stóran hluta tekjuskattsins
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, hefur lagt til að útsvar verði lækkað í Reykjavík en það er í lögbundnu hámarki eða 14,52%, rétt og hjá svo mörgum sveitarfélögum. Eyþór vildi ekki ganga mjög langt og lagði til að útsvarið lækkaði í 14%, bæta mætti reksturinn svo höfuðborgarbúar nytu í einhverju hagkvæmni stærðarinnar. Dagur B. Eggertsson brást öfugur við og sagði að það kæmi ekki til greina. Og gott betur, hann mátti vart mæla af bræði og talaði svo í hálftíma, þar sem hann sagði tillögurnar „innihaldslaust og ábyrgðarlaust bull". Ekki mætti undir nokkrum kringumstæðum hagræða eða minnka tekjur borgarinnar.

***

Það er skiljanlegt. Nægir peningar verða að vera til að reka hið ofvaxna embættismannakerfi í borginni, halda uppi 23 borgarfulltrúum og nokkrum varaborgarfulltrúum líka, finna bitlinga fyrir vinina, gera upp braggana, gróðursetja dúnmel og pálmatré, og sitthvað fleira sem eflaust verða fluttar fréttir af á næstunni.

***

En svo er annað í þessu, fyrst vikið var að hræsni hér að ofan. Samfylkingin gagnrýndi skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar fyrir það að lækkunin skilaði sér ekki nógsamlega til hinna lægst launuðu, þrátt fyrir að vera fullkunnugt um að staðgreiðsla láglaunafólks rennur nær öll til sveitarfélaganna og lítið sem ekkert til ríkisins. Á sama tíma hafnar einn helsti forystumaður hennar, fyrrnefndur borgarstjóri, þessum tillögum Eyþórs um lækkun á útsvari og gjöldum til að liðka fyrir kjaraviðræðum „því það er ekkert svigrúm". Með pálmann í höndunum vill hann auðvitað ekki að það fækki neitt í öreigastéttinni.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.