*

laugardagur, 30. maí 2020
Óðinn
29. janúar 2020 07:11

Flateyri og byggðasjónarmiðin

Það er ekki ríkisvaldsins að ráðskast með það hvort fólk býr á Flateyri við Önundarfjörð eða ekki.

Hér sést neðan úr hlíðinni sem snjóflóðin féllu úr niður á Flateyrina sem stendur við hinn ægifagra Önundafjörð Vestfjarða.
Haraldur Guðjónsson

Snjófljóðið á Flateyri í síðustu viku vakti óhug landsmanna allra og sárar, aldarfjórðungsgamlar minningar rifjuðust upp hjá öllum þeim sem hafa aldur til. Fyrir Guðs mildi varð ekki manntjón nú, en eyðileggingin var mikil og óttinn við það sem hefði getað orðið öllum ofarlega í huga.

                                          ***

Í kjölfar hins mannskæða snjófljóðs árið 1995 var ákveðið að byggja ógurlegan varnargarð, kaupa upp nokkur hús sem voru ekki talin örugg og leggja fé til uppbyggingar í bænum. Heildarkostnaðurinn nam tæpum 1,5 milljörðum króna á núvirði.

                                          ***

Samhugurinn var algjör meðal landsmanna og líklega hefði ekki nokkur ríkisstjórn lifað það af að fara aðra leið á Flateyri en uppbyggingarleiðina. Þar réðu tilfinningar og innileg samúð, en kaldranaleg rökhyggja ekki. Af því við lifum í mannheimum.

                                          ***

Orð Gísla Marteins Baldurssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa, frá árinu 2015 hafa verið rifjuð upp af þessu tilefni, en þar sagði Gísli: „Hefur einhver spurt hvort þetta fólk myndi kannski bara vilja þessar 10 milljónir á mann og flytja í bæinn?" Gísli baðst afsökunar á þessum ummælum þannig að upprifjunin er ekki sanngjörn nema það fylgi sögunni.

                                          ***

En ummæli Gísla Marteins eiga fullkomlega rétt á sér og eru málefnalegt innlegg í umræðuna, þó þau beri ekki vott um mikla mannlega meðlíðan. Það er nefnilega nauðsynlegt að fólk - sérstaklega auðvitað fólk sem hefur gefið sig að stjórnmálum og nauðsynlega það sem hefur verið kjörið til þess að hafa ábyrgð og eftirlit með opinberum fjármunum - velti upp slíkum spurningum, nefni mögulega kosti og hvernig fjármunum almennings er best varið.

                                          ***

Í desember 1994 voru íbúar Flateyrarhrepps 379, en árið 1998 hafði þeim fækkað í 290. Nú búa um 200 manns á Flateyri og því var kostnaður af völdum snjóflóðsins um 7,5 m.kr. á hvern íbúa. Þetta eru hinar köldu, tölfræðilegu staðreyndir málsins, og þær eiga menn ekki að leiða hjá sér, jafnvel þó svo þeir telji að aðrar aðstæður og mannlegri sjónarmið skuli ráða meiru.

Eftir sem áður þarf að horfa til staðreynda málsins og standi vilji til þess að greiða fé úr ríkissjóði, úr hendi alls almennings, verður að gæta þess að allt sé tekið með í reikninginn, að það sé gert rétt, engu sóað og að fjármunirnir komi örugglega þeim til góða, sem sárast eiga um að binda. Og um leið að þeir komi því fólki og samfélaginu vestra vel til framtíðar, bæði í efnalegu tilliti og hinu, sem er erfiðara að mæla.

                                          ***

Sóley Eiríksdóttir skilaði lokaritgerð í sagnfræði sem nefndist „Ískaldur veruleiki" árið 2010. Sóley var ein þeirra sem björguðust í snjóflóðinu árið 1995, en eldri systir hennar fórst í því. Þeir lesendur, sem halda að tárkirtlarnir séu löngu uppþornaðir, komast að raun um að svo er ekki við lestur ritgerðarinnar, sem er í senn átakanleg og áhrifamikil. Niðurstöður ritgerðarinnar eru athyglisverðar.

Á Flateyri var ákveðið að berjast fyrir tilverunni og voru í kjölfar flóðsins, byggðir stærstu snjóflóðavarnargarðar landsins, og var byggðin þar með talin tryggð gegn snjóflóðum. Það breytti samt ekki þeirri þróun, að Íslendingar vildu ekki lengur búa í sjávarþorpum, eins og Flateyri, og starfa við fiskvinnslu. Þeir fluttust í stríðum straumum á mölina og við störfum þeirra tóku útlendingar.

Það er því ljóst, að þrátt fyrir þetta ógurlega snjóflóð, sem olli svo mikilli eyðileggingu og manntjóni, þá var til fólk sem vildi búa á Flateyri, en á meðan störfin voru jafn einhæf, kærðu Íslendingar sig ekki um þau og útlendingar urðu uppistaða samfélagsins.

                                          ***

Þetta á svo sem ekki að hafa farið fram hjá neinum, sem lagt hefur leið sína vestur á undanförnum árum, og á engan veginn aðeins við um Flateyri. Svipaða eða sömu sögu er að segja í plássunum í kring. Þar ber mjög á nýjum Íslendingum, en síðan glæðist bæjarlífið á sumrin, þegar brottflutt fólk og afkomendur þeirra koma að sunnan til dvalar í húsum, sem standa auð þess á milli. Fleira má þó tína til, líkt og lýðháskólann og fleira nýjabrum, margt tengt ferðamennsku, þó fæst sé sú starfsemi virk allt árið.

                                          ***

Á sínum tíma var mikið látið með Vestfjarðagöngin, sem tekin voru í notkun 1996, og það er vart hægt að gera of mikið úr þeirri samgöngubót eða því aukna öryggi, sem þau hafa leitt af sér. Á sinn hátt hafa þau þó grafið undan mannlífinu á Flateyri. Ekki endilega, eins og sumir hafa sagt í hálfkæringi, með því að þau hafi gert fólki auðveldara að flytja á brott; blómleg byggð getur ekki hvílt á átthagafjötrum. Hins vegar hefur fyrir vikið velflest þjónusta á Flateyri lagst af, fólk sækir hana til Ísafjarðar. Þeirri þróun snúa menn ekki svo glatt við og varla óglatt heldur.

                                          ***

Þetta á ekki aðeins við um bankann og bakaríið, heldur ekki síður hið opinbera. Örlagaárið 1995 var sameining sex sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum samþykkt með miklum meirihluta, en þá urðu Ísafjörður, Suðureyri, Mýrahreppur, Mosvallahreppur, Þingeyri og Flateyri að einu sveitarfélagi.

Það var eins og vanalega gert undir heitstrengingum um sterkara sveitarfélag, sem í krafti hagkvæmni stærðarinnar gæti bæði sparað og hagrætt til þess að veita aukna og betri þjónustu, svo öll gætu byggðarlögin dafnað. Eins og annars staðar fór það á annan veg. Fólk utan Ísafjarðar kvartar undan minni og lélegri þjónustu en áður, en ekki þó síst því að það sé fjarlægara stjórnsýslunni en áður og hafi minni lýðræðisleg áhrif en áður. Ímyndar sér einhver að það breytist aftur í bráð? Eða lengd?

                                          ***

Þrátt fyrir að Önfirðingar hafi einhver fengsælustu fiskimið landsins fyrir augunum þegar horft er út fjörðinn, þá er það ekki lengur svo að þangað geti þeir sótt björg í bú svo neinu nemi. Útgerðin í bænum er ekki svipur hjá sjón, en þrátt fyrir ýmsar tilraunir til þess að snúa þeirri þróun við, þá hafa þær strandað á því að það er engan kvóta að hafa. Þar vinnur lögmálið um hagkvæmni stærðarinnar gegn litlu útgerðunum, en við því er varla hægt að amast meðan við viljum að sjávarútvegurinn sé bæði arðbær og sjálfbær.

                                          ***

Það er auðvitað ekki ný umkvörtun og einmitt í því skyni er úthlutað tæplega 14 þúsund tonna byggðakvóta, bæði almennum og sértækum, auk annars eins sem fer í strandveiðar, línuívilnun, skel- og rækjubætur og frístundaveiði, en alls nemur sú úthlutun 5,3% af heildarafla í hverri fisktegund, beinlínis með það að markmiði að auka byggðafestu.

                                          ***

Sértæki byggðakvótinn, sem Byggðastofnun úthlutar, er um fjórðungur þessa, en markmiðið með honum er að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Í því skyni getur Byggðastofnun gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðir til allt að sex ára í senn, svo menn geti tjaldað til fleiri en einnar nætur. Allt þetta á við um Flateyri og því auglýsti Byggðastofnun í haust eftir umsóknum um 400 tonn af þessum gæðum til Flateyrar. Fjórar gildar umsóknir bárust og svo var kvótanum úthlutað í næsta fjörð til Suðureyrar.

                                          ***

Það er ekki eins og viðleitni til þess að viðhalda byggð í landinu með opinberum fjárframlögum, millifærslum og ríkisforsjá sé ný af nálinni. Stjórnmál liðinnar aldar voru undirlögð af slíku kjördæmapoti með tilheyrandi mistökum, óráðsíu og spillingu.

                                          ***

Byggðastofnun var reist á grunni Framkvæmdastofnunar, sem aftur var reist á eldri sjóðum og stofnunum, og átti að vera ríkisstjórninni til aðstoðar við stefnumótun í atvinnu- og efnahagsmálum, annast hagrannsóknir og áætlanagerð og hafa með höndum heildarstjórn fjárfestingamála og lánveitinga í þessu skyni. Svo spurði skáldið eins og fífl, Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?!

                                          ***

Árangurinn af öllu því starfi hefur verið fjarskalega fyrirsjáanlegur, en öllum þessum árum síðar geta menn ekki lengur borið því við að vita ekki betur. Það er fullreynt með að hið opinbera geti skákað mannfólkinu til á þessu hrjóstruga taflborði, ráðgert atvinnuþróun, framfarir og fengsæld. Það skilar aldrei tilætluðum árangri og sóunin er skelfileg.

                                          ***

Í litlu landi á mörkum hins byggilega heims munar miklu um þá fjármuni, sem farið hafa í súginn. Meiru munar þó örugglega um hin mannlegu verðmæti, fólkið sem fann ekki hvatningu til þess að gera það sem hæfileikar þess best stóðu til, heldur sat fast í viðjum vanans, átthagafjötra og misheppnaðs ráðabruggs kóntórista fyrir sunnan um hvar og hvernig kröftum og ævitíma alþýðunnar væri best varið.

                                          ***

Það er nefnilega svo að enginn kann annarra fótum betri forráð en sínum eigin. Öllum skrikar okkur fótur öðru hverju, en fyrir hvern og einn eru afleiðingarnar sjaldnast miklar eða langvinnar. En þegar heilu byggðarlögunum er sagt að ganga í takt eða þau leidd á rangar brautir með gylliboðum og meðgjöf, þá geta afleiðingarnar orðnar verulegar, víðtækar og stundum óafturkræfar.

Ekki af því stjórnmálamennirnir og sérfræðingarnir fyrir sunnan vilji ekki vel, heldur af því að þeir geta ekki vitað betur. Þeir eru ekki alvitrir eða forvitrir frekar en aðrir menn. Eða eins og Tom Jefferson orðaði það svo vel fyrir rúmum tveimur öldum: Stundum er sagt að manninum sé ekki treystandi til þess að ráða sér sjálfur. En er honum þá treystandi til þess að ráða yfir öðrum?

                                          ***

Það er því ekki ríkisvaldsins að ráðskast með það hvort fólk býr á Flateyri við Önundarfjörð eða ekki. Vilji það búa þar og finni þar lífsviðurværi verður það vitaskuld að ráða því sjálft. Hið opinbera á að tryggja að það njóti sömu réttinda og aðrir landsmenn og það verður einnig að kappkosta að því séu ekki bjargirnar bannaðar.

En hið opinbera á ekki að þykjast geta haldið Flateyri í byggð frekar en öðrum byggðarlögum, það hlýtur að velta á fólkinu sjálfu og landsins gæðum. Gangi það vel hjá Jóni og Gunnu, þá búa þau þar áfram og una glöð við sitt, en gangi það síður hjá Gvendi og Jónu, nú þá flytja þau annað þar sem þau geta betur unað við sitt.

                                          ***

Eftir situr samt spurningin um byggðasjónarmiðin og varnargarðana. Auðvitað er æskilegt að blómleg byggð sé sem víðast um landið, en þess er ljóslega ekki alls staðar kostur og hið opinbera á hvorki að skakka né skekkja þann leik. En hugsanlega er tími til kominn að nálgast þessi viðfangsefni með öðrum hætti.

Til dæmis með því að viðurkenna að gagngerar breytingar hafi orðið á þjóðlífi og atvinnuvegum, samgöngum og tækni, efnum og væntingum. Í mörgum þorpum er vænn hluti íbúðarhúsnæðis ekki til búsetu nema hluta ársins. Er ómögulegt að einhver þeirra verði það að mestu eða öllu leyti?

                                          ***

Byggðarlög hafa áður lagst af á Íslandi og ný risið, það er lífsins og landsins gangur. Það er eftirsjá í horfnum byggðum, en við blasir að þeim verður ekki við haldið við hvaða verði sem er. Engir ættu að þekkja það betur en Íslendingar að ekki er hægt að vinna allar glímur við náttúruöflin.

                                          ***

Svo hugsanlega þurfa menn að taka kalda afstöðu til þess, hverju megi bjarga og hverju ekki, að ekki sé alls staðar verjandi að reyna að hlaða varnargarða fyrir milljarða króna með óvissu um öryggi. Því má örugglega víða koma við, en tæplega alls staðar og við þurfum að þora að ræða það. Því þó að tilfinningarnar séu ríkar megum við ekki láta tilfinningasemina öllu ráða. Með því er ekki sagt að hugmynd Gísla Marteins sé sú rétta, en það má og á að ræða hana líka.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.