Lífskjör og laun hér á landi eru með því besta sem þekkist í heiminum. Kaupmáttur launa hefur haldið áfram að vaxa á tímum kreppu og heimsfaraldurs, ólíkt því sem raunin hefur verið í fyrri samdráttarárum. Hlutfall heimila sem eiga erfitt með að ná endum saman hefur aldrei verið lægra en á síðasta ári og aldrei hafa færri talið byrði af húsnæðiskostnaði þunga samkvæmt nýlegri samantekt Hagstofunnar.

Þetta skiptir máli í komandi kjarasamningum. Þar verður tekist á um hvað er til skiptanna. Svarið við því er æði ólíkt milli bæði atvinnugreina og fyrirtækja innan þeirra. Vel gekk á sumum sviðum í hagkerfinu í faraldrinum á meðan ferðaþjónustan var í öndunarvél og safnaði skuldum.

Hlutfall launa af verðmætasköpun í hagkerfinu var orðið yfir sögulegu meðaltali fyrir heimsfaraldurinn, sér í lagi í ferðatengdum greinum. Hlutfall launa og launatengdra gjalda var til að mynda 85% af vergum þáttatekjum í gisti- og veitingarekstri árið 2019 og því mátti lítið út af bregða í rekstrinum fyrir heimsfaraldurinn.

Seðlabankinn hefur nokkrar áhyggjur af launaþróuninni. Laun hljóta að lokum að byggja á þeim verðmætum sem verða til í hagkerfinu. Í ritinu Peningamál sem Seðlabankinn gaf út þann 9. febrúar kom fram að horfur væru á litlum framleiðnivexti næstu árin á sama tíma og laun munu halda áfram að hækka og því muni laun á framleidda einingu halda áfram að hækka.

Að sama skapi eru verðbólguhorfur þær dekkstu um árabil. Stríðið í Úkraínu ofan í áhrif heimsfaraldursins á flutninga og framleiðslukerfi heimsins leiðir af sér verðhækkanir vegna þess að framleiðslan er að verða óhagkvæmari. Úr því verður ekki bætt í kjaraviðræðum á Íslandi.

Við ójafnvægi í heimsbúskapnum bætist að örvunaraðgerðir stjórnvalda og seðlabanka heimsins hafa leitt af sér hæstu verðbólgu beggja vegna Atlantshafsins um árabil. Hér á landi er verðbólga nú 6,7% og sú hæsta frá árinu 2010. Því er fyrirséð að seðlabankar þurfi að fara af bensíngjöfinni á bremsuna og hækka stýrivexti til að ná böndum á verðbólguna.

Veruleg kjarabót hefur orðið hjá mörgum heimilum út af þeim lágu vöxtum sem heimsfaraldurinn færði, þótt vitað væri að það yrði ekki varanlegt. Hve mikið stýrivextir munu hækka mun meðal annars velta á hve mikil þensla verður í hagkerfinu á öðrum sviðum. Þar skiptir miklu hve miklar launahækkanir verður samið um. Fleiri krónur í vasann eru til lítils ef vaxtagreiðslur af húsnæðismálum hækka til muna.

Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og nefndarmaður í peningastefnunefnd, hefur bæði varað við í aðdraganda síðustu kjarasamningalotu sem leiddi af sér lífskjarasamningana árið 2019 og þeirrar sem nú hefst senn að fleira skipti máli en krónur í launaumslaginu.

Of mikil orka færi í þref um krónutölu í kjarasamningum sem skili ekki endilega miklu þegar upp er staðið. Á meðan gerðist allt of lítið í þjóðþrifamálum sem allir séu sammála um að taka þurfi á. Nefndi Gylfi meðal annars langan vinnudag Íslendinga og nauðsynlegar umbætur á húsnæðismarkaði og i menntamálum. Undir þetta má taka með Gylfa.

Ýmis vandamál eru heimatilbúin. Á húsnæðismarkaði hafa velviljaðir stjórnmála- og embættismenn skapað flókið kerfi skipulagsleyfisveitinga og stífar byggingarreglugerðir sem leitt hafa af sér háan byggingarkostnað, ónægt lóðaframboð og að úrvals byggingarland stendur óhreyft um árabil. Niðurstaðan er að ekki er byggt nóg, sér í lagi af hagkvæmu íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefur þéttingarstefnan haft í för með sér að sveitarfélög í námunda við höfuðborgarsvæðið hafa þess í stað vaxið hratt.

Annað framfaramál sem skiptir marga foreldra máli en lítil hreyfing virðist vera á, t.d. í stærsta sveitarfélaginu Reykjavík, er bilið frá lokum fæðingarorlofs og þar til börn komast inn á leikskóla. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar mun börnum á leikskólaaldri fjölga um fjórðung fram til ársins 2027 sem hlýtur að ýta enn frekar undir þörfina á úrbótum.

Stytting vinnuvikunnar sem samið var um í lífskjarasamningunum var tilraun til að taka á löngum vinnudegi Íslendinga. Æði misjafnt er hve vel styttingin hefur tekist og eflaust þarf að endurskoða aðferðafræðina víða í komandi kjaraviðræðum. Flækjustigið er mest í vaktavinnu og ýmsum þjónustu- og umönnunarstörfum þar sem vart er hægt að stytta vinnudaginn til að vinna hraðar.

Að lokum munu aðilar vinnumarkaðarins þurfa að horfa til þess hvernig þeir geti aukið lífsgæði vinnandi fólks í komandi kjarasamningum og þar skiptir margt annað máli en krónutalan á launaseðlinum.