Í nýlegri könnun meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins voru stjórnendur spurðir um þá þætti sem hafa mest áhrif til hækkunar á verði á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra. Hækkun launakostnaðar vó þar langþyngst en 76% stjórnenda mátu launakostnað sem stærstu orsök verðbólgu.

Fari verðbólga af stað er hætta á að lítið verði eftir af launahækkunum komandi kjarasamninga og í ljósi sviptivinda í ferðaþjónustu og loðnubrests er ekki loku fyrir það skotið að atvinnuleysi taki við sér. Í stað þess að pressa frekar á atvinnurekendur sem nú þegar eru margir í erfiðri stöðu – væri ekki ráð að einbeita sér að öðrum leiðum sem bæta kjör allra landsmanna?

Til dæmis með því að:

  1. Auka íbúðarframboð, einkum á leigumarkaði, sem myndi nýtast hvað mest þeim tekjulægstu.
  2. Lækka tugprósenta hækkanir fasteignagjalda síðustu ára, sem myndi bæta bæði kjör heimila og fyrirtækja og skapa grundvöll fyrir lægri húsaleigu.
  3. Lækka tryggingagjald sem einnig myndi auðvelda fyrirtækjum að mæta launahækkunum einkum hjá þeim minni og mannaflsfrekari.
  4. Auka sveigjanleika vinnutíma og ná þannig fram stórum hluta þess ávinnings sem stytting vinnuvikunnar myndi hafa í för með sér.
  5. Tryggja stöðugt rekstrarumhverfi til að skapa grundvöll fyrir starfsöryggi og fjárfestingum í atvinnurekstri. Of íþyngjandi regluverk og löggjöf getur unnið gegn því.
  6. Skapa aðstæður til lækkunar vaxta sem gæti bætt stöðu heimila og fyrirtækja. Forsendur til vaxtalækkana eru til staðar, hlaupi verðbólgan ekki af stað vegna t.d. of mikilla launhækkana .
  7. Loks er hægt að auka stuðning við efnaminni barnafjölskyldur, bæði með hækkun barnabóta og greiðslna úr fæðingarorlofssjóði.

Þessi upptalning er ekki tæmandi en áminning um að það eru fleiri leiðir sem liggja til Rómar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.