Flest sem við höfum gert í gegnum heimsfaraldurinn hefur miðað að forvörnum. Handþvottur, spritt og hvatning um að stunda útivist og hreyfingu voru allt forvarnir sem við stunduðum til að forðast smit og styrkja ónæmiskerfið. Þannig tókst okkur að fletja kúrfuna og vernda spítalann, sem þegar var á þolmörkum fyrir faraldurinn.

Í aðdraganda kosninganna hefur svo eilífa umræðan um rekstur Landspítalans farið af stað og „ the usual suspects “ tekið upp handritin sín. Þau sem kalla hann botnlausa hít og þetta snúist um reksturinn og svo hin sem segja hann algjörlega fjársoltinn. Færri eru hins vegar að spyrja sig að því hvað hrjáir allt þetta fólk sem er setja spítalann okkar að þolmörkum og hvort það séu ekki til aðgerðir sambærilegar þeim sem við nýttum gegn veirunni til að forða fólki frá því að leggjast þar inn.

Það er nefnilega hægt, því að margt af því fólki sem þarf á aðstoð Landspítalans að halda glímir við lífsstílstengda sjúkdóma vegna eigin lifnaðarhátta. Landspítalinn er ekki fyrsta skref heilbrigðiskerfisins því raunverulega byrjar það í nærumhverfinu hjá okkur sjálfum. Takist ekki að viðhalda heilsunni þar er spítalinn öryggisnetið sem grípur okkur.

Einn helsti fylgikvilli ofþyngdar er t.d. hjarta- og æðasjúkdómar og yfir 60% tilvika ristilkrabbameins má rekja til lífsstíls t.a.m. skorts á trefjum hjá körlum. Forvarnir í þetta skiptið snúast því fyrst og fremst um að borða meira úr jurtaríkinu, því vandamálið er ekki að við séum að borða of mikið af hinu óholla heldur að við borðum allt of lítið af þessu holla. Sérfræðingar, bæði sjálfskipaðir og ekki, hafa skoðun á því hvernig reka megi spítalann betur, en augljóslega væri allra best að fletja út vaxandi kúrfu lífsstílssjúkdóma og fækka þeim sem einfaldlega þyrftu á Landspítalanum að halda.

Pistlahöfundur er Steinar Þór Ólafsson, samskiptasérfræðingur.