*

föstudagur, 16. apríl 2021
Huginn og muninn
6. mars 2021 09:33

Fletta upp malbiki og fækka bílastæðum

Borgaryfirvöld stefna nú að því að fækka bílastæðum í borgarlandinu um nokkur þúsund á næstu árum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Haraldur Guðjónsson

Borgaryfirvöld, með Dag B. Eggertsson borgarstjóra í broddi fylkingar, hafa samþykkt aðgerðaráætlun í loftslagsmálum frá 2021 til 2025. Í þessari áætlun er ýmislegt gott enda jákvætt að stefna að kolefnishlutleysi. Hrafnarnir staldra þó við nokkur atriði. Borgaryfirvöld notast t.d. við aðra skilgreiningu á orkuskiptum en ríkisstjórnin.

Í aðgerðaráætlun stjórnvalda er skilgreiningin svona: „Þegar jarðefnaeldsneyti er skipt út fyrir endurnýjanlega orkugjafa. Orkuskipti geta meðal annars átt sér stað í samgöngum, við húshitun eða rafmagnsframleiðslu.“ Hjá borgaryfirvöldum eru orkuskipti túlkuð þannig að í þeim geti líka falist notkun á „eigin orku til að komast á milli staða, ganga eða hjóla“. Þetta er ansi merkileg skilgreining hjá borgaryfirvöldum og ekki hægt að segja annað en hún beri svolítinn keim af veröldinni, sem þeir sem búa í kílómetra radíus frá ráðhúsinu lifa í.

Frá og með yfirstandandi ári munu borgaryfirvöld ekki kaupa bíla eða tæki sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Þetta er skiljanlegt því ef horft er til einfalds kolefnisspors þá má rekja stóra hluta losunar til samgangna. Borgaryfirvöld eru ekki þau einu sem átta sig á þessu því það gera borgarbúar líka enda stóreykst sala vistvænna ökutækja ár frá ári.

Þetta virðist samt ekki vera nóg því samkvæmt áætluninni á að fækka bílastæðum í borgarlandinu um 2% á ári, sem þýðir að bílastæðum mun fækka um nokkur þúsund á næstu árum. Ekki nóg með það heldur á að „fletta upp malbiki og draga úr umfangi akvega“ eins og það er orðað. Það má alveg minna borgaryfirvöld á það, að þótt þau séu að leggja í gríðarleg fjárútlát í tengslum við borgarlínu og upphitaða hjólastíga, þá kjósa langflestir að ferðast með einkabíl hér á norðurhjara veraldar. Að fækka bílastæðum dregur ekki úr mengunarlosun þegar allir verða komnir á rafbíla. Á þá að fjölga bílastæðum aftur og brekka vegi?

Hröfnunum hugnast illa þegar valdhafar vilja hafa vit fyrir þegnum sínum með þvingunaraðgerðum. Það er til ágætt íslenskt orð yfir þetta fyrirbæri en það er „forræðishyggja". Svona þess utan þá má færa sterk rök fyrir því að viðkvæmustu hópar samfélagsins séu þeir sem þurfi helst á einkabílnum að halda, t.d. fatlað fólk og aldraðir.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.