*

sunnudagur, 19. september 2021
Örn Arnarson
28. september 2020 07:46

Fljúgandi þorskhaus

Reglan um að fjölmiðlar sniðgangi þá sem fari með staðlausa stafi virðist ekki eiga við um Michelle Ballarin og útsendara hennar.

Edwin Roald Rögnvaldsson

Fólk gerir kröfu til fjölmiðla um að þeir kanni trúverðugleika viðmælenda sinna. Að því sögðu má gera ráð fyrir að fjölmiðlar sniðgangi á endanum þá sem ítrekað eru staðnir að því að fara með staðlausa stafi í fréttum. Af einhverjum ástæðum virðist þetta ekki eiga við bandarísku kaupsýslukonuna Michelle Ballarin og útsendara hennar hér á landi.

                                                                 ***

Sem kunnugt er þá hefur Ballarin verið fyrirferðarmikil í fjölmiðlum undanfarin ár. Fregnir hafa verið sagðar af stórhuga og illskiljanlegum áformum hennar um endurreisn flugfélagsins WOW air auk yfirlýsinga um aðrar fjárfestingar hér á landi.

Í september í fyrra boðaði Ballarin íslenska blaðamenn til fundar. Þar kom meðal annars fram að búið væri að tryggja tíu milljarða til reksturs hins nýja flugfélags hvers flugvélar myndu taka á loft undir merkjum WOW mánuði síðar. Ekki hefur það staðist. Á sama tíma lýsti Ballerin því yfir að hún hygðist fjárfesta í súkkulaðiframleiðandanum Omnom og snyrtivöruframleiðandanum Sóley Organics. Það hefur ekki heldur staðist.

Stuttu eftir blaðamannafundinn bárust svo fréttir af því að hið meinta flugfélag Ballarin hefði áform um stórfellda fragtflutninga á hertum þorskhausum til Bandaríkjanna. Var haft eftir Gunnari Steini Pálssyni, almannatengli sem starfar fyrir Ballarin, í fjölmiðlum að þorskhausarnir væru „í raun og veru fundið fé" fyrir flugfélagið.

Þessir fljúgandi þorskhausar hefðu átt að kveikja á einhverjum viðvörunarljósum á ritstjórnarskrifstofum. Flug er notað til þess að koma vörum á markað sem hafa takmarkað geymsluþol. Þar sem það er dýrara að flytja fragt með flugi en á sjó kjósa þeir sem eru í útflutningi að flytja verðmætustu vörurnar á lofti en aðrar á láði eða legi. Þannig flytja menn ferskan fisk gjarnan með flugi á meðan þorskhausar eru fluttir með skipum. Þegar blaðamenn gengu á talsmenn hins meinta flugfélags og spurðu út í þetta svaraði áðurnefndur Gunnar Steinn að þetta hefði bara verið sprell hjá þeim í fjölmiðlum.

                                                                 ***

Ballarin var svo með enn eitt bjölluatið í aðdraganda hlutafjárútboðs Icelandair í síðustu viku. Fréttir bárust að því að hún væri komin til landsins „í tilefni af hlutafjárútboði Icelandair" eins og það var orðað í frétt Vísis um málið. Rétt er að taka fram að útboðið var rafrænt og ekkert í sjálfu sér sem kallaði á viðveru væntanlegra fjárfesta á stórhöfuðborgarsvæðinu meðan útboðið stóð yfir - hvað þá að væntanlegir fjárfestar hafi þurft að brjóta sóttvarnareglur eins og Ballarin virðist hafa gert.

Rétt fyrir lokun útboðsins spurðist út að Ballarin hefði skráð sig fyrir sjö milljörðum í útboðinu og hefði það gengið eftir hefði hlutur hennar í Icelandair numið 25%. Um kvöldið birti svo Vísir viðtal við áðurnefndan Gunnar Stein þar sem hann efnislega staðfesti hvorki að Ballarin hefði skráð sig fyrir sjö milljörðum né að hún hefði yfirhöfuð tekið þátt í útboðinu. Það eina sem Gunnar Steinn staðfesti var að Ballarin hefði komið til landsins. Haft var eftir Gunnari í viðtalinu:

„Núna þegar Icelandair er líka í vandræðum og hún hefur fjárhagslegar aðstæður til að taka þátt í að leysa slíkan vanda þá er eðlilegt að hún hugsi með sér hvort hún geti með einhverjum hætti slegið þessu saman."

Með öðrum orðum er þarna sagt að Ballarin hafi fjármagnslegt bolmagn til að leysa fjárhagsvanda og þar sem hún eigi vörumerkið WOW væri íhugunarvert að sameina Icelandair við vörumerki flugfélags sem varð gjaldþrota fyrir einu og hálfu ári síðan. Þetta vekur upp fjölmargar áleitnar spurningar og vekur furðu að engar þeirra hafi lostið í koll þeirra fréttamanna sem fjölluðu um þetta skrýtna mál.

                                                                 ***

Eftir að hlutafjárútboðinu lauk kom í ljós að sjö milljarða tilboði í hlutabréf Icelandair hafði verið hafnað. Fyrir því getur ekki verið nein önnur ástæða en sú að sá sem lagði fram tilboðið hafi ekki getað sýnt fram á fjárhagslegan styrk til þess að standa við það.

Gegnum tíðina hafa alls konar lukkuriddarar og loftkastalasmiðir átt greiða leið í fjölmiðla til að lýsa stórfelldum uppbyggingaráformum á ýmsum sviðum. Áformum sem auðvitað er aldrei hrint í framkvæmd. Vissulega hefur slíkur fréttaflutningur oft á tíðum ótvírætt skemmtanagildi.

Þannig hefur fjölmiðlarýnir alltaf haft gaman af hugmyndum um útflutning á heitu vatni til meginlands Evrópu með gríðarstórum tankskipum en að minnsta kosti tvisvar hefur verið sagt frá slíkum áformum í íslenskum fjölmiðlum - annars vegar um miðbik áttunda áratugar síðustu aldar og hins vegar á fyrsta áratug þessarar.

En sé litið fram hjá skemmtanagildinu má velta upp fyrir sér hvort slíkar frásagnir eigi eitthvert erindi í fjölmiðla þegar öllu er á botninn hvolft. Ekki síst þegar viðkomandi hefur í margsinnis stigið fram með Potemkin-tjöld í bakgrunni. Vonandi gengur Michelle Ballarin og félögum vel að endurreisa flugfélagið WOW en varla verður tímabært að segja frá þeim áformum í fjölmiðlum fyrr en þau geti sýnt fram á að þau hafi eitthvað fast í hendi í þeim efnum.

                                                                 ***

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, veitti í síðustu viku Arnhildi Hálfdánardóttur, dagskrárgerðarmanni á Ríkisútvarpinu, fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Eins og fram kemur á vef ráðuneytisins verðlaunaði dómnefnd skipuðu fagfólki úr fjölmiðlum Arnhildi fyrir útvarpsþættina Loftlagsþerapían. Fjölmiðlafagfólkið í dómnefndinni voru þau Margrét Marteinsdóttir, starfsmaður Gljúfrasteins, Kristján Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, og Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Nú er Arnhildur vafalaust vel að þessum verðlaunum komin. En það verður að teljast undarlegt að ráðherra í ríkisstjórn verðlauni fjölmiðlafólk sérstaklega fyrir umfjöllun sem er honum þóknanleg um málaflokk sinn. Og enn undarlegra er að fjölmiðlafólk þiggi yfirhöfuð slík verðlaun úr hendi ráðherra. Þetta hefur ef til vill þótt góð latína austantjalds á tímum kalda stríðsins en svona verðlaun eiga ekki að sjást í lýðræðisríki.

Vilji menn veita slík verðlaun ætti alltaf að veita þau fjölmiðlamanninum sem fjallaði um flugviskubit starfsmanna Umhverfisstofnunar sem fljúga annan hvern dag að meðaltali yfir hafið vegna bráðnauðsynlegra funda um loftslagsmál.

                                                                 ***

Á mánudaginn var fjallað um  ásakanir  á hendur erlendra banka um að þeir hafi komið að peningaþvætti í síðdegisútvarpi Rásar 2. Dagskrárgerðarmenn ræddu um málið við Guðrúnu  Johnsen  hagfræðing. Ánægjulegt var að Guðrún var kynnt til sögunnar sem efnahagsráðgjafi  VR. Eins og bent var á þessum vettvangi fyrir nokkrum vikum týndi fréttastofa  Ríkisútvarpsins þeim titli Guðrúnar um tíma þegar hún var að fjalla skiptar skoðanir milli SA og ASÍ hvort að rétt væri að hækka atvinnuleysisbætur í núverandi efnahagsástandi.

                                                                 ***

Eftir að Reykjavíkurborg birti afkomu fyrri helming ársins spratt upp umræða um alvarlega  fjárhagsstöðu  borgarinnar og áleitnar spurningar um hvort reksturinn væri yfirhöfuð gjaldfær. Í minnisblaði sem fylgir umsögn borgarinnar um lagafrumvörp  ríkisstjórnarinnar  til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru er þessum spurningum svarað með skilmerkilegum hætti. Þar segir:

„Taflan hér að ofan sýnir að rekstur borgarinnar er með neikvætt veltufé frá rekstri 2020- 2022 og stendur alls ekki undir afborgunum af langtímalánum árin 2020-2023. Hér að ofan er gert ráð fyrir því að tekin verði langtíma jafngreiðslulán til að leysa vandann. Það þýðir að afborganaþungi lánanna er að óverulega leyti kominn fram á árunum 2020-2024 og veltufé frá rekstri þarf að vaxa mjög mikið á næstu árum á eftir til að sveitarfélagið eigi möguleika á að standa undir þeim byrðum. Það gerist ekki nema með verulegri aukningu tekna eða stórfelldum niðurskurði. Þetta eru meginrökin fyrir því að ríkissjóður komi með beinum hætti að fjármögnuninni  með sérstökum óendurkræfum framlögum til að mæta þessum vanda."

Það er furðulegt að þessi afdráttarlausa lýsing á grafalvarlegri stöðu fjármála Reykjavíkurborgar skuli ekki hafa vakið athygli fjölmiðla og þeir spurt borgarfulltrúa út í málið.

Síðastliðinn þriðjudag varð millistjórnanda á fimmtugsaldri úr Garðabæ bylt við er bifreið ók framhjá honum við göngubraut á um 80 kílómetra hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 50 kílómetrar. Eftir að millistjórnandinn snéri heim úr göngutúrnum örlagaríka deildi hann þessari reynslu á Facebook-síðu sinni. Þöggun fjölmiðla um þetta mál er algjör og vekur hún upp áleitnar spurningar um hagsmuni hverja er verið að verja.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.