*

laugardagur, 19. september 2020
Óðinn
8. maí 2018 10:19

Fljúgðu hærra, en samt ekki of hátt

Icelandair og Wow air horfa framan í ógn sem getur hamlað vexti þeirra og starfsemi á næstu árum: íslenska ríkið.

Haraldur Guðjónsson

Það var fátt sem kom Óðni á óvart í fyrsta ársfjórðungsuppgjöri Icelandair Group sem birt var á á mánudag. Félagið er iðulega rekið með tapi á fyrsta ársfjórðungi hvers árs, en það sem skiptir meira máli er að EBITDA spá félagsins fyrir árið í ár stendur óbreytt, staða eigin fjár er góð og reksturinn er í takt við áætlanir. Eftir nokkra ókyrrð á síðasta ári virðist félagið standa á sterkum grunni. Þeir sem þekkja til mála sjá nú að óróleikinn á síðasta ári stafaði meira af samskiptaleysi og almannatengslaklúðri heldur en raunverulegum vandamálum í rekstri félagsins. Síðan þá hafa verið gerðar töluverðar breytingar á helstu stjórnendum samstæðunnar, skipt var um stjórnarformann á síðasta ári sem tekið hefur til hendinni og fyrr í vor urðu frekari breytingar á stjórn félagsins sem Óðinn telur að séu af hinu góða.

                            ***

Hagnaður félagsins á síðasta ári var þó sá lægsti í fimm ár eftir að hafa náð sögulegu hámarki árin 2015 og 2016. Óðinn hefur áður farið í gegnum ársreikninga Icelandair Group og ætlar því ekki að kryfja þá til mergjar í þetta sinn. Hins vegar er ljóst að með harðnandi samkeppni í flugi yfir Atlantshafið, örum tæknibreytingum og breyttri hegðun nýrra kynslóða er hættan á stöðnun helsta ógn félagsins. Þá eru ótaldir óviðráðanlegir ytri þættir sem hafa gífurleg áhrif á rekstur flugfélaga, s.s. eldgos eða aðrar náttúruhamfarir, hryðjuverk, sveiflur í eldsneytisverði og fleira. Það skiptir engu hversu öflugir ráðgjafar koma að félaginu eða hversu margar skýrslur eru skrifaðar um strúktúrbreytingar og framtíðarþróun; stjórn félagsins og helstu stjórnendur þurfa að vera á tánum ef félagið á að halda áfram að vaxa.

                            ***

Skúli sýnir ekki spilin

Það væri fyrir margar sakir áhugavert að bera saman rekstur Icelandair og Wow air, nema hvað að það er engum slíkum gögnum til að flagga. Wow air hefur ekki enn birt tölur um rekstur síðasta árs og öll upplýsingagjöf um rekstur félagsins er almennt gloppótt. Wow air sendir einungis frá sér tölur, hvort sem um er að ræða flutningatölur eða tölur um rekstur, þegar félaginu hentar og þá í þeim tilvikum þar sem þær eru jákvæðar. Það er ekki til þess fallið að auka trúverðugleika félagsins og þess þá heldur forstjórans og eigandans, Skúla Mogensen.

                            ***

Skúla og hans teymi hefur þó tekist að fanga athygli til tekinna  fjölmiðlamanna og þeirra aðila á markaði sem ekki þekkja vel til reksturs flugfélaga. Það er enginn sem spyr óþægilegra spurninga um reksturinn. Ein þeirra snýr að uppbyggingu og fjármögnum flugflotans. Wow air er nú með 19 Airbus vélar í rekstri og áætlað er að fimm til viðbótar bætist við flotann í lok þessa árs. Lítið hefur verið gefið upp um fjármögnun vélanna en það má öllum vera ljóst að það kostar töluvert fjármagn að byggja upp slíkan flota á aðeins sjö árum. Í tímaritinu Flugið var síðasta sumar greint frá því að Airbus hefði gefið Wow air töluverðan frest á greiðslum af nýjum vélum. Ef rétt reynist þá kemur að skuldadögum einn daginn. Það er mjög auðvelt fyrir forsvarsmenn Wow air að upplýsa með hvaða hætti vélarnar eru fjármagnaðar. Aðrar óþægilegar spurningar snúa að því hvort lausafjárstaða félagsins sé viðunandi, hvort félagið njóti enn þeirra kjara sem það naut hjá þjónustuaðilum á þeim áfangastöðum sem félagið flýgur til, hvort búið sé að byggja upp þá viðhaldsþjónustu í takt við stækkandi flugflota og hvernig félagið hyggist nýta þennan stóra flota sinn yfir vetrarmánuðina.

                            ***

Það er líka margt sem gengur ekki upp í málflutningi Skúla Mogensen. Það er ekki langt síðan að Skúli sagði opinberlega að viðskiptamódel Icelandair væri dautt. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hefur Wow air nær alfarið tekið upp sama viðskiptamódel; flug yfir Atlantshafið með Keflavík sem höfn (e. hub). Það er síðan allur gangur á því hvort ferðin sé ódýrari eða ekki, en viðskiptamódelið er að mörgu leyti það sama. Skúli sagði nýlega að til greina kæmi að búa til aðra flughöfn fyrir utan Ísland yfir vetrarmánuðina til að nýta flotann betur. Gott og vel, það er spennandi ef rétt reynist. En er byrjað að undirbúa það risavaxna verkefni og ef svo er, hvernig gengur það?

                            ***

Það er hægt að tala mikið og lengi með digurbarkalegum hætti, líkt og Skúli gerir. En það hefur Bjørn Kjos, stofnandi og forstjóri Norwegian air, einnig gert síðustu ár. Fjárhagsvandræði Norwegian hafa þó verið verst geymda leyndarmál evrópska flugheimsins síðustu ár og nú lítur allt út fyrir að félagið verði tekið yfir af evrópskum félögum. Frá því í júní í fyrra hefur Skúli með reglubundnum hætti talað um það í fjölmiðlum að hann hafi áhuga á því að fá utanaðkomandi aðila inn í hluthafahóp félagsins. Af hverju hefur það ekki gengið eftir?

                            ***

Það er rétt að taka fram að Óðinn telur vöxt Wow air síðustu ára stórfenglegan. Ytri aðstæður hafa verið félaginu gífurlega hagsælar og Skúli Mogensen veðjaði á rétta tímasetningu þegar hann hóf rekstur með tvær vélar í flotanum. En næst þegar eigandi félagsins ætlar að láta ljós sitt skína í fjölmiðlum ættu fjölmiðlamenn að biðja um handhægar upplýsingar um rekstur félagsins.

                            ***

Ríkið er stærsta ógnin

Flugfélögin tvö, Icelandair og Wow air, horfa þó bæði framan í ógn sem hamlað getur vexti þeirra og starfsemi næstu ára. Sú ógn er íslenska ríkið og skiptist í raun í þrjá þætti: skatta, samkeppnisyfirvöld og sofandahátt. Óðinn skal skýra þetta frekar.

                            ***

Fyrst má nefna áætlun ríkisins um skattahækkanir í ferðaþjónustunni og þá sérstaklega hugmyndir um svokallaðan komuskatt. Ef af verður mun hann leggjast á flugfarþega og auðvitað verða til þess að hækka flugfargjöld. Þetta hefur verið reynt með slæmum árangri, t.d. í Hollandi, en íslenskir embættis- og stjórnmálamenn geta ekki hugsað sér annað en að þetta hljóti að virka vel hér á landi og gera ríkissjóð enn gildnari en hann er nú þegar. Komuskattur mun skerða samkeppnishæfni íslensku flugfélaganna til muna og færa þau skrefi aftar í baráttunni um flug yfir Atlantshafið.

Og þannig kemur Óðinn að næsta hluta, samkeppnismálum. Rétt eins og samkeppnisyfirvöld hér á landi viðurkenna ekki Netflix sem samkeppnisaðila íslensku ljósvakamiðlanna, viðurkenna þau ekki stöðu íslensku flugfélaganna í samkeppni um flug á milli Evrópu og N-Ameríku. Íslensk samkeppnisyfirvöld horfa aðeins til starfseminnar til og frá Keflavíkurflugvelli hvað þetta varðar, sem á endanum verður til þess að ákvarðanir þeirra munu alltaf byggjast á röngum forsendum og verða félögunum hamlandi. Keflavíkurflugvöllur leiðir okkur síðan að þriðja þættinum, sofandahætti. Flugvöllurinn er rekinn af ríkisfyrirtækinu Isavia. Uppbygging flugvallarins minnir Óðinn dálítið á íbúðaruppbyggingu í Reykjavík, það er til mikið af glærum, flottum kynningum og fögrum fyrirheitum en í raunveruleikanum gengur allt á afturfótunum. Ævintýralegur vöxtur íslensku flugfélaganna hefur átt sér stað þrátt fyrir sofandahátt Isavia og starfsemi félaganna, til viðbótar við þau erlendu flugfélög sem hingað fljúga, er langt umfram afkastagetu Keflavíkurflugvallar. Eins og staðan er núna er svigrúmið til að auka starfsemina á Keflavíkurflugvelli afar takmarkað. Helstu stjórnendur Isavia hafa haft nokkur ár til að átta sig á þeim vexti sem orðið hefur í flugheiminum í Evrópu, en hafa þess í stað varið tíma sínum í baráttu við Kaffitár og nú rútufyrirtæki og bílastæðaþjónustu.

                            ***

Skilaboð Óðins til þeirra stjórnmálamanna sem vilja sjá starfsemi íslensku flugfélaganna vaxa enn frekar eru einföld; færið ykkur frá – og takið embættismennina með ykkur. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.