*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Leiðari
18. júlí 2021 16:15

Flókið úrlausnarefni

Innleiðing styttingar vinnuvikunnar verður flókin, bæði á stórum skala og smáum.

Árið 1930 spáði hinn frægi hagfræðingur John Maynard  Keynes því að þegar barnabörnin sín kæmu inn á vinnumarkaðinn gæti vinnuvikan verið orðin um 15 tímar þökk sé tækniframförum. Sú spá hefur hins vegar ekki elst vel, eins og flestir hafa líklega orðið varir við.

Um það leyti sem Keynes setti fram spá sína voru mörg Vesturlönd að vinna að nýrri vinnulöggjöf, sem festi hina 40 stunda vinnuviku í sessi; mikil kjarabót fyrir marga á þeim tíma. Á þeirri hátt í öld sem liðin er síðan hefur hefðbundinn vinnutími lítið breyst, þrátt fyrir að segja megi að þær tækniframfarir sem Keynes gerði ráð fyrir hafi vissulega raungerst.

Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um þetta, sú algengasta líklega að aukin framleiðni tækniframfaranna hafi einfaldlega verið tekin út í formi hærri launa og meiri neyslu frekar en meiri frítíma. Einn af höfundum nýlegrar skýrslu um tilraunaverkefni í styttingu vinnuvikunnar telur að málið hafi fyrst og fremst snúist um viðhorf og menningu, sem sé nú loks farið að breytast.

Það er þó stærri spurning hvort vinnuframlag meðalstarfsmanns hefur haldist óbreytt með vinnutímanum. Í kvikmyndinni goðsagnakenndu Office Space frá 1999 segir aðalsöguhetjan, Peter Gibbons, í viðtali við ráðgjafa, sem fengnir hafa verið til að hagræða í starfsemi fyrirtækisins sem hann vinnur hjá, að á gefinni viku skili hann líklega aðeins um 15 mínútum af raunverulegu vinnuframlagi. Restin fari í að læðast seinn inn á morgnana, stara á skrifborðið þannig að hann líti út fyrir að vera að vinna, fylla út tilgangslausar skýrslur og ræða sama hlutinn við átta mismunandi beina yfirmenn sína.

Þótt handritshöfundar Office Space hafi líklega ýkt aðstæður í skrifstofuvinnu þó nokkuð tengja líklega flestir sem unnið hafa á skrifstofu við lýsingar Gibbons. Því þarf ekki að koma mikið á óvart að 10% stytting vinnuvikunnar í 36 tíma hafi gengið vel hjá skrifstofufólki og almennt ekki bitnað á afköstum.

Málið vandast hins vegar aðeins þegar sjónum er beint að vaktavinnustörfum, sér í lagi þeim sem  felast  að miklu eða öllu leyti í viðveru. Formaður Eflingar segir í umfjöllun um styttingu vinnuvikunnar í blaðinu að í heilbrigðis- og umönnunarstörfum sem félagsmenn hennar sinna hafi styttingin – sem nú er orðin kjarasamningsbundin upp að einhverju marki hjá sex af hverjum sjö launþegum hér á landi – að miklu leyti verið tekin út með því einfaldlega að fækka starfsmönnum á vakt og auka þar með álag á þá sem eftir eru. Hún segir útséð að einhver kostnaðarauki muni þurfa að fylgja styttingunni, eigi að halda launum óbreyttum.

Jafnvel í slíkum störfum hefur þó oft tekist að vinna svigrúm til hagræðingar, til að mynda með því að taka styttinguna út á þeim tímum sem álagið er minnst, eða starfsmenn eru flestir á staðnum. Vafalítið mætti svo einnig í mörgum tilfellum hagræða þjónustustörfum með því að draga lítillega úr þjónustuframboði í þeim tilfellum sem þörfin og eftirspurnin er minnst, án þess að það hefði teljandi áhrif. Því það þarf að vera tryggt að stytting vinnuvikunnar skili sér raunverulega í bættum afköstum og aukinn framleiðni.

Innleiðing styttingarinnar verður flókin, bæði á stórum skala og smáum. Sú hagræðing sem þarf til að lágmarka neikvæð áhrif er afar ólík milli starfsgreina, eins og vikið var að hér að ofan, en til mikils er að vinna, enda hrein sóun sem allir tapa á fólgin í óhagræði. Allir hljóta að vera sammála því að það er betra að geta eytt meiri tíma heima með fjölskyldu eða við að sinna áhugamálum heldur en við að hangsa í vinnunni og bíða eftir að formlegum vinnudegi ljúki.

Á stærri skala þarf að tryggja að styttingin dreifist ekki of ójafnt milli starfsgreina, þótt svigrúmið geti verið mismikið. Margar þeirra stétta sem þegar hafa lægst kjörin vinna vakta- og viðveruvinnu. Þurfi þær að þola stóraukið álag eða vinna mun lengri vinnuviku en skrifstofufólk er hætt við því að harkan í kjarasamningsgerð aukist enn frekar.

Stytting vinnuvikunnar er göfugt markmið, enda flestir sérfræðingar sammála um að slíkt sé til góðs fyrir bæði einstaklinga og samfélagið í heild á mýmargan hátt, ekki aðeins andlega og líkamlega heldur fyrir tengsl barna við foreldra og ýmiss konar góðgerðar- og áhugastarfsemi sem gjarnan er unnið að í sjálfboðavinnu í frítíma.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.