Verulegar breytingar urðu á vettvangi Fréttablaðsins þegar greint var frá því að Helgi Magnússon, fjárfestir og einn helsti bakhjarl Viðreisnar, hefði keypt afganginn af Torgi, útgáfufélagi Fréttablaðsins, en hann keypti fyrst helming nú í sumar. Við svo búið eru hjónin Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson horfin úr fjölmiðlarekstri eftir 17 ára viðveru.

Við þessi kaflaskil var kynnt að Jón Þórisson lögfræðingur hefði verið ráðinn ritstjóri og ábyrgðarmaður Fréttablaðsins við hlið Davíðs Stefánssonar, sem kom um borð með Helga í maí, en Jón er jafnframt kominn í eigendahópinn. Um leið lét Ólöf Skaftadóttir af störfum sem ritstjóri og fleiri lykilstarfsmenn hugsa sér til hreyfings. Fyrirhugað er að sameina Torg og sjónvarpsstöðina Hringbraut, fallist Samkeppniseftirlitið og Fjölmiðlanefnd á ráðahaginn. Jóhanna Helga Viðarsdóttir verður nú forstjóri og útgefandi Torgs, en Hringbrautarmaðurinn Guðmundur Örn Jóhannsson verður framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar sameinaðs fyrirtækis.

Ekki var þó látið þar við sitja, því á þessum tímamótum kynnti nýi ritstjórinn nýja ritstjórnarstefnu blaðsins og útgáfunnar í forystugrein. Þar sagði stefnan yrði „að halda uppi borgaralegum viðhorfum, víðsýni og frjálslyndi“ og sérstaklega tekið fram að útgáfan „aðhyllist alþjóðlegt samstarf Íslendinga á breiðum vettvangi og horft sé til þess að dýpka slíkt samstarf til framtíðar.“ —  Menn þurfa ekki að vera neitt sérstaklega læsir á pólitík til þess að átta sig á því að blaðið er að gera erindi Viðreisnar að sínu, sérstaklega þó í Evrópumálum.

***

Þetta eru óneitanlega nokkur tíðindi, ekki síst í ljósi þess að Fréttablaðið er fríblað og hefur frá öndverðu gefið sig út fyrir að halda hlutleysi (þó það hafi kannski gengið upp og ofan), einmitt af því að það kemur óumbeðið inn um lúguna hjá fólki og þarf því að auðsýna sérstaka hófsemi og hæversku. En vilji eigendurnir hafa það svo er ekkert að því, dagblöðum fer ágætlega að eiga sér slíkt erindi, sem þá birtist í ritstjórnargreinum og endurspeglast að einhverju leyti í fréttamati, þó auðvitað megi það ekki lita fréttir. Sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson, sem kalla má höfuðsmið Fréttablaðsins í öndverðu, hefur lýst áhyggjum af þessu, mikið til auðvitað á pólitískum forsendum, en hann lét einnig í ljós ugg yfir því að sami maðurinn yrði yfir sölustarfi og dagskrárgerð, klofaði þannig yfir Kínamúrana frægu. Ekki þá síst þegar haft væri í huga að fjölmiðlanefnd hefði þegar kúskað og sektað Hringbraut „fyrir að blanda saman dagskrárefni og auglýsingum, selja dagskrá hæstbjóðanda, en þarna er þessi stefna geirnegld í skipuritið; auglýsingastjórinn er dagskrárstjóri.

Þarna stendur því ekki til að stunda blaðamennsku.“ Nú þarf það ekkert að verða þannig og fjölmiðlarýnir er fyrir sitt leyti sannfærður um að fjölmiðlanefnd hafi farið offari gegn Hringbraut, eins og fram hefur komið í þessum dálkum. En hitt er rétt hjá Smára, að með þessu eykst hættan á slíku samkrulli.

***

Stóru tíðindin í þessu er þó sjálfsagt þau að annað íslensku dagblaðanna gangi nánast stjórnmálaflokki á hönd með þessum hætti. Er tími flokksblaða aftur að ganga í garð? Nú hefur Morgunblaðið vissulega lengi verið eindregið til hægri og átt langa samleið með Sjálfstæðisflokknum í höfuðatriðum, þó að hátt í hálf öld sé síðan eiginleg tengsl þar á milli slitnuðu. Þar hefur að undanförnu gætt aukinnar gagnrýni á forystu Sjálfstæðisflokksins og stefnu í stöku málum, svo mjög að sumir vinstrimenn hafa sagt að það sé orðið málgagn Miðflokksins! Þannig er það auðvitað ekki, en Moggi rekur um margt harðari pólitík en áður og Miðflokkurinn hefur lagt hart í stjór undanfarin misseri. Að því leytinu er tónninn í dagblöðunum því orðinn mun ákveðnari en áður, bæði með og á móti einstökum flokkum. Morgunblaðið á sér ljóslega sitt sjálfstæða erindi, en Fréttablaðið virðist vera orðið hjáleiga hjá Viðreisn, ef ekki beinlíns málgagn. Í framhaldi af því má vel spyrja hvort það geti ekki truflað framkvæmd laga um fjármál stjórnmálaflokka. Með þeim eru kostir stjórnmálaflokka til þess að afla fjár verulega takmarkaðir, en þeim er bætt það upp með árlegum framlögum af skattfé landsmanna. En ef einn flokkurinn er kominn með ókeypis málgagn í fangið, hvernig mun Ríkisendurskoðun eða hin boðaða kosningastofnun taka á slíku?

Enn fróðlegra verður þó að sjá hvernig fjölmiðlanefnd bregst við. Hún hefur undanfarið mjög fært sig upp á skaptið og vill hlutast til um ritstjórnarákvarðanir fjölmiðla, sýnist henni svo. Mun hún fetta fingur út í hinn nýja Viðreisnartón blaðsins? Eða veltur það kannski á stjórnmálaskoðunum nefndarmanna og starfsmanna nefndarinnar? Þar bíða hundrað hættur. Síðan eru viðbrögð lesenda auðvitað alveg eftir. Fá þeir betra eða verra blað? Og ef þeim líst ekki á blikuna og hætta að lesa Fréttablaðið, þá týna auglýsendur tölunni nánast jafnhratt.

***

Hvernig sem það allt hrærist má víst telja að hafinn sé nýr kafli í íslenskri fjölmiðlasögu og fróðlegt að fylgjast með framvindunni á næstu mánuðum. Líka því hvernig önnur stjórnmálaöfl munu bregðast við. Finna þau hjá sér nýja þörf til þess að eignast málgagn með almenna útbreiðslu? Verða stofnaðir nýir miðlar eða mun einhver bjóða í blöð á borð við DV og Stundina?

***

Fyrst minnst er á DV: Hér hefur einhverntímann verið minnst á hvernig sumir miðlar byggja upp hetjur og rífa þær jafnvel stundum niður líka þegar stundir líða fram. DV sagði furðufrétt af ljótum og klámfengnum brandara, sem birst hefði um femínistann Hildi Lilliendahl í einhverjum afkima Facebook. Birti ógeðið svo orðrétt ásamt upprifjun um að Hildur hefði nú sjálf sagt eitt og annað á netinu.

Þetta var lítið annað en skammarleg endurbirting á óhróðrinum. Þá er hins að minnast að það var DV sem nánast gerði Hildi að opinberri persónu, hampaði henni oft og iðulega, en lesendur DV völdu Hildi „hetju ársins 2012“. Allt er í heiminum hverfult og stund þíns fegursta frama…