Þótt flest heimili, fyrirtæki og stofnanir tengi orðið flokkun núorðið við ráðstöfun úrgangs er viðbúið að það muni breytast á næstu misserum.

Ástæðan er gildistaka Flokkunarreglugerðar Evrópusambandsins (ESB) hér á landi. Þótt hugmyndir um betri nýtingu náttúruauðlinda, kvikt hringrásarhagkerfi og umhverfisvernd búi að baki hefðbundinni úrgangssorteringu og nefndri reglugerð, er fátt annað skylt með fyrirbærunum tveimur.

Mikið hefur verið ritað um tilgang og innihald reglugerðarinnar, en þar sem hún er ný af nálinni og lítil reynsla komin á hana, bæði hér á landi sem og í Evrópu, er mikilvægt að benda á að hlítni við hana kallar á að fyrirtæki séu í stakk búin fyrir þá vinnu sem fram undan er. Sé lagt af stað í þann leiðangur af hálfum hug, og án þess að vandað sé til verka, er viðbúið að niðurstaðan muni ekki aðeins koma niður á komandi kynslóðum, heldur einnig fyrirtækjum dagsins í dag.

Hvað er flokkunarreglugerðin?

Flokkunarreglugerð ESB (e. EU Taxonomy) er mikilvægur hluti af sjálfbærnireglugerðum Evrópusambandsins, sem settar voru á fót sem hluti af Green Deal sáttmála sambandsins árið 2019. Festa, miðstöð um sjálfbærni, birti á dögunum gagnlegan vegvísi um sjálfbærnilöggjöf ESB sem gefur góða mynd af því sem koma skal. Tilgangurinn reglugerðarinnar er að koma á samræmdum ramma til að stuðla að sjálfbærum fjárfestingum þar sem skilgreint er hvaða tiltekna atvinnustarfsemi teljist vera sjálfbær. Sú starfsemi sem telst vera „græn“, eða umhverfislega sjálfbær, verður að falla undir eitt af sex umhverfismarkmiðum reglugerðarinnar, en má á sama tíma ekki skaða önnur markmið hennar.

ESB hefur nú þegar gefið út tæknileg matsviðmið fyrir tvö af þessum markmiðum, mildun loftslagsbreytinga og aðlögun að loftslagsbreytingum, en stefnt er að því að hin fjögur markmiðin: Sjálfbær nýting vatns- og sjávarauðlinda, umbreyting í hringrásarhagkerfi, mengunarvarnir og eftirlit með mengun og að lokum verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa verði innleidd með afleiddri reglugerð síðar á þessu ári. Fyrst komu fram matsviðmið fyrir þær greinar sem eru með mestu losun, og greinar sem auðvelda umbreytingu yfir í loftslagsvænni starfsemi, en starfsemi í öðrum geirum mun fylgja áður en langt um líður.

Fyrirtæki styðjast við áðurnefnd tæknileg matsviðmið til að ákvarða hvort að starfsemi þeirra falli undir flokkunarreglugerðina eða ekki, og er flokkunin gerð út frá eðli starfseminnar miðað við þá flokka sem nú þegar hafa verið birtir. Að auki þarf starfsemin að falla undir þau viðmið sem tæknilegu matsviðmiðin setja fram, en þau vísa í margvísleg skilyrði sem þarf að uppfylla fyrir hverja starfsemi og hvert markmið fyrir sig. Leggja þarf fram gögn til grundvallar þessarar flokkunar og til staðfestingar á því að starfsemin sé í raun hæf, til dæmis mat á umhverfisáhrifum, virðiskeðjugögn um rekjanleika efna, staðfestingu á að starfsemin falli undir ákveðin viðmið o.s.frv.. Að auki skal starfsemin vera í samræmi við lágmarksverndarráðstafanir (e. minimum safeguards) sem að mælt er fyrir og tekur m.a. á hlítni við alþjóðleg mannréttindi og vinnuréttindi eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu Þjóðanna og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Þegar lokið hefur verið að meta starfsemina eru lykilmælikvarðar reiknaðir út og velta, rekstrarútgjöld og fjármagnsútgjöld hæfrar starfsemi eru birt skv. 8. gr. reglugerðarinnar.

Staðfesta þarf með gögnum að starfsemin falli undir reglugerðina, það er, að safna þarf gögnum saman til sönnunar á réttri flokkun, sem kallar á ítarlega og greinagóða gagnasöfnun. Nauðsynlegt er að hægt sé að rökstyðja mat og aðferðafræði gagnavinnslunnar, og verður þetta krafa þegar CSRD-tilskipun ESB um sjálfbærniskýrslugerð fyrirtækja tekur gildi þar sem gerð er krafa um staðfestingu upplýsinga, en sú tilskipun tók gildi innan ESB í janúar sl. og er nú til skoðunar innan EES-samningsins svo búast má við innleiðingu hér á landi áður en langt um líður.

Staðan á Íslandi

Flokkunarreglugerðin tók gildi innan ESB í júní 2021. Frumvarp til laga um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar sem að innleiðir reglugerðina hér á landi ásamt reglugerð um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (SFDR) var lagt fram á Alþingi síðastliðið haust. Miðað við þær upplýsingar sem koma fram í frumvarpinu stendur til að lögin taki gildi hér á landi þann 30. júní næstkomandi og að miðla beri upplýsingum skv. 8. gr. reglugerðarinnar fyrir fjárhagsárið 2023. Hluti reglugerðarinnar gildir um stór félög og einingar tengdar almannahagsmunum sem falla undir skylduna að birta ófjárhagslegar upplýsingar skv. 66. gr. d laga um ársreikninga nr. 3/2006, ef að tvö af eftirfarandi viðmiðum eru uppfyllt: Að heildareignir eru yfir 3.000.000.000 kr., hrein velta er yfir 6.000.000.000 kr. eða heildarfjöldi ársverka á fjárhagsárinu eru 250 eða fleiri. Vekja ber athygli á því að það aðlögunartímabil sem var innan ESB, þar sem fyrirtæki þurftu einungis að birta upplýsingar um hvaða starfsemi væri hæf fyrsta árið og fullar upplýsingar og útreikninga ári síðar, eða fyrir árið 2022, mun ekki gilda hér á landi þar sem ekki er að finna aðlaganir sem heimila slíkan aðlögunartíma í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þetta þýðir að þau fyrirtæki sem að falla undir reglugerðina munu þurfa að greina starfsemi sína út frá tæknilegu matsviðmiðunum og gefa upp lykilmælikvarða í ársuppgjöri ársins 2023 eins og fyrirtæki innan ESB gera nú fyrir fjárhagsárið 2022, án undantekninga. Reglugerðin hefur nú þegar verið innleidd í Noregi og munu sömu kröfur gilda þar og hér á landi.

Áskoranir og tækifæri

Eitt fyrirtæki, Landsvirkjun, hefur nú þegar hafið undirbúning fyrir innleiðingu flokkunarreglugerðarinnar og birti fyrirtækið upplýsingar í nýútkominni ársskýrslu sinni um þá starfsemi sem telst hæf samkvæmt henni og reiknaði út hlutfall tekna hæfrar starfsemi út frá þeim viðmiðum sem reglugerðin setur. Í ljós kom að fara þarf djúpt inn í starfsemi fyrirtækisins til að ákvarða og geta staðfest hvaða hluti starfseminnar flokkast sem hæfur og hvort að starfsemin falli undir mildun loftslagsbreytinga eða aðlögun í skilningi reglugerðarinnar. Þegar kemur að því að uppfylla skilyrði tæknilegu matsviðmiðanna voru síðan margvísleg úrlausnarefni sem að komu í ljós, til dæmis varðandi stöðu á innleiðingu annarra reglugerða og tilskipana á Íslandi sem eru grundvöllur fyrir því að hægt sé að uppfylla skilyrði flokkunarreglugerðarinnar. Á síðari stigum bætast svo við reiknireglur er varða útreikning á veltu, rekstrarútgjöldum og fjármagnsútgjöldum sem ákveðnir hlutar starfseminnar eru teknir með í reikninginn og aðrir ekki.

Það er ljóst að það er vinna fyrir höndum. Áríðandi er fyrir fyrirtæki að hefjast handa sem fyrst þar sem hlítni við reglugerðina mun ekki nást á einni nóttu. Verkefnið kallar á samvinnu margra deilda og sérfræðinga t.d. á sviðum sjálfbærni, innkaupa, fjármála og upplýsingatækni, að skilja bæði rekstur fyrirtækisins en einnig starfsemi birgja, að gagnaöflun og geymsla sé skilvirk og skiljanleg og að hægt sé að staðfesta og sannreyna þær upplýsingar sem lagðar eru fram. Útkoman mun vonandi verða mælanlegt framlag fyrirtækja til umhverfismála, samræmdar upplýsingar, minni grænþvottur og aukið gagnsæi sem mun auðvelda upplýstar fjárfestingarákvarðanir út frá sjálfbærni, en vinna þarf vinnuna og gera þessar upplýsingar aðgengilegar og réttar.