*

þriðjudagur, 28. september 2021
Þórdís Kolbrún R. Gylfad
24. júní 2021 15:03

Flugeldasýning hugmynda og sköpunar

„Öfugt við flugeldasýningu felst hins vegar í þessum „hugmyndasprengjum" að verið er að skapa ný og aukin verðmæti.“

Haraldur Guðjónsson

Á vissan hátt er það eins og að fylgjast með flugeldasýningu að fylgjast með sprotaumhverfinu á Íslandi. Sífellt er verið að skjóta nýjum hugmyndum á loft og sífellt fleiri þeirra springa fallega út.

Öfugt við flugeldasýningu felst hins vegar í þessum „hugmyndasprengjum" að verið er að skapa ný og aukin verðmæti. Þegar vel tekst til er verið að setja af stað keðjuverkun sköpunar sem heldur áfram að geta af sér enn meiri sköpun og enn meiri verðmæti. Hugmyndir, vörur og þjónusta brenna ekki upp heldur lifa og dafna, færa eigendum arð, starfsfólki atvinnu og notendum eftirsóknarverð gæði.

Þegar ég velti sprotahugtakinu fyrir mér kemur margt upp í hugann. Sprotar eru upphafið að einhverju stóru. Þeir eru innblástur, hugmyndir, bjartsýni, stórhugur og ástríða, en líka mótbyr, erfiðleikar, hindranir og átök.

Sprotar eru stórar stefnumarkandi ákvarðanir þar sem ekki er til nein formúla um rétta eða ranga leið. Ítrekaðar tilraunir með mismunandi lausnir í því augnamiði að finna rétta leið.

Sprotar eru þolinmæði, þrautseigja, elja og sveigjanleiki. Getan til að bregðast hratt við þegar allt fer skyndilega á fleygiferð. Stundum eru sprotar grundvallaðir á ævilöngu rannsókna- og þróunarstarfi en stundum byggjast þeir á skyndilegri hugmynd sem braust fram á óútskýrðan hátt.

Sprotar eru barátta um fjármagn og stuðning. Jafnvel þrautaganga um frumskóg laga og regluverks. Í stóru myndinni eru sprotar auðvitað grundvöllur verðmætasköpunar og bættra lífskjara og lífsgæða. Undirstaða hagvaxtar. Og síðast en ekki síst eru sprotar, frá sjónarhóli einstaklingsins, eitt mest spennandi verkefni sem hægt er að fást við.

Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda að skapa sprotum hagstætt umhverfi til að verða til, vaxa og dafna. Mjög margt hefur áunnist í því á undanförnum árum og mér hefur þótt mjög vænt um jákvæðar undirtektir við aðgerðum ríkisstjórnarinnar, meðal annars frá Samtökum sprotafyrirtækja.

Þó að útgjöld séu ekki besti mælikvarðinn á árangur stjórnmálamanna er engu að síður rétt að halda því til haga að enginn málaflokkur hefur vaxið hlutfallslega eins mikið að umfangi á þessu kjörtímabili og framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina, eða um 70%.

Endurgreiðslur á rannsókna- og þróunarkostnaði hafa verið hækkaðar mikið, framlög til Tækniþróunarsjóðs aukin, Kría sett á laggirnar, sem og Stuðnings-Kría, svo að dæmi séu tekin.

Ekkert af þessu er tilviljun heldur bein afleiðing af Nýsköpunarstefnunni sem mótuð var og innleidd á kjörtímabilinu.

Með Nýsköpunarstefnunni voru sett fram skýr leiðarljós um hvernig við gætum gert markmiðið um „Nýsköpunarlandið Ísland" að veruleika. Þó að tiltölulega skammur tími sé liðinn frá því að stefnan var kynnt finnst mér við hafa tekið stór skref í átt að þessu markmiði. Skrefin felast ekki eingöngu í beinum aðgerðum heldur líka í breyttu hugarfari. Nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er ekki lengur málaflokkur sem þarf að sannfæra stjórnkerfið og samfélagið um að styðja, heldur almennt viðurkennd sem grundvöllur verðmætasköpunar, hagvaxtar, atvinnu, gjaldeyristekna, lífskjara og lífsgæða. Jákvæð umskipti hafa orðið hvað þetta varðar.

Þegar allt er tekið saman - ný stefna, breytt hugarfar og margvíslegar umbætur á starfsumhverfinu - er ekki langsótt að segja að hér á Íslandi hafi að undanförnu orðið sannkölluð nýsköpunarbylting.

Það getur verið snúið að leggja mat á samtíma sinn en ég tel að þetta muni koma skýrar í ljós á komandi árum. Þó að við séum nú þegar farin að uppskera glæsilegan árangur tel ég að sú uppskera eigi enn eftir að aukast og það svo um munar.

Þetta er sá árangur sem ég er hvað stoltust af á kjörtímabilinu sem nú er senn liðið.

Ég tel nær útilokað að næsta ríkisstjórn, hver sem hún verður, hverfi af þessari braut. Það væri í það minnsta mjög misráðið. Við eigum að halda áfram að bera okkur saman við þær þjóðir sem náð hafa hvað bestum árangri í nýsköpun, hugviti og frumkvöðlastarfsemi og innleiða þá nálgun sem hefur gefist þeim best. Verkinu er ekki lokið, og því verður auðvitað aldrei lokið. Samtal og samvinna stjórnvalda og sprotaumhverfisins þurfa að halda áfram með það að markmiði að bæta „Nýsköpunarlandið Ísland". Ég segi bæta, ekki búa til, því að við erum að mínu mati komin of langt til að líta svo á að við séum ekki nýsköpunarland.

Mörg verkefni bíða. Á meðal þeirra stærstu er að stjórnvöld þurfa sjálf að innleiða meiri nýsköpunarhugsun í öllum sínum verkefnum. Í þeim efnum þurfum við að taka rækilega til hendinni.

Við þurfum líka að hefja nýja byltingu, sem ég hef kallað „einföldunarbyltingu". Regluverkið okkar er of flókið og þunglamalegt. Það sýnir til dæmis vönduð og ítarleg úttekt OECD, sem þó náði bara til tveggja afmarkaðra sviða. Kröfur eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að við keyrum út í skurð, en þær mega ekki koma í veg fyrir að við getum nokkurn tímann grafið þá skurði sem þarf að grafa, það er að segja: skapað þau verðmæti sem þarf að skapa. Tjónið sem óþarfa regluverk og skrifræði veldur okkur er illmælanlegt en ljóst er að það er verulegt.

Ég vil nota tækifærið hér og þakka öllum frumkvöðlum fyrir hugmyndir sínar, elju sína og dugnað. Við stöndum með ykkur og viljum halda áfram að búa ykkur góðan jarðveg.

Höfundur er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Greinin birtist upphaflega í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vb.is.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.