*

laugardagur, 23. október 2021
Týr
6. desember 2020 13:09

Flugvirkjar allra landa sameinist…

Kröfur flugvirkja Gæslunnar snerust um hvort þeir fljúgi á Saga Class. Ekki mannréttindabrot að vinna fyrir 2 milljónir á mánuði.

Haraldur Guðjónsson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra lagði sl. föstudag fram lagafrumvarp sem fól í sér að stöðva verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni. Meðallaun flugvirkja hjá Gæslunni eru tæpar tvær milljónir króna á mánuði og þeim stóð til boða sambærileg launahækkun og öðrum ríkisstarfsmönnum.

                                                              ***

Deiluefnið sneri að tengingu kjarasamnings þeirra við samning flugvirkja hjá Icelandair. Í stuttu máli snýst það um að þeir fljúgi á Saga Class í starfstengdum erindum erlendis, þegar Covid-krísan er liðin hjá. Starfsfólk Icelandair flýgur með litlum tilkostnaði fyrir félagið en launagreiðandi flugvirkja Gæslunnar, íslenska ríkið, þarf að greiða fyrir flugmiðana. Með því að setja lög til að stöðva verkfallið gerði Áslaug Arna það eina rétta í stöðunni.

                                                              ***

Nú er það reyndar svo að áhafnarmeðlimir, að flugvirkjum undanskildum, á skipum og loftförum Gæslunnar hafa ekki verkfallsrétt vegna almannahagsmuna. Háseti á varðskipi, hvers laun eru aðeins brot af launum flugvirkja, má þannig ekki fara í verkfall enda treysta landsmenn á að Gæslan sinni öryggishlutverki sínu. Týr vill helst ekki hugsa þá hugsun til enda ef skip hefði strandað í lok síðustu viku eftir að flugvirkjar höfðu lamað þyrlusveitina með kröfum sínum.

                                                              ***

Það hvort að hálaunamenn geti flogið á Saga Class í boði ríkisins er ekki stærsta áhyggjumál almennings. Það var því ekki mikil samúð með málstað flugvirkja Gæslunnar enda er venjulegt fólk fyrst og fremst að hugsa um það hvort að endar nái saman í heimilisbókhaldinu.

Flugvirkjarnir fengu þó stuðning úr óvæntri átt, því í umræðum um lagasetningu Áslaugar Örnu höfðu fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata uppi stór orð um það hvernig verið væri að brjóta á launafólki sem væri að berjast fyrir betri kjörum.

Þingmenn fóru mikinn um réttindi launþega, réttinn til að fara í verkfall til að berjast fyrir bættum kjörum og aðra frasa sem áttu við fyrir um 70 árum síðan. Einn þingmaðurinn gekk svo langt að segja að verið væri að fremja mannréttindabrot á flugvirkjum með því að senda þá aftur í vinnuna.

                                                              ***

Það væri þó rangt af flugvirkjum Gæslunnar að halda að þeir hafi eignast þarna vini á vinstri væng stjórnmálamanna. Aðilar með tæpar tvær milljónir króna á mánuði eru einmitt þeir sem horft verður til næst þegar skattar verða hækkaðir. Þá spyr enginn um mannréttindi og launabaráttu.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.