Fjármálaeftirlitið hefur á nýjan leik toppað sig í skeytingarleysi gagnvart viðskiptavinum tryggingafélaganna. FME er hætt að sýna sundurgreindar upplýsingar um fjárhag vátryggingagreina, en aðgangur að slíkum upplýsingum hefur verið helsta vörn neytenda gegn blekkingum og óhóflegum iðgjöldum tryggingafélaganna. Undanfarna tvo áratugi hefur FÍB getað notað þessar upplýsingar aftur og aftur til að veita tryggingafélögunum aðhald í lögboðnum bílatryggingum.

Frá og með yfirliti 2016 er engar upplýsingar að fá frá FME um iðgjöld eða tjón ökutækja - né heldur um aðrar greinar vátryggingastarfsemi hér á landi, en þær eru níu talsins. Það eina sem FME birtir er ein Excel blaðsíða með heildarniðurstöðum hvers tryggingafélags fyrir sig. Engin sundurliðun eins og verið hefur áratugum saman.

Þess í stað vísar FME á svokallaðar SFCR skýrslur tryggingafélaganna um gjaldþol og fjárhagslega stöðu. Þær skýrslur eru vandlega faldar á heimasíðum tryggingafélaganna. En það kemur kannski ekki að sök því upplýsingarnar eru allar á ensku. Hluti skýrslanna er á íslensku en sá hluti skiptir ekki máli fyrir almenna neytendur. Þær tölulegu upplýsingar sem neytendur gætu notað til að fylgjast með tryggingafélögunum eru fullkomlega óaðgengilegar fyrir aðra en tryggingasérfræðinga með ensku sem vinnumál.

Fjármálaeftirlitið er komið eins langt frá neytendaverndarhlutverki sínu og hugsast getur. Samkvæmt lögum um FME er stofnunin skyldug til að gæta hagsmuna viðskiptavina tryggingafélaganna og tryggja að þau starfi í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Ekki er lengra síðan en í mars 2016 að allt varð brjálað í þjóðfélaginu þegar í ljós kom að þrjú tryggingafélög ætluðu að hreinsa 8,5 milljarða króna út úr bótasjóðum (tjónaskuld) félaganna sem þau höfðu safnað saman með ofteknum iðgjöldum. FME hreyfði ekki legg né lið vegna þessara áforma, heldur leit á þau velþóknunaraugum og hvatti félögin um leið til að hækka iðgjöldin enn frekar. Tvö tryggingafélaganna bökkuðu frá þessum gripdeildum vegna mótmælaöldu sem varð til undir forystu FÍB. Fjármálaeftirlitið reyndi hins vegar eftir bestu getu að verja ráðagerðir félaganna. FÍB benti á að ef FME ætlaði að láta þetta óátalið, þá yrði það í annað sinn á einum áratug sem stofnunin horfði aðgerðalaus á eigendur tryggingafélaga tæma bótasjóðina.

Skjól til að fela upplýsingar?

Núna veitir FME tryggingafélögum skjól til að fela allar upplýsingar um iðgjöld og tjón í óskiljanlegum SFCR skýrslum. FME vísar til þess að breytt upplýsingagjöf sé samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um reikningsskil. Þar horfir FME alfarið framhjá því að þessi tilskipun kveður á um lágmarks samanburðarhæfar upplýsingar milli landa. Tilskipunin kveður ekkert á um að FME eigi að hætta að veita íslenskum neytendum samanburðarhæfar upplýsingar. Tilskipunin bannar FME ekki að gera meira en lágmarkið krefst.

Framkoma Fjármálaeftirlitsins við neytendur er með öllu óskiljanleg. Í gegnum tíðina hefur FME litið velþóknunaraugum á oftöku iðgjalda tryggingafélaganna og óhóflega sjóðasöfnun. Það ógagnsæi sem FME hlutast nú til um er enn eitt dæmið sem sýnir að þessari stofnun er ekki með nokkru móti treystandi til að gæta hagsmuna viðskiptavina tryggingafélaganna. FÍB hefur áður hvatt stjórnvöld til að taka þetta hlutverk af FME. Staðreyndin er sú að kvörtunum vegna framgöngu tryggingafélaganna verður að beina til FME og þar hverfa þær undantekningalítið í svarthol og hending ef þeim er svarað.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.