*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Týr
24. maí 2020 09:08

Fordæmalaus speki og spádómar vorra daga

„Magnaðast er þó stefið í flestu skvaldri dagsins, að við lifum á einstæðum tímum. Svo var líka fyrir plágu.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnir annan aðgerðarpakkann vegna COVID heimsfaraldursins.
Árni Sæberg

Veiran virðist í margra hugum vera eins konar aldahvörf, sem má til sanns vegar færa um margt. Það er a.m.k. einhver von til þess að Íslendingar hætti að miða tímatal sitt við Hrunið — fyrir Hrun eða eftir — þó það sé kannski að fara úr öskunni í eldinn að fara að miða við pláguna í staðinn.

Það verður samt til einhvers ef Hrunið hættir að vera allsherjarviðmiðun í landinu, kreppan af þess völdum er fyrir löngu að baki, en nú fyrst má vonast til þess að hugarfarskreppu Hrunsins linni. Þó fyrr hefði verið!

                                                                        ***

Þessir „fordæmalausu tímar“ hafa vissulega valdið miklum breytingum á lifnaðarháttum og atvinnulífi og alls ekki ómögulegt að um einhverjar varanlegar breytingar verði að ræða.

Þær verða þó tæplega margar og fæstar munu rista djúpt. Svo má hins vegar vel vera að eftir 20 ár líti menn aftur og sjái breytingar sem við áttum okkur síður á nú.

                                                                        ***

Þegar horft er yfir sviðið er a.m.k. erfitt að sjá veruleg sinnaskipti hjá fólki. Öðru nær raunar, því það er frekar að þeir sem mest eru áberandi í þjóðmálaumræðunni hafi herst í skoðunum sínum og fullvissu.

Hver á fætur öðrum stíga þeir miklu meistarar fram og tína til einstaka þætti plágunnar, skoðun dagsins og lærdóma hinna nýju faraldursfræðinga, til lögfullrar sönnunar á öllu því sem þeir hafa áður sagt. Ekki ósjaldan með orðum um að þeir hafi raunar alls ekki gengið nógu langt fram að þessu, veiran sanni það.

                                                                        ***

Þetta er auðvitað sérstaklega greinilegt í alhæfingum út frá fréttum dagsins, kaffimasi eða fyndnum dýrum á TikTok, um hvernig sagan hafi tekiði breytingum. Allt frá því að jörðinni sé að batna til þess að ferðaþjónustan í Trékyllisvík verði aldrei söm.

Svo koma ný spakmæli og spádómar daginn eftir. Er það þó flest um hluti sem ekki er á neins manns færi að vita hér og nú. Og merkilegt en satt, alveg sérstaklega um hluti sem viðkomandi hefur til þessa ekki haft neitt vit á. Svo menn læka það bara og bíða eftir bulli morgundagsins.

                                                                        ***

Magnaðast er þó stefið í flestu skvaldri dagsins, að við lifum á einstæðum tímum. Svo var líka fyrir plágu. Röksemdir hins vegar fáar aðrar en að viðkomandi lifi þessa tíma. Fordæmalaust alveg hreint!

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.