Stjórnvöld, forystumenn í efnahagslífi, og raunar við öll, hvar í stétt sem við stöndum, þurfum að taka á aðsteðjandi vanda af einurð og yfirvegun, auðmýkt og mildi. Það þarf einurð vegna þess að vandinn er svo mikill og nánast fordæmalaus, svo við notum orð ársins. Yfirvegun vegna þess að plágan er ekki eina smitið sem óttast þarf. Auðmýkt vegna þess að þó að stjórnvöld geri allt sitt besta getur margt farið úrskeiðis. Og mildi vegna þess að hér er um mannslíf að tefla.

***

Í auðmýktinni felst það einnig að stjórnvöld skilji að þau hafa ekki við öllu ráð og eins að stundum er mikilvægara að þau víki úr vegi en að þau leiði eða fyrirskipi á öllum sviðum. Á tímum sem þessum eru freistingarnar fjölmargar fyrir stjórnmálamenn og annað forystufólk til þess að láta ljós sitt og stjórnvisku skína. Það er einnig nóg af hinum, sem vilja hafa vit fyrir öðrum um stórt og smátt.

***

Fordæmaleysið

Víst lifum við á fordæmalausum tímum og þá þarf að grípa til margvíslegra ráðstafana, sem fólki myndi aldrei láta sér detta í hug á venjulegum tímum. Nauðsyn getur brotið lög og lögmál. En þá skiptir líka miklu máli að þær ráðstafanir séu örugglega aðeins notaðar í neyð en verði ekki viðtekin. Að fordæmaleysið skapi ekki fordæmi.

***

Það er auðvelt að sjá fyrir sér hvernig eitt og annað getur fest í sessi að óþörfu, en eins og Milton heitinn Friedman orðaði það, þá er fátt varanlegra en tímabundnar ráðstafanir stjórnvalda.

***

Neyð og endurreisn

Af þeim ástæðum þurfa stjórnvöld ekki aðeins að gæta fyrrgreindra gilda um einurð og yfirvegun, auðmýkt og mildi. Í þeim störfum er nauðsynlegt að halda aðskildum aðgerðum, sem annars vegar beinast að neyðarástandinu núna og hins efnahagsuppbyggingunni, sem á eftir þarf að fylgja. Þeim má ekki rugla saman.

***

Neyðarráðstafanirnar þurfa fyrst og fremst að miðast við þarfir almennings og þá ekki síst viðkvæmra hópa. Að fólk líði ekki neyð eða skort vegna þess að það hefur misst vinnuna eða getur ekki stundað hana af öðrum ástæðum, að það flosni ekki upp eða lendi á vergangi. Eins að reynt sé að búa svo um að annars lífvænleg fyrirtæki, sem eru á vetur setjandi, lognist ekki út af.

***

En það þarf líka ískalt raunsæi um hluti eins og þá að ferðaþjónustunni verður ekki bjargað. Það má heita útilokað að hún taki við sér aftur fyrr en eftir 2-3 ár, kannski meira, kannski aldrei (af sama þrótti og síðustu ár). Ekki vegna þess að Íslendingar verði ekki tilbúnir til þess að opna fyrr, heldur vegna þess að ferðamennirnir munu láta á sér standa. Markaðsrannsóknir utan úr heimi benda allar til þess að fólk hafi sáralítinn áhuga á ferðalögum eftir plágu, síst á framandi slóðir og sérstaklega er það þó áhugalítið um að ferðast með flugi.

***

En jafnvel þó svo sú kreppa hugarfarsins væri ekki í vændum, þá er ekki heldur unnt að líta hjá því að kaup á ferðaþjónustu eru einstaklega háð ráðstöfunartekjum fólks. Við blasir að meðal helstu þjóða, sem sótt hafa í Íslandsferðir, verða ráðstöfunartekjur hinnar velmegandi miðstéttar af mjög skornum skammti næstu misseri. Jafnvel lengur, því nú þegar hafa margir gengið á sparnað og munu vafalaust gera það í enn frekari mæli næstu mánuði.

***

Íslenskt efnahagslíf hefur ekki bolmagn til þess að halda gervallri ferðaþjónustunni, lifandi dauðri, gangandi þar til birtir upp á ný. Þar þarf að horfa til verðmætabjörgunar, að hægt sé að setja fjárfestingar í salt og svo hins að auðvelda verulegan tilflutning á vinnumarkaði.

***

Við verðum að horfast í augu við það að fram undan eru sárir tímar í atvinnulífi og þeir sem halda að það þýði ekki verulega lífskjaraskerðingu eru í ruglinu. Því fyrr sem aðilar vinnumarkaðarins átta sig á því, því betra. Ríkisvaldið er þar á meðal, það hefur fitnað mikið á síðustu árum og ef það fitnar bara áfram, þá er engin von. Við þurfum einmitt kvikara og virkara atvinnulíf, meiri verðmætasköpun; ekki meiri ríkisumsvif og atvinnubótavinnu, þó við kunnum að þurfa að sætta okkur við eitt og annað í augnablikinu.

***

Það á líka við ráðstafanir til efnahagsuppbyggingar. Þær verða að vera markvissar og miða við að atvinnulífið komist á lappirnar. Eitthvað mun lukkast, annað ekki, en það er mikilvægt að það sem ekki lukkast verði gefið upp á bátinn sem fyrst. En áður en menn eru komnir þangað er þó sjálfsagt rétt að vara sig á bullinu og spillingunni, sem fylgt geta. Það er t.d. eftirtektarvert hve mikið af einhverjum gæluverkefnum og gömlum draumum er að dúkka upp í þeim aðgerðum, sem kynntar voru á þriðjudag, misvel faldir.

***

Aðgerðir 2.0

Þær aðgerðir, sem ríkisstjórnin kynnti í fyrradag, fela í sér umfangsmiklar viðnámsaðgerðir gegn veirunni, sem stjórnarherrarnir og frúin mátu á um 60 milljarða króna. Þær koma ofan á þær aðgerðir, sem kynntar voru fyrir mánuði, og jafnframt var boðað að fleiri aðgerðir væru á döfinni, sem kynntar yrðu síðar. Ekki er að efa að þær verði enn rausnarlegri en þessar.

***

Aðgerðirnar að þessu sinni eru í tíu liðum og snúa að lokunarstyrkjum til fyrirtækja, stuðningslánum, jöfnun tekjuskatts, geðheilbrigðisgæslu og fjarþjónustu, verndun viðkvæmra hópa, sértækum stuðningi (m.a. við fjölmiðla), nýsköpunarsókn, sumarúrræðum fyrir námsmenn, úrræðum fyrir atvinnuleitendur og innlendri verðmætasköpun að því er okkur var sagt, en þar ræðir um nýjan Matvælasjóð og fjölgun starfslauna listamanna.

***

Óðinn getur fyrir sitt leyti fallist á flestar þessara aðgerða með tilvísun til fyrrgreinds fordæmaleysis en eins með þeim fyrirvara að þær skapi ekki fordæmi. Hann telur að þær séu að vísu mislíklegar til þess að hafa tilætlaðan árangur, en það er nú bara eins og það er. Flest af þessu er skárra en ekkert og sumt alveg ágætt og ber forystumönnum stjórnarflokkanna gott vitni um hugvitsemi og gott hugarþel. Svona að mestu.

***

En menn skyldu ekki gleyma hættunni á pólitískri spillingu. Þegar ráðherrarnir eru í kappi um að búa til tugmilljarða björgunaraðgerðir, þá verða freistingarnar við að smygla gömlum gæluverkefnum með nánast ómótstæðilegar.

***

Ráðagerðir um styrki til fjölmiðla eru gott dæmi. Þar ræðir um að fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, sem ekki hefur komist í gegnum þingið, er allt í einu komið inn í þennan vöndul, dulbúið sem neyðaraðgerðir. Hver þorir að veðja á móti Óðni um að á næsta ári verði sama vonda vitleysa kynnt til sögunnar og þessar „neyðarráðstafanir" hafðar sem fordæmi?

Þetta er vond og óheiðarleg pólitík hjá Lilju, ríkisstjórninni til hneisu, og beinlínis skaðleg. Látum skaðann fyrir fjölmiðla eiga sig, en þarna er vísvitandi gengið á svig við stjórnskipanina, neyðarástandið misnotað til að koma gæluverkefni Lilju í gegn umræðulaust, því þar mun enginn þora eða nenna að ganga gegn þessu.

***

Þá má líka benda á þennan hálfa milljarð króna, sem fara á í Matvælasjóð, að sögn til þess að efla nýsköpun í matvælaiðnaði. Einmitt það sem þjóðina og umheiminn vantar í þessu neyðarástandi: Gotti 2.0 og hugsanlega er heimsbyggðin loks tilbúin til þess að meta Sjávarnaslið að verðleikum.

Nei, auðvitað er það fullkomlega tilgangslaus ráðstöfun og sóun á fjármunum skattgreiðenda framtíðarinnar. Aðallega gerð til þess að framsóknarmenn geti sagt að þeir hafi nú skaffað eitthvað handa sínu fólki, fyrst verið var að sáldra silfrinu úr ríkissjóði.

***

Aukin framlög til listamanna er enn eitt dæmið. Óðinn hefur fullan skilning á því að hinar skapandi stéttir lenda ekki síður í vandræðum en aðrar á þessum tímum, en þá á að mæta því með ráðstöfunum til þess að lina þrautir dagsins, hér og nú. Ekki með því að bæta bara við í bitlingakerfi gærdagsins, sem síðan kemur tiil afgreiðslu eftir dúk og tóman disk.

***

Ríkismiðill í ruglinu Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins fyrir viku síðan, þann 17. apríl, var fjallað um fyrirhugað hlutabréfaútboð Icelandair. Í fréttinni var sagt frá því að forsenda útboðsins væri sú að viðræður við stéttarfélög Icelandair skiluðu árangri og var þar vitnað í fréttatilkynningu frá félaginu.

***

Fréttamaður á hinni lífsnauðsynlegu ríkisfréttastöð spurði Boga Nils Bogason forstjóra að því hvort viðræður við stéttarfélögin fælu í sér að ná samkomulagi um launalækkun. Síðan spurði fréttamaðurinn hvort forsvarsmenn félagsins teldu ekki svigrúm til launahækkana. Þetta ítrekaði fréttamaðurinn svo þegar hann fékk ekki þau svör sem hann vildi og sagði orðrétt: „Svo ég reyni einu sinni enn. Svo þið teljið ekki svigrúm til að hækka laun að þessu sinni"!

***

Þegar þessi „frétt" var unnin voru nánast allar flugvélar Icelandair komnar úr umferð. Þær flugvélar sem þegar voru á lofti voru flestar með nokkrum farþegum, allt niður í einn. Flestir starfsmenn félagsins voru komnir í hlutastarfaleiðina og að minnsta kosti búið að segja 240 starfsmönnum upp. Félagið sjálft reiknar með því að vera tekjulítið næstu 12 mánuðina. Þá þegar blasti við að Icelandair verður gjaldþrota ef ekki kemur nýtt fé inn í félagið.

***

Það eru engin mörk í því hversu lélegar fréttir Ríkisútvarpið getur flutt. Hverjum dettur í hug að hægt sé að hækka laun í fyrirtæki þar sem tekjur fara langleiðina í núll á örfáum dögum og stefnir lóðbeint á hausinn?

***

Blóðugar aðgerðir

Undanfarna daga hafa staðið yfir viðræður við fjárfesta vegna hins fyrirhugaða útboðs. Þar hefur fjárfestum verið kynntar hugmyndir um aukið vinnuframlag áhafna fyrir sömu laun. Það kallar forstjóri Icelandair lægri einingarkostnað. Þær hugmyndir sem Óðinn hefur heyrt þýðir um 10-20% lægri einingarkostnað, að jafnaði um 15% lækkun. Óðinn telur að það sé of lítið. Allt of lítið.

***

Það vita allir, nema flugmenn Icelandair af einhverri óskiljanlegri ástæðu, að laun flugmanna Icelandair voru um 30% hærri en laun flugmanna Wow air þegar var búið að leiðrétta fyrir ýmsum breytum, s.s. vinnutíma, og gera þau þar með samanburðarhæf. Laun flugmanna margra annarra flugfélaga sem flugu til Íslands voru enn lægri.

***

Þetta er dapurleg staðreynd. Óðinn vill auðvitað að allir fái sem hæst laun. En veruleikinn er sá að flugmenn í öðrum löndum, t.d. á hinum Norðurlöndunum, fá lægri laun, jafnvel mun lægri. Þar með er samkeppnihæfni Icelandair horfin. Rétt eins og sést hefur undanfarin ár í uppgjörum félagsins. Sama gildir um flugfreyjur og flugvirkja.

***

Tvær leiðir eru í boði hjá Icelandair. Annaðhvort að lækka kostnað gríðarlega eða setja félagið í gjaldþrot og þá hugsanlega að endurreisa það. Launakostnaðurinn er ekki eini kostnaðurinn sem nauðsynlegt er að lækka. Enn hefur fjárfestar ekki fengið að vita hver staða Icelandair er gagnvart Boeing og fjármögnunaraðilum þeirra véla sem þegar hafa verið afhentar.

***

Lífeyrissjóðirnir eru líklegustu fjárfestarnir til að taka þátt í útboðinu. Bæði vegna þess að þeir eiga í félaginu og svo eiga þeir til að líta á hlutverk sitt sem samfélagslegt. En frumskylda sjóðanna er hins vegar að ávaxta fjármuni sjóðsfélaga. Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna eru ekki í öfundsverðri stöðu því óvissan er gríðarleg og þó félagið sjálft telji að eftir tólf mánuði verði félagið komið út úr ókyrrðinni er það allsendis óvíst.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .