Deilur á vinnumarkaði setja mark sitt á fréttir vikunnar sem vonlegt er. Að mörgu leyti hefur Efling yfirhöndina í áróðursstríðinu sem fylgir þessari vinnudeilu – að minnsta kosti í flestum fjölmiðlum.

Margir fjölmiðlar varpa fram þeirri mynd að deilan snúist um hvort atvinnurekendur vilji borga láglaunafólki hærri laun eða ekki. Vitaskuld snýst deila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins ekki um þetta. Félagsmönnum Eflingar stóð til boða sömu kjarabætur og meginþorri hins almenna vinnumarkaðar samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta fyrir áramót. Forysta Eflingar hefur ekki einu sinni haft áhuga á að kanna hug félagsmanna sinna til slíkra samninga.

Þá virðast sumir fjölmiðlar líta svo á að verkfall og verkbann séu ólík fyrirbrigði. Það fyrrnefnda sé réttmætt en hið síðarnefnda sé ofbeldisaðgerð. Staðreynd málsins er að verkbann er hliðstætt verkfalli í lagalegum skilningi og um er að ræða aðgerðir sem eru jafn réttmætar ef út í það er farið.

Því var áhugavert að hlusta á Ölmu Ómarsdóttur fréttamann ræða við Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins á þriðjudag. Spurningarnar voru sérstaklega furðulega orðaðar og gildis-hlaðnar:

Verkalýðsfélögin hafi svona kallað eftir því að stjórnvöld fordæmi verkbann Samtaka atvinnulífsins þar sem þar er auðvaldið að fara fram í krafti stærðar sinnar gegn verkalýðsfélögum.“

En fordæmir þú verkbann?

Það er sérstakt að fréttamenn séu farnir að temja sér tungutak og hugtakanotkun marxista í aðalfréttatíma ríkismiðilsins. Og þá má halda því til haga að í þessari vinnudeilu hefur Ríkisútvarpið ekki spurt neinn ráðamann hvort hann fordæmi verkfallsaðgerðir Eflingar.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 2. mars 2023