Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra er nú að íhuga formannsframboð. Týr telur litlar líkur á að Guðlaugur Þór fari fram.

Ástæðan er ein einföld. Afar ólíklegt er að hann myndi vinna formannskjörið.

Þrátt fyrir litlar líkur á framboðinu þá er rétt að skoða sjónarmið Guðlaugs Þórs sjálfs um hvers vegna hann íhugar nú framboðið.

Hann bendir á að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé afar dapurt.

Sem er rétt.

Í Reykjavík!

Þá er rétt að skoða hvar Sjálfstæðisflokkurinn sé veikastur.

Í Reykjavík. Þar sem Guðlaugur Þór og hans fólk hefur stjórnað innra starfi flokksins í rúman áratug.

Þrátt fyrir það tókst Guðlaugi Þór ekki að sigra fyrsta sætið í prófkjöri fyrr en árið 2021. Þá sigraði hann Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur afar naumlega. Týr býður eftir ævisögu Guðlaugs Þórs þar sem hann fer yfir hvernig honum tókst að hafa Áslaugu undir.

Það er eiginlega ótrúlegri saga en þegar Guðlagur Þór marði Björn Bjarnason árið 2006 um annað sætið í Reykjavík – með því að eyða mörgum tugum milljóna króna í baráttuna. Tý reiknast til að það séu um 80 milljónir á núvirði en nákvæmari tala hlýtur að koma fram í ævisögunni. Þar naut hann stuðnings formannsins Geirs Haarde og framkvæmdastjóra flokksins sem löguðu prófkjörsreglur flokksins að hagsmunum Guðlaugs Þórs.

43% lægra fylgi í Reykjavík

Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í síðustu kosningum var 20,2% í Reykjavík norður, kjördæmi Guðlaugs Þórs, og 22,8% í Reykjavík suður.

Guðlaugur Þór vill sjá fylgið á sama stað og árið 2007 og árin þar á undan. Árið 2007 var fylgið í Reykjavík norður 36,4% og 39,2% % í Reykjavík suður. Fylgið í Reykjavík var því 43% lægra í kosningunum 2021 en það var árið 2007.

Í kjördæmi Bjarna Benediktssonar þá var fylgið 42,6% árið 2007 en 30,2% árið 2021. Fylgið er 29% lakara nú.

Það er því rökleysa að halda því fram að Guðlaugur Þór Þórðarson muni sækja meira fylgi en Bjarni Benediktsson.

Málin sem skipta máli

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem hefst eftir rúma viku, á að mati Týs að ræða verja tíma sínum í alvöru mál en ekki þennan misskilning Guðlaug Þórs.

Fundarmenn hljóta að ræða hvers vegna skattar eru hvað hæstir á Íslandi, hvers vegna ríkisútgjöldin eru komin úr böndunum, hvers vegna ríkisstarfsmenn eru orðnir svo margir. Og hvers vegna við nýtum ekki þau tækifæri sem blasa við að gera Ísland að best stadda ríki í heimi efnahagslega með skynsamlegri nýtingu orkuauðlindanna – á sama tíma og önnur Evrópuríki notast við kol.

Þetta eru hin raunverulegu mál sem skipta almenning máli. Ef flokkurinn tekur á þessum málum og réttir stefnuna mun fylgið ná sömu gömlu hæðunum.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.