*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Týr
2. mars 2020 07:10

Formennirnir og framtíðin

Staða forystumanna í stærstu stærstu stjórnmálaflokkum Íslands.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Eyþór Árnason

Undanfarin misseri hefur öðru hverju skotið upp kollinum sú saga að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, væri senn á förum úr pólitík, búinn að fá nóg af þessu. Því voru það tíðindi sem Bjarni sagði í Silfrinu um helgina, að hann vildi halda áfram að leiða Sjálfstæðisflokkinn, ekki aðeins í þingkosningunum 2021 heldur talaði hann mikið um framtíðina og hvernig hann vildi móta hana. Bjarni hefur verið formaður í rúm 10 ár, Ólafur Thors var það í 27 ár!

                                                                              ***

Slík áform hafa sín áhrif á það hver verður næsti formaður Sjálfstæðisflokksins. Úr því sem komið er má heita afar ósennilegt að sá verði sóttur til sömu kynslóðar, hvað þá eldra fólks, þegar þar að kemur. Það hlýtur að vera vatn á myllu varaformannsins Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur. Nema auðvitað Bjarni sitji þeim mun lengur og þá gæti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eins átt erindi, en þær stöllur eru ljóslega mikil efni báðar.

                                                                              ***

Kannski forystumál annarra stjórnmálaflokka séu þó ekki síður tímabært umræðuefni. Katrín Jakobsdóttir er auðvitað ekki á förum eitt eða neitt og varla Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þau njóta bæði verulegs stuðnings og bera höfuð og herðar yfir aðra í forystu flokka sinna. Inga Sæland sömuleiðis. Enginn mun sækjast eftir forystu hjá Pírötum, því sýni einhver of mikinn metnað eða ráðríki þar verður hann látinn ganga plankann eins og Birgitta.

                                                                              ***

Þingmenn Samfylkingar vilja ekki kannast við að einhver vilji bjóða sig fram til formennsku gegn Loga Einarssyni, sem sjálfsagt er alveg rétt; þingflokkurinn er lítill og laus við forystufólk. Samt veitir flokknum varla af nýrri forystu, sem bæði getur veitt öflugri stjórnarandstöðu og endurnýjað erindi flokksins. Að mörgu leyti er Viðreisn í svipaðri stöðu, það sést lítið til formannsins Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, en enginn virðist nenna að skora hana á hólm. Sem skilur eftir Framsókn. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur ekki sýnt á sér neitt fararsnið, en samt sýnist Tý að Lilja Dögg Alfreðsdóttir sé í þann veginn að láta til skarar skríða til þess að fá formannsstólinn með góðu eða illu. Best að poppa.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

 

Stikkorð: Týr
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.