Skýrsla starfshóps um stöðu og áskoranir Ísland í orkumálum var kynnt í síðustu viku. Meginniðurstaða starfshópsins er að ef mæta eigi orkuþörf vegna orkuskipta þurfi að rúmlega tvöfalda orkuframleiðslu á Íslandi.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði starfshópinn í byrjun ársins og Óðin rekur ekki minni til að starfshópur með svo stórt verkefni hafi skilað af sér á eins stuttum tíma.

* * *

Það stöðnunarskeið sem hefur verið í orkuöflun síðasta áratuginn er í boði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar en rammaáætlun, sem ætlað var að vera leið til að ná sátt um orkunýtingu, hefur ekki verið samþykkt síðan 2013. Þessi stöðnun hefur gert það að verkum að í dag erum við að brenna olíu, til dæmis í fiskimjölsverksmiðjum og fjarvarmaveitum.

Lífskjör á Íslandi byggjast meðal annars á því að við höfum borið gæfu til að nýta vatnsorkuna og jarðvarmann með nokkuð skynsamlegum hætti. En nú er komið að ögurstundu. Í dag sitja þrír flokkar í ríkisstjórn, tveir þeirra styðja orkuuppbyggingu en einn virðist vera á móti.

En Vinstri græn eru komin á nokkurn flótta í málinu því flestir, ef ekki allir, eru farnir að átta sig á tvískinnungnum sem hefur falist í því að vilja fara í orkuskipti en ekki virkja meiri orku, sem er forsenda orkuskiptanna eins og kemur skýrt fram í skýrslu starfshópsins. Það verður reyndar að teljast dálítil bjartsýni að telja að Vinstri græn muni horfast í augu við staðreyndir.

Óðinn hefði viljað sjá starfshópinn taka saman alla hugsanlega orkukosti á Íslandi og grófan arðsemisútreikning á þeim. Það gæti verið næsta verkefni Guðlaugs Þórs.

„Meðal bestu virkjana"

Einn af hagkvæmari orkukostum á Íslandi er svokölluð Arnardalsvirkjun í Jökulsá á Fjöllum.

Þann 10. ágúst 2019 birtist eftirfarandi frétt á vef umhverfisráðuneytisins:

„Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun). Þetta er fyrsta friðlýsing svæðis í verndarflokki rammaáætlunar. Undirritunin fór fram í Ásbyrgi og er hluti af átaki stjórnvalda í friðlýsingum. Jökulsá á Fjöllum er merkileg fyrir það hvernig vatnsafl hennar hefur sorfið og mótað Jökulsárgljúfur þar sem samankomnar eru nokkrar af helstu perlum íslenskrar náttúru. Dettifoss er álitinn aflmesti foss Evrópu og má í honum skynja þá krafta sem myndað hafa Ásbyrgi og Hljóðakletta. Andstæður krafts og friðar eru óvíða skýrari en í Hólmatungum þar sem tærir lækir og lindir renna út í beljandi jökulána."

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu 1. maí 2010 sagði Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, um virkjanakosti í Jökulsá á Fjöllum, en þar var hann meðal annars að svara Hjörleifi Guttormssyni:

Og þar [innsk. í rammaáætlun] er líka Arnardalsvirkjun í Jökulsá á Fjöllum, sem er í fyrsta sæti um lítil umhverfisáhrif og í öðru sæti um lágan stofnkostnað. Hjörleifur vísar til þess að árið 2007 hafi verið ákveðið að Jökulsá á Fjöllum skuli vera óvirkjuð um aldur og ævi. Á því ári lágu niðurstöður 2. áfanga Rammaáætlunar ekki fyrir og ekki var vitað að Arnardalsvirkjun ar meðal bestu virkjana á landinu, bæði varðandi lítil umhverfisáhrif og ódýra raforku. Skynsamir menn endurskoða áætlanir og samþykktir ef ný vitneskja gefur tilefni til.

Í skýrslu starfshópsins segir að virkja þurfi um 100 MW á ári næstu 20-30 árin til að tvöfalda raforkuframleiðslu. Það er töluvert. Til samanburðar er stærsta virkjunin á Íslandi 690 MW.

Arnardalsvirkjun gæti skilað 570 MW og er stærsti einstaki virkjunarkosturinn sem fjallað hefur verið um í rammaáætlun.

193 rúmmetrar eða 165

Rökin gegn virkjuninni eru meðal annars þau að rennsli, magn vatns í Jökulár á Fjöllum, myndi minnka. Í skýrslu Orkustofnunar frá árinu 2013 segir að rennsli á Dettifoss verði aldrei minna en 165 rúmmetrar á sekúndu. Meðalrennsli Jökulsár við Dettifoss er 193 rúmmetrar á sekúndu en í flóðum fer það upp undir 600 rúmmetra á sekúndu. Að auki þarf uppistöðulón og myndi heiðagæsavarp þar af leiðandi hverfa úr Arnardal. Samkvæmt talningu frá 2002 verptu 740 pör í dalnum.

* * *

Óðinn ætlar ekki að skera úr um hvort umhverfisáhrifin eru það mikil af virkjuninni að það útiloki hana. Það eina sem skiptir máli er hvort uppistöðulónin valda slíkum áhrifum að ekki sé forsvaranlegt að virkja. Breyting á vatnsrennsli, að því gefnu að tölurnar séu réttar, skiptir engu máli og heiðagæsir verða fljótar að finna sér nýjan samastað.

Það eru hins vegar ekki miklar líkur á því að allt sæmilega skynsamt fólk nái saman við hugmyndir öfgafólks þegar kemur að mati á virkjunarkostum.

Fórn íslenskrar náttúru?

Í fréttum Ríkisútvarpsins í síðustu viku var rætt við Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar.

Spurð um sjónarmið um þörf á tvöföldun, eða 125% aukningu, á raforkuframleiðslu vegna orkuskipta sagðist Auður ekki vera sammála því:

„Nei, alls ekki. Þetta er spurning um hvaða ákvarðanir við tökum. Með þessari ákvörðun, ef þetta verður úr, þá erum við að taka ákvörðum um að fórna íslenskri náttúru. Ég get ekki ímyndað mér að Íslendingar líti þá ábyrgð sem þeir bera gagnvart íslenskri náttúru, sem er einstök í heiminum, svo léttvæga að þeir séu ekki tilbúnir til að leggja neitt á sig til að vernda hana og forða henni frá eyðileggingu."

Svo bætti hún við þegar fréttamaður hafði spurt hana aftur hvort hún væri sammála niðurstöðu starfshópsins:

„Kannski ef eina markmiðið er að auka fjárhagslegt bolmagn þeirra sem ríkari eru, jú, þá kannski. En lífsgæði felast í svo miklu meira. Það eru gríðarleg lífsgæði að hafa aðgang að þessari einstöku náttúru, það eru lífsgæði að geta sýnt vinum sínum erlendis frá þessa einstöku náttúru sem við búum hérna yfir og verða jafnvel fyrir andlegri vakningu af þessari einstöku náttúru, stunda hérna útivist og bæta lýðheilsu með henni. Þannig að ég er alls ekki sammála þessu."

Það er rétt að við eigum að vernda íslenska náttúru. Það gerum við meðal annars með því að virkja hreina orku.

Óðinn er alls ekki viss um að erlendir vinir sínir og Auðar munu átta sig á því ef rennsli í Dettifossi fer úr 193 rúmmetrum á sekúndu í 165 rúmmetra á sekúndu. Óðinn er reyndar þess fullviss að hvorki Auður né Óðinn myndu átta sig á því. Og varla mun skipta miklu fyrir alla vinina ef heiðagæsirnar færi sig til og verpi í næsta dal.

Óspurðu spurningarnar

Og alltaf skal Ríkisútvarpið sleppa því að spyrja að því augljósa; hvernig Auður komist að þeirri niðurstöðu að verið væri að fórna íslenskri náttúru og hvernig hún fái það út að þeir sem ríkari eru myndu hagnast á virkjunum á Íslandi.

Ef marka má umfjöllunina hér að ofan um Arnardalsvirkjun má draga í efa að mikil aukning raforkuframleiðslu muni hafa verulega áhrif á íslenska náttúru. Hvað þá að hún verði eyðilögð með því.

Orkufyrirtækin eru að langmestu leyti í eigu hins opinbera. Þeir sem eru ríkir munu því aðeins hagnast á þessu ef orka verður seld til þeirra á lágu verði. Besta leiðin til að koma í veg fyrir það væri að leggja sæstreng mynda þar með rétt verð á orkunni. Auðvitað væri hægt að undanskilja heimili frá því verði. Sæstrengur yrði að auki líklega eitt mikilvægasta framlag Íslands til umhverfisverndar og minnkunar losunar í heiminum. Sæstrengurinn færi til Bretlands, þar sem 3,4% af orkunotkun eru með kolum, en kol menga tvöfalt meira en gas.

En stærsta óspurða spurningin er sú hvaða ákvarðanir Auður er að tala um. Er hún að segja að við eigum ekki að fara í orkuskipti? Er hún að segja að við eigum ekki að framleiða neitt á Íslandi með hreinni orku heldur láta það öðrum ríkjum eftir sem nota ekki hreina orku?

* * *

Atburðirnir í Úkraínu sýna að það þarf að bregðast hratt við. Olíuverð er komið í hæstu hæðir. Bensínlítrinn er kominn yfir 300 krónur á Íslandi. Sjálfstæði í orkumálum er lífsnauðsynlegt en ógöngur Evrópuríkjanna, ekki síst Þýskalands, ættu að vera okkur víti til að varast.

Þeir sem kenna sig við landvernd verða að færa betri rök fyrir máli sínu en upphrópanir sem eiga sér engan grundvöll.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .