*

mánudagur, 1. mars 2021
Leiðari
6. júní 2015 12:10

Forréttindastéttin

Með öðrum orðum geta forstöðumennirnir illa eða ekki sagt upp vanhæfu starfsfólki.

Haraldur Guðjónsson

Samantekt Viðskiptaráðs á aðstöðumun launafólks á almenna vinnumarkaðnum annars vegar og þeim opinbera hins vegar, sem gert er skil í blaðinu í dag, er vel þegin og þörf. Í henni kemur svo sem ekki margt nýtt fram, en það er með þetta eins og aðrar góðar vísur að þær verða seint of oft kveðnar.

Forréttindi opinberra starfsmanna eru veruleg og er ekki að öllu leyti tekið tillit til þeirra þegar nafnlaun þeirra eru ákveðin. Í raun má skipta þessum forréttindum í tvennt. Annars vegar njóta þeir annarra og mun betri lífeyrisréttinda en annað launafólk. Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru jú ríkistryggð og þau eru aldrei skert þótt efnahagslífið taki á sig holskeflu eins og þá sem reið yfir Ísland haustið 2008. Allir stærstu lífeyrissjóðir landsins þurftu að skerða lífeyrisréttindi sjóðsfélaga vegna gríðarlegrar eignaskerðingar, en slíkt hið sama átti ekki við um opinberu sjóðina.

Vissulega má segja á móti að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna jukust ekki vegna góðrar ávöxtunar lífeyrissjóðsins, eins og gerðist með marga almenna lífeyrissjóði, en eflaust þykir flestum öryggið meira virði en möguleg réttindaaukning þegar kemur að lífeyrisréttindum. Framlag launagreiðanda er einnig mun hærra í tilviki opinberra starfsmanna og safna þeir því hærra hlutfalli launa sinna í lífeyrissjóð í hverjum mánuði án þess að þurfa að leggja sjálfir fram meira fé í iðgjöld. Yfir fimmtíu ára starfsævi safnast þetta allt saman og skiptir máli. Seinna atriðið varðar starfsöryggi.

Þrátt fyrir þann mikla grátur og tanngnístran sem þjóðin þurfti að hlýða á í tíð síðustu ríkisstjórnar var hinn meinti blóðugi niðurskurður ekki mjög blóðugur. Gríðarlegt atvinnuleysi á árunum 2009 og 2010 kom nær eingöngu til vegna uppsagna í einkageiranum. Stöðugildum fækkaði aðeins hjá hinu opinbera og, eins og margoft var bent á í ræðum og riti var nokkur hundruð heilbrigðisstarfsmönnum sagt upp. Það var allt og sumt. Þúsundir misstu vinnuna í einkageiranum – margir til lengri tíma – en opinberir starfsmenn fengu enn launatékkann um hver mánaðamót.

Þá vita þeir sem það vilja að það getur reynst þrautinni þyngri að segja upp opinberum starfsmanni sem ekki vill víkja úr starfi. Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag, sem hún segir að dragi úr skilvirkni og árangri í ríkisrekstri. Hætt sé við því að forstöðumenn ríkisstofnana geti ekki sagt upp starfsmönnum þótt þá skorti „andlegt eða líkamlegt atgervi“ til að standa undir starfsskyldum sínum. Með öðrum orðum geta forstöðumennirnir illa eða ekki sagt upp vanhæfu starfsfólki.

Slíkir vanhæfir einstaklingar eru vonandi aðeins undantekningatilfelli, en þetta undirstrikar það starfsöryggi sem allir aðrir opinberir starfsmenn búa við. Þetta tvennt, betri lífeyrisréttindi og aukið starfsöryggi, eru gæði sem kosta skattborgara fé. Fyrir þetta eiga opinberir starfsmenn að greiða með einhverjum hætti, t.d. með því að sætta sig við lægri laun en þeir fengju ella á almenna vinnumarkaðnum. Ekki er að sjá að skilningur á þessu sé ríkur meðal forystumanna þeirra.

Stikkorð: Kjarasamningar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.