Tilgangur fréttamiðla er fyrst og fremst sá að miðla fréttum, áreiðanlegum, staðreyndum og sönnum. Og sem slíkir gegna þeir mikilvægu samfélagslegu hlutverki við útbreiðslu nauðsynlegra upplýsinga, þjóðmálaumræðu og við gangverk lýðræðislegs þjóðfélags. Í upplýsingu og vitneskju felst máttur og þess vegna eiga fjölmiðlar svo brýnt erindi við almenning. Ekki aðeins hvað varðar fréttir og álitamál líðandi stundar, heldur við útskýringu á flóknum viðfangsefnum –  hvort heldur eru orkupakkinn eða fjárlagafrumvarpið, gildi góðra bóka eða vandi bágstaddra — svo allir geti skilið. Í því felst nú aldeilis valdefling alþýðunnar!

En hangi fjölmiðlar á horriminni, þá er hætt við að þeir geti ekki sinnt hlutverki sínu.

* * *

Sumir segja að þetta erindi sé enn brýnna en áður, nú þegar vofa pópúlismans gengur yfir heiminn. Það er mikið til í því, en þá þurfa fjölmiðlar auðvitað að gæta þess að vera ekki með yfirlæti og þykjast geta sagt fólkinu hvað það er fyrir bestu. Hugsanlega tengist þetta, því pópúlistar víða um heim hafa horn í síðu „fjölmiðlaelítunnar“, en sá sem þetta ritar treystir sér nú ekki vel til þess að skera úr um í hvora áttina orsakasamhengið liggur, sé það þá fyrir hendi.

Það blasir við að það er ekki ýkja stór hópur, sem sækist eftir fréttum af peningastefnunni, bíllausum lífsstíl eða tyrfinni menningarumfjöllun, svo ef fréttirnar eru of alvarlegar missa þær marks hjá fjöldanum. Þeir miðlar, sem aðeins bjóða smellibeitur af einhverju sem þú trúir aldrei að gerist næst, lolketti og slebbafréttir, eru ekki mikið meira en dægradvöl, tímaeyðsla eða tál til þess að fanga athygli fólks meðan því er selt eitthvert dót.

Góður fjölmiðill er upplýsandi og góður samtíðarspegill, en góð blaðamennska snýst um að segja frá því sem máli skiptir og gera það nægilega lipurlega, helst skemmtilega, til þess að lesandinn hafi ekki aðeins gagn af efninu, heldur gaman af frásögninni.

* * *

Það rifjaðist raunar upp fyrir undirrituðum á dögunum, að Sigurður Grétar Guðmundsson heitinn skrifaði um árabil „Lagnafréttir“ í fasteignablað Morgunblaðsins, sem mögulega var eitt besta sérefni íslenskra fjölmiðla. Einstaklega sérhæft og óspennandi tilsýndar, en mjög praktískt og afar vel skrifað, þannig að hefði maður eitt sinn slysast til að lesa þær, þá gerði maður það aftur. Og aftur. Skólabókardæmi í blaðamennsku um að öllu efni megi gera þau skil að lesandinn fái áhuga á.

* * *

George Osborne, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, ritstýrir nú The Evening Standard, en hann var fenginn til þess að halda minningarfyrirlestur um framtíð fjölmiðla nú í mars. Áður en hann sneri sér að því spurði hann þó þeirrar spurningar hvort hefðbundnir fjölmiðlar skiptu ennþá máli. Hvort þeir hefðu einhvern slagkraft á dögum Facebook og Twitter.

Hann játaði að meðan hann hefði verið í stjórnmálum hefði hann litið svo á og raunar eytt miklum tíma og orku í að reyna að koma sér í mjúkinn hjá fjölmiðlum og einstökum blaða- og fréttamönnum. Meðan hann hefði verið í stjórnarandstöðu hefði það verið nær eina tækifærið til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við almenning, en eftir að hann komst í ríkisstjórn hefði það ekki verið síður mikilvægt til þess að eiga greiða leið að almenningi.

Hann varaði hins vegar við því að menn gerðu of mikið úr áhrifum fjölmiðla, minnti á að þeir sveifluðust oft í afstöðu og að þó þeir gætu mótað þjóðmálaumræðuna, þá væri það ekki svo að þeir segðu lesendum fyrir verkum. Þvert á móti þyrftu þeir að elta lesendur sína til þess að halda tryggð þeirra.

Um þetta tók Osborne sérstakt dæmi og sagði langflesta ofmeta áhrif fjölmiðla í Brexitatkvæðagreiðslunni (hann studdi aðild að ESB). Þvert á móti mætti segja að í henni hefðu riðið baggamun atkvæði fólks, sem teldi sig utanveltu gagnvart Lundúnaelítunni, kysi almennt ekki í þingkosningum og fæst sennilega daglegir blaðalesendur.

Svo niðurstaða George Osborne var að fjölmiðlar skiptu verulegu máli, en ekki öllu máli.

* * *

Kannanir benda til þess að um ¾ Breta noti netmiðla a.m.k. einu sinni í viku til þess að leita frétta, sem er ekki ósvipað því sem gerist á Íslandi, en líkt og þar eru helstu netmiðlar nátengdir hefðbundnari fjölmiðlum. Svo hið margfræga dagskrárvald er að miklu leyti enn hjá hinum hefðbundnu miðlum. En auglýsingatekjurnar þar eru í engri líkingu við það sem menn áttu að venjast á gullöld prentmiðla.

* * *

Svo vandinn er kannski fremur sá að meðan hefðbundnir miðlar skipta enn miklu máli, þá hafa þeir ekki lengur þá fjárhagslegu undirstöður, sem þarf til að standa undir hlutverki þeirra með þeim sóma, sem vera bæri.

Þar með er ekki sagt að prentmiðlarnir séu dauðadæmdir. Margir efnismiklir og vandaðir fjölmiðlar hafa þannig á síðustu misserum loks verið að ná árangri í áskriftarsölu eftir að hafa árum saman veitt opinn aðgang að efni sínu í von um að auglýsingatekjur hrykkju fyrir rekstrinum, sem þær almennt gerðu sér ekki. Þessir fjölmiðlar áttu sér hins vegar dygga og trygga lesendur, sem vilja borga fyrir áreiðanlegar fréttir, bragðmiklar fréttaskýringar og lífleg skoðanaskipti.

Vandinn er hins vegar sá að þessir lesendur eru yfirleitt vel stæðari en gengur og gerist, betur menntaðir og fá sér frekar ólívur en flögur yfir sjónvarpinu: Hin velmegandi miðstétt, sem aldrei hafði fyrir því að segja upp áskriftinni að Mogganum og les þennan pistil af áfergju.

Vandinn liggur miklu frekar hjá fjöldanum öllum, sem áður fyrr las Mogga eða DV daglega, en hefur fækkað mikið hjá Morgunblaðinu og lesturinn á DV orðinn eins og hann er. Fríblöð eins og Fréttablaðið höfðuðu til þessa hóps og varð vel ágengt um hríð, en jafnvel þó svo að blaðinu sé enn dreift frítt um allt höfuðborgarsvæðið og í nokkrum mæli utan þess hefur lesturinn samt dvínað engu síður en hjá Morgunblaðinu. Á alþýða manna sér þá einhvern fjölmiðil til að halla sér að? Jú, þar gegnir Ríkisútvarpið (RÚV) greinilega ríku hlutverki, eins og áhorfstölur og almennt traust bera með sér, þó þar hafi vinsældir fréttanna raunar einnig dvínað verulega á umliðnum árum. En hann er dýr, nýtur stöðugrar meðgjafar úr ríkissjóði og skekkir samkeppnisstöðu allra annarra miðla verulega.

* * *

Svo hvað er til ráða? Um það hafa menn skeggrætt um allar trissur og hver veit nema margboðað fjölmiðlafrumvarp menningarmálaráðherra líti einhvern tímann dagsins ljós. Áðurnefndur George Osborne drap raunar í fyrirlestri sínum á ekki ósvipaðar ráðagerðir í Bretlandi og af orðum hans er ljóst að ekki yrði hann ánægður með Lilju okkar.

Hann benti á að mönnum væri vandi á höndum um leið og ríkisvaldið færi að hlutast til um hvaða fjölmiðlar lifðu eða dæju, hvað skyldi birt í almannaþágu, vitaskuld, í stað þess sem almenningur hefur áhuga á.

Þess utan fylgi því ýmsar skyldur þegar fyrirtæki eða stofnanir fá opinbert fé til ráðstöfunar. Mættu fjölmiðlar á ríkisjötunni til dæmis kaupa illa fengin gögn um endurgreiðslur kostnaðar til þingmanna (eða um fjárreiður þeirra í bönkunum, svo nærtækara dæmi sé tekið)?

En þar fyrir utan felst auðvitað uppgjöf í viðtöku opinberra styrkja til þess að halda lífi í fyrirtækjum, sem til þessa hafa engum verið háðir öðrum en lesendum. Og síðan hvenær urðu niðurgreiðslur til þess að gera nokkurn rekstur sjálfbæran?

Þvert á móti hljóti menn að vilja efla samkeppni í fjölmiðlun, en opinberir styrkir myndu óhjákvæmilega slæva hana. Fjölmiðlar verða að vera sjálfstæðir eigi þeir að sinna hlutverki sínu. Það verða þeir ekki þegar þeir verða háðir góðgerðum stjórnmálamanna á kostnað skattborgara.